12.4.05

húmor og catharsis

Pulla talar um auglýsingu frá Umferðaráði þar sem fram kemur lítill drengur sem er mikið kvikindi. Þessi auglýsing hefur víst vakið viðbrögð og veldur foreldrum hugarangri því, eins og Hildigunnur bendir á, finnst litlum drengjum þessi kvikindislegi algjör töffari.
Ég held að lítil börn og foreldrar þeirra hljóti stöðugt að þurfa að glíma við það að stúdera hegðun og setningar og hvað má gera og segja og að ef þau glími ekki við það sé eitthvað mikið að. Skilst þessi setning? Ég meina, ef foreldrar hafa kveikt á sjónvarpi, útvarpi, ef börnin fara á leikskóla, í skóla, ef þau fara á meðal fólks, hljóti alltaf að koma upp aðstæður þar sem foreldrar þurfa að benda börnum sínum á að þarna sé grín á ferð eða að þarna sé hálfviti á ferð og að þau eigi alls ekki að apa upp það sem gerðist.
Það þarf enga fyndna auglýsingu sjónvarpinu til að lenda í hálfvitum sem hegða sér illa. Nóg að fara í langa röð í bakaríinu eða Húsdýragarðinum. Nóg að skreppa út í umferðina...
Ég held að allir foreldrar hljóti að vera sammála því að ef einhverjir foreldrar uppástanda að þau þurfi aldrei að útskýra neitt fyrir börnum sínum, er það ekki vegna þess að þeim takist að vernda þau gegn öllu slæmu heldur eru þau hreinlega löt eða heimsk.
Börn skilja ekki húmor hjálparlaust. En þau ná samt að skilja það, EF maður útskýrir það fyrir þeim, að stundum er eitthvað sagt eða gert í gríni. Mér finnst a.m.k. dóttir mín gera það. Við leyfum okkur stundum að grínast með börnunum þó að bækurnar vari við þessum þætti í barnsheilanum að geta ekki greint grínið sjálfur.
Börn eiga ekki að horfa á sjónvarpið ein. Þau geta horft á spólur og ákveðna þætti ein, en foreldrarnir eiga alltaf að vera viðbúin auglýsingahléum og vera þá með þeim. Nema þeim sé slétt sama um að börnin þeirra fái brenglaða sýn á lífið og heiminn.
Barnsheilinn er kannski ekki eins þroskaður og okkar fullorðni ofurþroskaði heili (hm...) en þau skilja og skynja svo ótrúlega margt að stundum verður manni um og ó. Þægustu bræður sem ég hef á ævinni þekkt eiga þá hömlulausustu foreldra sem ég veit um. Pabbinn er stundum svo dónó að maður roðnar. En það er alltaf í einhvers konar gríni og drengirnir skilja þetta og hafa líklega engan áhuga á að prófa að vera dónó þar sem heima hjá þeim er það svo venjulegt ástand.
Ég man alveg þegar ég var að kenna Lindu vinkonu að segja eitthvað dónalegra en rass. Inni á klósetti svo mamma hennar heyrði ekki. Öll börn ganga í gegnum það að prófa að vera dónaleg og hrekkjótt til þess að geta síðan orðið nokkuð góðir og heilbrigðir einstaklingar. Þetta er eins konar catharsis (sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku, ókei ég skal kíkja í orðabókina, bíðiði... ekki þýtt?!) eða hreinsun á sálinni, útrás... Jæja, þið sem hafið farið í gegnum langt og erfitt háskólanám skiljið mig. Hinir geta bara lært orðið og þóst skilja það og notað í gríð og erg næstu daga. Ha? (hér var húmor á ferð fyrir þá sem hafa vanþroskaða heila). Nú er ég komin út í tóma vitleysu með þetta blogg sem átti að vera gáfulegt og skýrt.

Lína Langsokkur er gott dæmi um það hvernig Svíar hafa verið sterkir í þessari uppeldisaðferð með catharsis. Vissuð þið að Lína var mikið ritskoðuð þar til fyrir örfáum árum hér í Frakklandi? Hún átti foreldra á lífi og gerði ekki helminginn af prakkarastrikunum. Tengdamamma var að passa um daginn og horfði á sænsku sjónvarpsmyndina með dóttur minni og gat ekki leynt hneykslan sinni (þó hún reyndi). Hún kemur nú stanslaust með athugasemdir um að já, stelpan sjái þetta hjá Línu svo við getum ekki kvartað yfir t.d. klifurþörf hennar, við leyfum henni að horfa á þetta!

Stundum horfi ég á börnin mín og fæ þungan sting í magann. Á mér eftir að mistakast? Verða þau ódælir og vondir einstaklingar? Get ég breytt einhverju núna strax til að koma í veg fyrir það? Er allt rangt sem ég geri? Eða eru þau fullkomin eins og þau eru einmitt núna?
Maður veður í villu og svíma síðan börnin komu í heiminn. Maður reynir að gera eins vel og hægt er, maður vonar og biður að þau verði ekki fíkniefnum og öðrum viðbjóði að bráð. Að þau læri kurteisi og mannasiði og komist einhvern veginn áfram í lífinu. Að allt verði í lagi.
Líklegast verður allt í allra besta lagi. Mér finnst a.m.k. best að hugsa þannig.
En ég vil frekar vera klæmin en væmin eins og Sverrir snillingur Stormsker orðaði það svo glæsilega. Og að börnin mín séu það líka. Mér leiðist "pólitísk rétthugsun" alveg óstjórnlega mikið.
Mér finnst Lína fyndin og þessi auglýsing líka þó ég hafi ekki séð hana. Get bara ímyndað mér hana eftir lýsinguna hjá Pullu. Og hlæ hátt og snjallt.

Hláturinn lengir lífið og lífið lengir hlátur eins og Ómar sagði.

Mig langar að enda á einni ömurlega móralískri ábendingu, ég bara get ekki haldið í mér eftir símtal við einn nýbúa í gærkvöld sem lýsti fyrir mér ástandinu: Íslendingar, slökkvið á imbakassanum! Sumarið er að koma, hættið öllu glápi! Prjónið, lesið, spilið, gerið allt þetta sem ykkur langar alltaf til að gera en hafið aldrei tíma til.

Lifið í friði.