21.4.05

og ég hef gaman að því

Kannski vann ég sjö milljónir evra í risalottó um daginn. Kannski. Hver veit. Maðurinn minn segir að þar sem fimm vikur eru liðnar frá drætti, væru þeir farnir að auglýsa eftir ósóttum risavinningi. En ég trúi honum ekki. Trúi því frekar að ég eigi sjö milljón evrur á lottóskrifstofunni. Viltu vera vinur minn?

En meðan ég bíð eftir péningnum verð ég að taka þá vinnu sem býðst. Nú er ég að þýða bækling með afar tæknilegum lýsingum. Á flakki um netið í leit að svipuðum lýsingum datt ég niður á þetta:

Nemendum er kennt að öðlast sjálfstæði í mótun blautbylgna og mismunandi upprúlli með klípum ásamt úrgreiðslu.

Jáh, tæknimál lætur ekki að sér hæða.
Af hverju fór ég ekki í hárgreiðslu? Af hverju förum við ekki öll í hárgreiðslu? Er ekki gott að vera einstaklingur með sjálfstæði í mótun blautbylgna? Væri Ísland kannski betra land ef við værum öll klár í úrgreiðslu blautbylgna? Við skulum a.m.k. öll bera virðingu fyrir hárgreiðslufólki. Þau hafa þetta sjálfstæði.

Lifið í friði.