hjólað í París
Noh,
Ferðalangur.net var á undan mér að segja frá hjólunum í París.
Um daginn var ég á leið um 7. hverfi að kvöldlagi. Á gatnamótum birtast þrír jakkafataklæddir karlar á fimmtugsaldri, ægilega fínir og smart, örugglega með feit veski og "falleg"* úr, allir á Vélib' hjólum. Ég fékk kökk í hálsinn. Svona álíka og fólk lýsir að gerist þegar það horfir á Gay Pride. Ég kannast nefninlega líka við það. Það er einhver ótrúlega góð byltingartilfinning að sjá fólk sem óvanalegt er að sjá hjólandi, hjólandi.
Vélib' er frábær viðbót við flotta borg og gengur svo vel að farið er að nefna borgarstjórann sem tilvonandi forsetaefni sósíalistanna. Verst hvað það er stutt síðan núverandi forseti var kjörinn, Delanoë verður ekkert endilega á stalli fyrir þetta í fjögur ár, en hann er helvíti góður í baráttunni gegn einkabílnum, leggur borgarstjórastöðu sína hiklaust að veði í því stríði, og hefur rifið upp almenningssamgöngur sem er einmitt það sem allar nútímaborgarstjórnir ættu að einbeita sér að, vilji þær geta kallast nútímalegar og framsæknar.
Lifið í friði.
*mér finnst í raun undarlegt að tala um fegurð úra. A.m.k. á ég hér við að þeir séu með dýr úr og, trúið mér, það er ekki beintenging milli verðs og fegurðar úra.
lyst á list?
Ég á vinkonu sem er listakona, listamaður, listaálfur, lífslistakonumaður, köttur sem fer sínar eigin leiðir, trúuð en ekki kirkjurækin eða undirgefin, stundum grænmetisæta, stundum ekki, leitandi en samt með allt sem er inni í sjálfri sér.
Hún hefur málað og leirað um nokkurt skeið og er nú komin með verkin sín á netið. Dömur mínar og herrar,
njótið heil.
Lifið í friði.
kíghósti
Nágrannakona mín og móðir þriggja aukabarna minna er búin að vera lasin og dauf í tvær vikur. Í gær fór hún til læknis sem sagði henni að rífa þetta úr sér með panódíl(i?). Í gærkvöld fór hún svo að hósta með soghljóðum og eftir símtal við lækninn í morgun á að taka sýni til ræktunar því honum finnst þetta hljóma eins og kíghósti.
Meðgöngutími kíghósta er 5-15 dagar. Ég er búin að vera hálfslyttisleg alla þessa viku, skilaði óvart hálfkláruðu verkefni, áttaði mig á því um nóttina að það sem ég hafði geymt hafði ég svo gleymt, ég lá í sófanum og las blogg og leysti sudoku í heilan dag og fékk þann úrskurð frá góðri konu að líklega væri ég maníusjúklingur, komin niður úr maníunni sem ég hef verið í undanfarnar vikur, ég nennti ekki út með skemmtilegu fólki í gærkvöld og mér er illt í hálsinum og það leiðir út í eyra.
Ég trúi því samt ekki að ég sé komin með kíghósta. Ekki það. Ekki ég. Ekki núna.
En ég held að ég fari kannski að spá í endurbólusetningu. Maðurinn minn fór í slíkt fyrir ári síðan, hann er mun duglegri en ég að hlýða læknum.
Lifið í friði.
þegar ég vakhnaði um morguninn
Ég finn til í öllum skrokknum. En mér líst vel á þessa tíma. Við vorum þrjár nýjar, allar hinar þekktust sín á milli og þekktu kennarann sem er unaðslega sætur með tröllalokka og allt.
Kellingarnar flestar eldri en ég og flissuðu eins og smástelpur þegar hann gantaðist í þeim. Svo töluðu þær hver í kapp við aðra og stundum þurfti kennarinn að sussa á þær. Það er ekki bara í verkefnavinnu í fjarnámi sem mér líður eins og ég sé aftur komin í ellefu ára bekk. Hlýtur að vera gott fyrir húðina allt saman, ég ætti kannski að hafa áhyggjur af því að verða enn barnalegri í útliti?
