15.4.05

100 dagar

Í dag eru 100 dagar liðnir frá því að franski blaðamaðurinn Florence Aubenas og túlkurinn hennar Hussein Hanoun al-Saadi voru tekin í gíslingu í Bagdad. Það er allt að verða vitlaust í Frakklandi út af þessu máli og getuleysi stjórnvalda er orðið neyðarlegt. Frakkar voru á móti stríðinu og hafa ekki viljað láta sér nægja fréttir framreiddar af Rumsfeld, þó flestir fjölmiðlar hafi nú sent eftir útsendurum sínum því ekki telst öruggt að vera þarna fyrir blaðamenn.

Ég minni enn og aftur á að í Írak eru framdir glæpir á hverjum degi. Að í Írak deyr saklaust fólk á hverjum degi. Að í íraskri fjölskyldu er grátið jafnmikið og jafnsárt eins og í íslenskri fjölskyldu yfir ástvinamissi.

Ég minni einnig á að bandaríski herinn skaut á bílinn sem ók ítalska blaðamanninum til frelsisins og að hún segir að þeir hafi viljað myrða hana fyrir það sem hún veit.

Þó að margt annað sé að hugsa um og megi betur fara, verðum við öll að vara okkur á því að gera ekki ástandið í Írak að sjálfsögðum og óbreytanlegum hlut í okkar hugum. Við erum jú skrifuð fyrir þessu ástandi, þökk sé þeim sem við kusum til að stjórna landinu okkar.

Lifið í friði.