bland í poka
Ég er komin með glerharðan upphandleggsvöðva á hægri handlegg. Mér er illt í lófanum og vísifingri. Mér er illt í öxlunum. Mér er hrikalega illt í fótunum. Þetta verður vonandi ágætis upphitun fyrir sumarvinnuna. Byrja að túristast strax núna á miðvikudaginn og verð að vinna alla helgina. Gaman gaman. Verst fyrir greyið Lucien sem verður að bjarga sér sjálfur í málningarvinnu. Hann hefur aldrei málað áður svo ég sagði honum að hann mætti bara mála hluta sem sjást ekki, inni í skápum og undirlagið ætti að vera í lagi að hann geri. Ef ég næ að spasla og slétta í dag.Frí fyrir hádegi þar sem drengurinn ákvað að djamma í gær. Svo ég ætla að njóta dásamlegs veðurs og fara með börnin á hátíð hér í Copavogure. Dýr og málning og fleira skemmtilegt.
Það var svo heitt í gær að ég sá konur á litlum kjólum í sandölum. Oh, get ekki beðið eftir að sýna mína snjakahvítu leggi! Það er alltaf erfitt fyrstu vikurnar, þessar frðnsku eru svo brúnar að eðlisfari að þær verða aldrei svona endurskinsmerkishvítar eins og ég er frá september til loka júní. Næ upp brúnku á þessum tveimur mánuðum, maí og júní og hún rennur af sama daginn og maður þarf að fara í síðbuxur á ný. Lengi að koma, fljót að fara, alveg öfugt við spikið.
Annars er ég búin að vera að lesa um stam í allan morgun. Komst að því að ég á ekki að hafa áhyggjur af Sólrúnu sem er farin að stama ansi mikið og oft, fyrr en eftir u.þ.b. tíu mánuði. Ég er alveg í rusli yfir þessu. Þessi klára stelpa sem talar bæði frönsku og íslensku, skiptir vel á milli og þýðir það sem ég er að segja fyrir pabba sinn ef henni finnst ég skilja hann útundan er farin að stama í annarri hverri setningu. Ég vona að hún tilheyri 85 prósent hópi stúlkna sem byrjar skyndilega og hættir jafn skyndilega innan 12 mánaða. Eftir það er farið að tala um krónískan stamara. Ég hef oft sagt að ég yrði svo sorgmædd og hissa ef börnin mín væru lesblind. Ég held að stamið sé alveg jafnerfitt fyrir mig að þola. Ég stífna upp í hvert skipti sem hún stamar. En nú er ég farin út í sólina.
Lifið í friði.
<< Home