Allar erum við sammála um að vilja ekki hlaupa neitt of mikið en kennarinn segist þó vilja sjá árangur og auðvitað viljum við allar gera honum til geðs, hann er svo sætur. Reyndar er einn karlmaður í hópnum en hann fílar sig svo vel að hann er alveg eins og einn af stelpunum svo ég mun tala um kvennahópinn minn áfram.
Og stemningin milli kvennanna kom mér á óvart, alveg sama fjörið og í Baðhúsinu hjá Lindu í denn. Ég man ekki eftir að hafa lent í svona hérna, það var mun stífari stemning í leikfiminni sem ég fór í inni í París í fyrra. Fullt af indælu fólki þar, en ekki svona stanlaust stuð og grín eins og þarna í gær.
Ég var samt töluvert fúl yfir því að lummufötin mín skáru sig ekkert úr. Allar voru þær bara í óskaplega venjulegum íþróttabuxum og bolum, ekkert merkja- eða tískusnobb í gangi. Mér finnst nefnilega svo gaman að vera eins og lúði innan um íþróttafrík í flottu göllunum sínum. En ég er ekki nógu svekkt til að það hafi áhrif á mætinguna, ég SKAL vera dugleg í vetur. Áfram Kristín!
Lifið í friði.
ég...
... er að fara út að trimma. Reyndar er rigning og þar sem þjálfarinn er væntanlega franskur verður kannski ekki farið út því rigning er óveður í París.
En ég er samt að fara, sjálfviljug, í hrottalega hallærislegum íþróttafötum og -skóm, út að hitta hóp fólks sem ætlar saman út að trimma.
Já, stundum getur kona komið sjálfri sér á óvart.
Lifið í friði.
tvær sögur
Samkvæmisleiknum er lokið. Alvaran tekin við:
Fyrst skaltu lesa
þessa.
Síðan
þessa hér.
Af hverju er það svo að manni finnst maður þurfa að skammast sín fyrir að vera Íslendingur oftar og oftar? Var þetta kannski líka svona í gamla daga? Verð að muna að spyrja mömmu og pabba að þessu næst.
Lifið í friði.
grundvallagata 12
Það er
samkvæmisleikur í gangi hjá norninni Evu. Gaman að leika. Tek sénsinn á því að vera tekin alvarlega. Það er allt of algengt að fólk taki mig alvarlega. Slæm mistök, stundum.
Ég er á kafi í kvíslgreiningu, kyni tölu föllum háttum tíðum og öðru slíku og það getur leitt til mikillar þarfar fyrir að bulla, það er eitthvað svo hátimbrað athæfi að kvíslgreina. Vinkonu minni heyrðist ég vera að hvíslgreina. Samt var ég ekki að hvísla þegar ég sagði henni það. Svona er þetta undarlegt stundum.
Ég hef ekki heyrt neitt um þátt tvö. Var hann svona góður eða var hann svona slæmur? Er hann kannski ekki vikulegur? Var ég annars búin að kvarta yfir brussuganginum í þætti eitt með að margendurtaka að titillinn er margræður? Gereyðilagði margræðnina. Dæmigerð byrjendamistök, sem er furðulegt í ljósi reynslu mannsins.
Annars hef ég pælt í því í nokkra daga hve erfitt er að greina milli brussugangs og dónaskapar. Lenti nefninlega í samtali um daginn þar sem mér þótti viðmælandinn mjög dónalegur. Held samt að viðmælandanum hafi fundist hann mjög eðlilegur og það sem beðið var um mjög sjálfsagt. Hef varla hætt að hugsa um þetta og naga mig í handarbökin bæði yfir því að hafa orðið kjaftstopp í staðinn fyrir að segja: Mér misbýður. Og nú er það of seint.
Hvað gerir lítil kvíslgreind kona þá?
Lifið í friði.
ciel mon mari!
Maðurinn minn segir börnunum sögur af Le petit lutin á hverju kvöldi. Þessi hefð byrjaði í tjaldútilegu á Normandí fyrir nokkrum öldum síðan. Þá áttu börnin eitthvað erfitt með að róa sig niður í spenningnum yfir því að vera í tjaldi og brá karl á það ráð að segja sögu. Síðan hefur eingöngu verið sleppt úr þeim fáu kvöldum sem hann er ekki heima þegar farið er í rúmið og auðvitað þegar við erum stödd í öðru landi en pabbinn.
