8.4.05

erfið ákvörðun, línufléttur o.fl.

Eftir töluvert hik og mikla umhugsun ákvað ég áðan að skrá mig í Samfylkinguna og styðja Ingibjörgu Sólrúnu. Ég hef verið afar óviss um margt í stjórnmálum undanfarið en ég veit þó að ég treysti Ingibjörgu Sólrúnu vel til þess að stjórna landinu okkar mun betur en þessir karlar frá vinstri og hægri sem öllu vilja ráða og ota stanslaust sínum tota.
Ég tek það þó fram að þetta er ekki bara spurning um að Ingibjörg er kona. Ingibjörg er einfaldlega heilsteypt manneskja sem hefur alltaf komið heiðarlega fram. Líka þegar hún hefur hlaupið á sig sem er ekkert nema eðlilegt. Eins og við segjum í þjónustubransanum: Þeir sem aldrei brjóta neitt eru þeir sem aldrei gera neitt.
Ingibjörg er sterk manneskja og því er hún hötuð af fólki í öðrum flokkum sem keppist við að níða hana. Það sýnir hræðslu þeirra við hana.
Ég er enn hikandi og líklega er ég að skrifa þetta til að sannfæra mig. Ekkert hikandi gagnvart Ingibjörgu, bara gagnvart helv... andsk... stjórnmálabulli yfir höfuð. Mér finnst óhugnalegt að lesa hluti eins og bæði Hnakkus og Baldító skrifa um að við getum lagt allt okkar traust í lagagerðir og forsjá yfirvalda. Fæ hroll niður bakið við tilhugsunina um að fólk sé ánægt með hlutina eins og þeir eru. Það er ekki allt í lagi. Það er líklega það versta sem við getum hugsað okkur, að allt sé í lagi. Við eigum stöðugt að spyrja okkur: Hvað má laga? Hvað má betur fara? Hverju þarf að breyta? Ef við hættum því er voðinn vís.
Ég held að Ingibjörg gæti af skörungsskap sínum og heillyndi breytt einhverju til hins betra. Verst að hún er ekki í sérframboði, það hefði eytt öllum mínum efasemdum.

Litla hálfnafna stjórnmálaskörungsins vildi fá fléttur í morgun. Hún fékk þær. Svo vildi hún að flétturnar stæðu út í loftið eins og á hetjunni hennar, Línu Langsokk. Mamman sagðist ekki geta gert það. Þá fnæsti sú stutta eins og reiður hestur og mamman varð hrædd og fann lausn á vandamálinu. Hver sagði að maður ynni ekki vel undir álagi? Nú verð ég bara að fara að læra að setja myndirnar inn á síðuna. Er bara hálfhvekkt eftir html-ófarirnar um daginn. Allir linka svo flott í pistlunum sínum og ég get það ekki. Pourquoi?

Er engin frönsk mynd á kvikmyndahátíð? Á maður að vera móðgaður eða er þetta bara enn ein sönnunin á skorti á góðum frönskum myndum þessa dagana?

Best að finna sér eitthvað til að vera í. Er að fara að taka á móti mikilvægu fólki sem ég verð að leiða um borgina alla helgina. Stórmenni. Eru leiðsögumenn bundnir þagnareiði? En í hverju á maður að vera í rigningu og smá hlýindum en samt ísköldu roki? París tekur ekki vel á móti íslenskum stórmennum í apríl.

Lifið í friði.