22.4.05

verð og gildi

Um daginn las ég einhvers staðar hugleiðingu út frá bókamarkaðnum þar sem einhver fáraðist yfir því að bók Vigdísar Grímsdóttur, Þögnin, hefði bara kostað 300 krónur. Það þótti ritaranum ekki við hæfi, þar sem Þögnin væri svo frábært verk, þetta var einhvers konar lítilsvirðing. Ég las nú Þögnina á sínum tíma og þótti hún sæmileg, Vigdís hefur aldrei náð að toppa Kaldaljós í mínum huga og það truflar mig alltaf við lestur bóka hennar. En það er ekki málið. Málið er enn og aftur verðgildi lista og menningar. Oft hefur verið grínast með að verðleggja myndlist í fermetrum. Á að verðleggja bækur í orðum? Og kannski gefa hverju orði ákveðið mörg stig, svipað og stafastigin í Scrabble?
Þá gæti miðinn utan á bókinni á bókamarkaðnum verið: Vigdís notaði frekar dýr orð um alla bók, bókin er svo og svo mörg orð, svo bókin getur aldrei farið undir 3000 krónur. Þetta er besta verðið sem hægt er að bjóða.
Mér hefur alltaf leiðst þessi óþarfa (að mínu viti) umræða um verðgildi listarinnar. Þetta er vonlaus umræða af þeirri einföldu ástæðu að peningar eru bara svo ómerkilegur hlutur að það er aldrei hægt að jafna þeim við listsköpun. Þetta virðist fólk ekki vilja skilja, þó allir hafi skilið og samþykki nokkuð auðveldlega að ekki er hægt að mæla ást eða mannslíf í peningum. Það er í raun fátt sem raunverulega er hægt að mæla í peningum. Afar fátt. Verðgildi er afstætt hugtak þó krónan, dollarinn og jenið séu það kannski ekki.
Ef ég væri Vigdís Grímsdóttir og lallaði mér á bókamarkað og sæi að bókin mín fengist þar á 300 krónur myndi ég gleðjast yfir því. Fleiri munu nú skella sér á eintak, fólk sem hikaði mun nú láta verða af því að lesa bókina. Og það hlýtur að vera megintilgangur skrifa Vigdísar. Ég held a.m.k. ekki að hún velji orð eftir stigum úr stigatöflu eða geri bókina langa til að hún verði seld dýrara verði.
Ég held að flestir listamenn séu langþreyttir á þeirri staðreynd að til að lifa þurfi pening. Það truflar listsköpun og í raun er það alveg hreint ótrúlegt hvað listin nær þó að lifa og þrífast í kapítalísku þjóðfélagi. Það er eingöngu hugsjónafólki að þakka.

Einn góðan veðurdag hverfur peningurinn úr heimsmyndinni. Það mun gerast fyrr en síðar. Það byrjar í hugum okkar jarðarbúa.
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Einn daginn munið þið ganga í lið með mér. Og heimurinn verður ein heild.

Lifið í friði.