Það hefur gengið á ýmsu hjá Le petit lutin. Hann á góðan vin sem heitir Haraldur og vinkonu líka sem ég man samt ekki hvað heitir. En í sögunni hafa undanfarið verið persónurnar David Beckham og Yasmina Reza. Ég heyri bara undan og ofan af atburðarrásinni og hef alveg gleymt að spyrja hann hvað hún Yasmina sé að gera þarna, ég held að Beckham sé lélegur í fótbolta í sögunni, eða er hann að kenna litla álfinum? Ekki viss.
Yasmina Reza var nýlega að gera pínulítið á sig í hópi intellóelítunnar með bók um Sarkozy og kosningabaráttuna þar sem hún sleikir mest rassa, skilst mér og kafar ekki nógu djúpt í pælingar um vald, valdafíkn og einsemdina sem fylgir völdum.
Ég væri alveg til í að sjá
Listaverkið aftur. En nenni ómögulega að lesa óð um Sarkozy.
Lifið í friði.
Ég játa eitt á mig
Ég sagði einhvers staðar í athugasemd(held að það hafi verið hjá Hildigunni) að mér þætti fyndið að einhver karl væri að tala um að mæta með trúboð í miðbæinn um helgar til að bjarga "ástandinu". Ég hafði þá ekki græna glóru um að þessi karl væri háttsettur hjá lögreglunni, taldi hann vera frá Ómega eða Krossinum, Veginum, Síðari daga heilögu eða einhverri slíkri menningarstofnun. Ég bið hér með forláts. Þetta er ekkert svo rosalega fyndið.
Og þó... kannski hægt að hlæja "gulum hlátri" eins og Frakkar kalla þann bitra?
Þetta ætti að kenna mér að hætta að gaspra um hluti sem ég veit nákvæmlega ekki neitt um. En það mun þó að öllum líkindum ekki gera það.
Lifið í friði.
það er ekki það
að mig langi ekki til að blogga, það er bara svo brjálað að gera hjá mér. Tímanum er skipt milli náms og vinnu, barna og karlinn fær svo sjúskaða rest sem felst í fósturstellingu í sófa eða uppi í rúmi með tilheyrandi hrotum.
Það er gaman að læra en ferlega er þetta nú erfitt fyrir svona gamlar kerlingar.
Ég er búin að hlusta á einn af fyrirlestrum þriðjudagsins og ætti að ná að hlusta á hina þrjá á morgun. Þá er ég væntanlega búin að ná upp réttum takti. Í bili. Verst að ég hef næstum aldrei tíma til að lesa neitt að ráði, gríp niður hingað og þangað svona meðan ég hræri í pottum.
En ég er að springa, hef svo mikið að segja um konurnar sem komu til Íslands um daginn og kenna íslam um allt, um bókmenntaþátt sem á heima í útvarpinu, enda sjónvarpið bara ruslmiðill og hana nú og bara um ditten og datten en það verður að bíða betri tíma.
Fáið ykkur rjóma.
Lifið í friði.
ég veit ekki með Björn og Friðrik,
en þið hin ættuð að skella ykkur á þykka og væna
ljóðabók á þúsundkall núna strax.
Lifið í friði.
myndaorðabókin
Ég á afmæli eftir nokkra daga og er ekki í nokkrum vafa um að byrjað sé að safna í pott til að kaupa
þessa bók handa mér. Ég uppgötvaði þessa tegund orðabóka fyrir löngu síðan í bókaverslun í París en átti þá engan pening. Svo kom ég síðar og leið eitthvað betur í pyngjunni en þá fríkaði ég út á valkostunum og fór út með það í huga að gúggla upp umsögnum um bækurnar áður en ég splæsti í svona. Þarna hafa verndardísirnar mínar og litlu álfarnir ásamt fylgjunum mínum sameinast um að hjálpa mér að bíða eftir íslensku útgáfunni, því aldrei gekk ég í það mál að bera saman erlendu útgáfurnar. Það hlýtur að vera þess virði að borga helmingi hærra verð fyrir að bæta íslenskunni við, sérstaklega þar sem nú var franskan ekki sniðgengin eins og hún er nú ansi oft í íslenskri útgáfu.
