föstudagsblús
Það er búið að brjótast um í kolli mínum í allan morgun, hvort er verra: Slys eða hryðjuverk?Fólkið sem dó í hótelbruna í París í nótt, voru mörg hver búsett þarna. Líklega vegna bágs fjárhags og erfiðleika við að fá verkamannaíbúðir eða aðra hjálp til að koma sér fyrir. Fréttamennirnir hamra stöðugt á því að líklegast þyki að um slys sé að ræða, að engin ástæða sé til að ætla að glæpur hafi verið framinn. Hvers vegna skiptir það mestu máli? Meðan maður sér aðstandendur á barmi taugaáfalls því erfitt er að fá að vita nákvæmlega hverjir létust og hverjir lifa og í hvaða ástandi, er fréttamaðurinn að tala um þetta sem mér finnst eiginlega aukaatriði. Ég kemst ekki að neinni niðurstöðu. Ég get ekki sett mig í stellingar og hugsað að mér þætti verra (eða betra) að vita að einhver hefði kveikt í af hrottaskap eða til að vekja athygli á einhverjum málstað. Fólkið henti sér út úr brennandi byggingunni, konur köstuðu börnunum sínum á undan. Lýsingar og myndir minntu óþægilega á þiðvitiðhvað í New York um árið. Skyldi fréttamaðurinn vera svekktur yfir því að þetta var "bara" slys?
Þetta leiddi mig til að hugsa um það sem ég heyrði um daginn í sambandi við Sicaction, söfnuninni til styrktar baráttunni gegn eyðni, um að hver mánuður jafngilti einum tsunami. Að heimurinn hefði risið upp um áramótin og öskrað harm sinn og allir keppst við að senda pening til aðstoðar fórnarlömbunum en að jafnmargir deyja úr eyðni í hverjum mánuði án þess að nokkur nenni að tala um það.
Og þá datt mér í hug auglýsingaherferðin sem ég sá talað um í einhverjum fréttaþætti um daginn. Þrjár sekúndur, tikk, tikk, tikk og einhver nýr deyr af völdum fátæktar. Tikk tikk tikk, annar. Tikk tikk tikk og enn annar. En maður ýtir þessari hugsun frá sér. Að nú er ég búin að sitja hér í einhverjar mínútur og á hverri mínútu dóu 20 manns úr hungri eða einhverjum sjúkdómi sem líklega hefði verið hægt að lækna með lyfjunum sem við syndum í hér á þessu svæði hnattarins okkar skrýtna.
Það er erfitt að vera nútímamanneskja og lifa í vellystingum án þess að finna fyrir nagandi samviskubiti. Samt heldur maður áfram. Samt sest ég niður beint eftir fréttatímann og fer að lesa bók um París og gleðst yfir nýjum spennandi upplýsingum um gamla höll. Lífið er geðveiki. Tikk tikk takk.
Lifið í friði.
<< Home