16.4.05

í gær

Í gær horfði ég á hádegisfréttir bara af því ég hafði frétt af þessum hörmulega bruna. Hádegisfréttirnar slógu mig algerlega út af laginu og dagurinn fór allur í vaskinn.
Fyrst gleymdi ég að taka upp þátt fyrir manninn minn. Svo gleymdi ég bóluefnunum sem átti að sprauta börnin mín með, mundi það eftir tíu mínútna bið hjá lækninum og rauk út og heim og náði í efnin (með tilheyrandi veseni við að binda börnin í bílinn og allt það). Læknirinn hundskammaði mig því hún átti efnin í ísskáp og hefði getað lánað mér og nú væri seinkun á öllum tímum. Það rigndi eldi og brennisteini þegar við komum út frá henni svo við urðum að hafa drekkutímann í bílnum og Sólrún steig í stóran poll. Svo fórum við að skoða málningu í Byko og Kári varð að litlu skrímsli. Þarna var virkilega kominn tími fyrir mig til að hlaupa á brott og læsa mig inni á baðherbergi einhvers staðar með heitu vatni og ilmsöltum. En ég hafði það af að binda Kára niður í kerru og láta sem ég heyrði ekki í honum og ná tali af málningarsölumanni og fá þær upplýsingar sem ég þurfti. Ég þurfti vitanlega líka að láta sem ég sæi ekki undarlegan svip mannsins sem horfði stöðugt á Kára meðan hann gaf mér upplýsingarnar. Svo fórum við í garðinn sem var allur eitt drullusvað eftir rigninguna en sólin skein svo það skipti ekki máli þó við litum öll út eins og motocross-lið eftir smá rólur og rennibraut.
Svo komum við heim og ég fór að ruslatunnunum með leifarnar af drekkutímanum (fyrir utan alla mylsnuna sem þarf að ryksuga einn góðan) og henti bíllyklunum með ofan í næstum því tóma tunnu. Þá hafði ég val um að leggjast niður á stéttina og gráta eða fara að hlægja. Sem betur fer tókst mér að velja síðari kostinn og kafaði flissandi ofan í ilmandi tunnuna undir undarlegu augnaráði konu sem var að elda með opinn gluggann. Ég bauð henni tíuþúsundkall fyrir kvöldmatinn en hún sagði að hann væri ekki til sölu. Sendi kallinn út eftir kínverskum teikavei því það kemur ekki til mála að elda eftir svona hrakfarir, nennti ekki að taka þá áhættu að borða brennt eða skemmt.
Sofnaði klukkan tíu.
Ég ætla aldrei að horfa aftur á hádegisfréttir. ALDREI.

Lifið í friði.