En þar sem ég er ekki illa haldin af því að aldrei megi segja neitt neikvætt,
au contraire, verð ég að varpa fram einni spurningu: Hefði ekki verið nokkuð góð og gild ástæða til að leyfa pólskunni að vera með líka?
Lifið í friði.
er þetta ekki grín?
Er aftur kominn sunnudagur?
Lifið í friði.
galdrar
Á miðvikudaginn varð ég ógurlega svartsýn og vældi í vini mínum um að þetta Parísardömudæmi væri kannski bara rugl, nokkrir mjög neikvæðir hlutir hafa verið að gerast og kannski yrði ég bara að hætta.
Hann benti mér réttilega á að ég hefði þó aldrei fengið annað en jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum, að ég vissi það alveg að það sem ég geri er ég að gera eins vel og mér er unnt, að mér er ekki sama og að fólk finni það. Það lifnaði yfir mér. Þetta er náttúrulega alveg rétt hjá honum.
Líklega á sama andartaki og lifnaði yfir mér var sendur tölvupóstur frá Íslandi með ósk um þjónustu. Daginn eftir komu svo fleiri óskir og nú er ég aðallega í vandræðum með að dragast ekki enn meira aftur úr í náminu.
Ég er heppin að eiga þennan góða vin, sem þar að auki færir mér kaffi í rúmið á hverjum morgni.
Það sem er þó enn ferlegt, er að þurfa að fara heim til vina til að hlusta á fyrirlestrana í lánstölvu. Liggur við að ég fari á stúfana og reyni að finna notaða PC druslu á góðu verði. Mig myndi verkja illilega í budduna við þau kaup.
Lifið í friði.
nýtt nám, meiri billy
Ég er búin að fá bókapakkana. Einn frá Íslandi, einn frá Frakklandi. Sá frá Íslandi var mun fljótari að berast, eftir að hann loksins komst af stað.
Ég hef ekkert pláss fyrir meiri Billy, þó það sé alltaf pláss fyrir góða vini á heimilinu.
Lifið í friði.
víst er campari góður drykkur
Auðvitað er hægt að fá hausverk og magapínu af einhverjum ógeðsblöndum. En það breytir því samt ekki að campari er hrikalega góður drykkur, svona við og við til hátíðabrigða. Og að sjálfsögðu minnir Parísardaman á að óhófleg notkun áfengis getur valdið ýmsum vandræðum og kvillum, áfengis er því alltaf réttast að neyta í hófi. Og ef þér er aldrei boðið í hóf skaltu bara muna að þú getur alltaf haldið hóf sjálf(ur).
Þú mátt ekki svara þessu nema þú hafir áður svarað til um nýtt útlit
hinnar síðunnar minnar, sjá hér fyrir neðan.
Lifið í friði.
nýtt útlit
Það er komið nýtt útlit á
parisardaman.com. Mig vantar álit ykkar.
Sjálf er ég á því að breyta myndunum aðeins. Það sem sést núna eru sem sagt tröppur í La Défense blandaðar við turnana á Notre Dame og svo stóll í Tuileries-görðunum. Ég vil hafa stólinn græna einhvers staðar þarna, hitt er ég ekki viss með.
Ábendingar? Uppástungur? Kíkið á myndirnar hans Einars (sjá tengil t.d. ofarlega til hægri á parisardaman.com.
Einar, ert þú með skoðanir sjálfur, sem hirðljósmyndari?
Lifið í friði.
andlegt skróp
Í staðinn fyrir að vinna sveitt að fyrstu verkefnunum sem ég á að skila á morgun, er ég að flakka um bloggsíður. Ég rakst á
þessa skemmtilegu síðu í gegnum
Þotustrik. Nú er ég í áfalli, bæði femínísku og málvitundarlegu. Ég held ég blandi mér bara kamparí í órans og hætti þessu streði. Hvort eð er tapað mál, eða hvað?
Lifið í friði.
Loksins
Ég er búin að sitja í tímum í allan dag.
