26.4.05

markaðurinn

Fór á flóamarkaðinn risastóra um helgina. Með fjölskyldunni og einn gest. Sem er þekktur hér en ég þori ekki að nafngreina án hans samþykkis. Fyrirsögnin er tengill í heimasíðu markaðarins.
Þrátt fyrir rigningu er alltaf gaman að koma á fló. Þetta er svona kolaport í tíunda veldi plús öll galleríin og antíksalarnir sem okra á velsnyrtum húsgögnunum. Við vorum það snemma á ferð að söngvararnir hjá Louisette voru ekki komnir í gang. En jólaskreytingarnar voru gylltar eins og vanalega. Sumir hlutir breytast ekki og það er svo gott og þægilegt.
Við sáum fullt af alls konar litu fólki, stúlkum í magabolum og strákum í hettupeysum og körlum í kjólum en enga forríka sérvitringa í svörtum pels á Rolls Royce í þetta skiptið. Rúta gubbaði út úr sér 20 þýskum túristum meðan við biðum eftir gestinum við metróstöðina.
Við féllum fyrir arni sem var ekki í mínimalískum stíl. Til að setja hann upp hér í stofunni þyrftum við að kaupa íbúðirnar einni og tveimur hæðum neðar og brjóta niður gólf/loft upp hingað. Þessi arinn hefur líklega verið byggður fyrir kastalann sem ég fæddist í á 17. öld. Mér fannst ég kannast við hann. Hef líklega verið þvegin þarna fyrir framan og vafin í silki og lögð í vöggu. Ég vorkenni stundum íslensku nútímafólki sem aðhyllist mínimalismann. En ég er bara ég. Og þið megið alveg vera mínimalistar ef þið bara eruð ekki hrædd við skapandi listir og lifandi menningu.
Og umfram allt, munið bara að til að geta gefið flottan skít í hlutina, þarf maður að skilja þá.

Lifið í friði.