Það er áhugaverð lífsreynsla að sitja svona alein heima hjá sér og heyra allt sem fram fer í skólastofunni, eða réttara sagt sem fram fór í skólastofu fyrir viku síðan. M.a. óskar kennarinn nemendum til hamingju með að hafa fengið að hafa tímana í Árnagarði, á kaffistofunni þar slái nefninlega hjarta íslenskudeildarinnar. Þá leið mér eins og utangarðsmanni, eins og ég væri föst í rangri vídd og kæmist ekki þangað sem ég ætti samt að fara. Nei nei, þetta eru ýkjur. Þó að stundum sé þetta svolítið einmanalegt, sérstaklega fyrir félagsveru eins og mig, er þetta frábært kerfi (FYRIR UTAN AÐ ÚTILOKA MAKKANA) og gaman að heyra allt, líka hóstann, hikið og vandræðaganginn með tæknina. Oft sem maður brosti í kampinn, gjammaði jafnvel frammí. Einu sinni bað ég kennara að hætta að tala of nákvæmlega um lokaprófið (hvað er eiginlega að nemendum sem byrja að spyrja um slíkt í fyrsta tíma?) og þá allt í einu stoppaði hún og sagði að líklega væri of snemmt að vera að tala um þetta. Æði.
Svo getur maður staðið upp og teygt úr sér, borað í nefið, skipt aftur yfir í náttbuxurnar, hengt úr einni vél, allt um leið og maður situr tímann!
Hins vegar á ég eftir að hlusta á einn tíma úr síðustu viku og nú hafa auðvitað tveir tímar bæst við í dag. Og bækurnar lögðu ekki af stað fyrr en í dag úr bóksölunni (eitthvað aðeins of mikið að gera víst) og það kom skýrt fram að engar undantekningar eða afsakanir væru teknar gildar í skilum á heimaverkefnum. Sem gerir það að verkum að ég fæ líklega núll, kannski einn fyrir viðleitni, út úr fyrsta verkefninu. En það skiptir nú ekki öllu máli, aðalmálið er að ég er komin í gang og líst svona líka vel á allt saman.
Næsti höfuðverkur er líklega að athuga hvernig ég get tekið prófin. Helst langar mig náttúrulega til að vera "pínd" til að koma heim, en ég sé að ég á eftir að þurfa að púnga út fleiru en bara innritunargjöldunum fyrir þetta ævintýri, úff hvað ég sendi stóra millifærslu í Bóksöluna, og það þó ég hefði splæst bæði í Íslenska tungu og Orðabókina fínu í sumar. Djísúss hvað það er dýrt að vera námsmaður. Eins gott að hafa gagn og gaman af þessu brölti. Nám er áreiðanlega lúxus sem ekki allir geta leyft sér.
Lifið í friði.
skjótt skipast
Ég skokkaði út til læknisins í morgun á stuttum appelsínugulum hörbuxum og stuttermabol með létta gullsandala á fæti.
Nú ætla ég að skjótast upp í ráðhús Copavogure með vottorð um að ég megi stunda leikfimi en eitthvað verð ég að klæða mig betur, ekki viljum við að það slái að mér. Trjágreinar feykjast til og frá, himinninn er kolgrár, það gæti jafnvel rignt.
Það er ekki bara í íslenskum stórfyrirtækjum sem veður skipast skjótt í lofti.
Annars er mitt helsta umhugsunarefni þessa dagana (fyrir utan náttúrulega hvernig í ósköpunum ég á að ná að hlusta á fyrirlestrana)er að bæði í Ikea bæklingnum nýja, og í Ikea búðinni stóru, eru föt frá HogM. Þessu hafði ég ekki tekið eftir áður. Eitthvað sænskt plott í gangi?
Að lokum langar mig að deila með ykkur gleði minni yfir því að finna í bókastaflanum í náttborðinu óupptekna bók, Bréf til Maríu. Hana keypti ég á leiðinni frá Íslandi í júlílok, en ákvað að geyma hana aðeins, tímdi ekki að lesa hana alveg strax. Sem varð til þess að ég svona líka steingleymdi því að ég ætti hana eftir. Þannig að eiginlega hef ég eignast bókina tvisvar. Sem er ekkert nema gaman.
Lifið í friði.
sunnudagur aftur? ha? var hann ekki síðast í gær?
Eftir að hafa hlustað á Víðsjá föstudagsins núna í morgunsárið, veit ég að auðvitað þekkti ég hásrödduðu konuna sem fjallaði um frönsku rithöfundadeiluna um daginn. Þetta er engin önnur en fyrrverandi Parísardaman Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona með meiru.
Þegar eitt mál leysist, kemur annað í staðinn. Þannig á ég nú í stökustu vandræðum með að reikna út hvað
ein kampavínsflaska kostar.
Best að snúa sér aftur að heimaverkefninu, mér finnst gaman að vera orðin námsmeyja á ný. Líklega er ég eilífðarstúdent í eðli mínu, eins og manni fannst það nú hallærisleg örlög í gamla daga.
Lifið í friði.
Hvað er stríð?
Ég mæli með þátttöku
í þessari könnun.
Mér fannst gaman að setja sjálfa mig í þær stellingar að spyrja mig virkilega alvarlega hvað öll þessi orð tákna. Svo er ég alltaf ægilega svag fyrir því að vera fræðimönnum innan handar, enda hlýt ég að vera spennandi viðfang og alveg einstök. Þú ert það líka.
Lifið í friði.
p.s. ég þakka mönnunum sem skrifuðust á við mig í gærkvöld (í gærkvöldi?) vegna vandræða minna. Annar kom með hugmynd að lausn sem var skratti góð þó hún virkaði ekki. Hinn lofaði mér að fara í hart í krafti aðstöðu sinnar, enda er þetta bara ekki hægt að skilja okkur makkara útundan.
Ég er búin að ákveða að senda Menntamálaráðherra bréf. Ég set það bráðum inn á síðuna til skoðunar og til að fá gagnrýni, ég kann ekkert að skrifa ráðherrum bréf. En það hlýtur að vera eðlileg krafa að geisladiskar orðabóka og annað efni sem styrkt er af ríkinu, sé okkur öllum aðgengilegt.
um lista og bókmenntarifrildið franska
Nú er ég komin með alls konar hnappa hér fyrir ofan sem eiga líklega að auðvelda mér blogglífið (sem er síður en svo mitt eina líf). Kannski verð ég duglegri héðan í frá að gera tengla og nota
feitletrun og
skáletrun.
Ekkert gengur eða rekur með námið mitt. Mér líður eins og versta skrópara. Engar bækur, engir fyrirlestrar, bara nokkrar greinar af netinu, búin að prenta og lesa eina þeirra. Skildi ekki alveg allt en held að eftir sjö, átta lestra hljóti ég að ná þessu.
Ég hef séð eitthvað hér og þar um tilraunir Mannlífs til að gera lista yfir bestu bloggarana. Mér finnst það álíka gáfulegt og listar yfir bestu bækur, kvikmyndir, málverk og annað. Og staðhæfing
Farfugls um að ég ætti heima á topp tíu er náttúrulega bara sæt en sem betur fer firra. Ég þyldi alls ekki að fá hingað inn tugi, hundruð lesenda sem ég þekkti hvorki haus né sporð á.
Mér finnst öll bloggin sem ég er með á lista hér til hliðar vera toppblogg, hvert á sinn hátt, sum ofurgáfuleg (og gáfulegt er ekki skammaryrði á þessum bæ), sum ofurhversdagsleg, sum heimspekileg, sum listræn, sum frökk, sum viðvæmnisleg (ekki væmin). Flest eru blanda af þessu öllu og yfirleitt bragðgóð og vel heppnuð blanda.
Málbeinið kom með ágætis metafóru um erótíkina í bloggum og hvernig þau geta komið manni sífellt á óvart.
Ég var með það á dagskránni að blogga bráðum um rifrildið milli Marie Darrieusecq og Camille Laurens en þær berjast nú vopnaðar beittum stílvopnum um það hver á sársaukann sem fylgir barnsmissi. En af tilviljun hlustaði ég á Víðsjá fyrradagsins og þar er þessi
fína úttekt á þessu máli. Franska lagið sem þáttastjórnandi spilaði á undan fylgir m.a.s. með í þessum tengli.
En getur einhver sagt mér hvaða kona þetta er sem gerði úttektina? Nafn hennar virðist ekki koma fram í þættinum.
Heyrðu, þetta er allt annað líf að blogga úr Firefox.
Lifið í friði.
byrjunarörðugleikar II
Ég hef ekki enn getað hlustað, og vegna þess að ég hef ekki hikað við að draga hina líklegustu og ólíklegustu aðila í málið veit ég núna að þeir kennarar sem nota gamla mátann eru mér opnir en þeir sem nota nýja kerfið eru ekki Makkavænir. Alltaf skal Makkinn vera skilinn útundan þegar búið er til eitthvað nýtt í tölvur. Þetta á að bera fram með miklum og sárum kvarttóni eins og sá sem ég notaði við manninn hjá RHÍ. Hann hló nú bara að mér og sagði að já, svona væri þetta bara. En þar sem hann var bæði kurteis og allur af vilja gerður var honum fyrirgefið umsvifalaust.
Svo fóru bækurnar ekki af stað í dag af því ein bókin finnst víst ekki þó hún sé þarna í tölvunni hjá þeim. Ég þoli ekki fólk sem raðar bókum á ranga staði í bókabúðum og bókasöfnum. Ætti að vera sektarkerfi fyrir búðinga sem standa viðskiptavini að slíku.
Þá er bara spurningin: Nær Stína fína námsmeyja að skila fyrstu heimaverkefnunum á fimmtudaginn í næstu viku? Reyndar er annað þeirra að mestu leysanlegt með efni af netinu og hitt get ég kannski bullað mig í gegnum með eigin visku. Sé samt til hvað ég geri.
Mig vantar ljósritara og skannara til að senda mér stundum efni, ætli það sé ekki best að hafa samband við íslenskunemana sjálfa?
Og fylleríisboðanir fylla pósthólfið mitt. Ekki man ég eftir svona samkomum þegar ég var staðarnemi í HÍ. Ég er alveg hlessa. Við drukkum jú mikið og oft, en bara á eigin vegum og greiddum veigarnar fullu verði.
Lifið í friði.
blá eins og appelsína
Og einmitt þegar þú hélst að tárin væru uppurin, að nú gætir þú hætt að skæla og byrjað að einbeita þér að streðinu, kemur Mogginn og í honum leynist ein lítil grein í viðbót og myndin er svo falleg. Og allt í einu er fullt eftir af söltum vökva.
Svarti hundur, hættu að bíta góða fólkið. Sveiattann rakkaskratti.
Lifið í friði.
byrjunarörðugleikar
Hlýtur að vera gaman að segja þetta orð full. Nei, mér dettur það bara í hug vegna þess að í dag fékk ég sendan lista yfir orð sem erfitt er að segja full. Ekki það að ég sé það nokkurn tímann. Listinn sá var á ensku svo byrjunarörðugleikar (sko, það er m.a.s. erfitt að skrifa þetta orð á lyklaborð bláedrú) var ekki á honum.
Ég get ekki hlustað á fyrirlestrana tvo sem ég ætlaði að hlusta á í dag. Ég get hins vegar hlustað á þann þriðja sem ég var eiginlega alveg búin að ákveða að skrá mig úr.
Ég get ekki opnað bóksöluvefinn og get því ekki pantað bækurnar sem ég hefði þurft að fá í gær.
Bóksölustúlkan sem ég talaði við gat varla leynt hneykslan sinni á því að ég væri ekki með kreditkort.
Ég get ekki lesið diskinn Alfræði íslenskrar tungu, sem ég á að kaupa, því auðvitað er hann bara gerður fyrir PC. Spurning hvort ég kaupi hann nokkuð.
Ég sakna Ármanns.
Ég er að fara að skrá mig í Samtökin 78, ef ég finn tvo í viðbót getur systir mín eða mágkona komist í pott og unnið ferð til útlanda. Ertu memm?
Lifið í friði.
karlinn minn
Ég bað manninn minn að gamni að taka prófið sem ég hef vitanlega ennþá skömm á eins og öllum netprófum. Ég hélt ég myndi kafna úr hlátri. Hann er ekkert leiðinlegur, en það vill reyndar svo heppilega til að mér finnst gaman að lesa orðabækur og alls konar uppflettirit, dett jafnvel í símaskrár ef því er að skipta. Kannski við séum hið fullkomna par?
You're The Dictionary!
by Merriam-Webster
You're one of those know-it-all types, with an amazing amount of
knowledge at your command. People really enjoy spending time with you in very short
spurts, but hanging out with you for a long time tends to bore them. When folks
really need an authority to refer to, however, you're the one they seek. You're an
exceptional speller and very well organized.
Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.
Lifið í friði.
féll og tók próf
Svona í tilefni þess að ég mun þreyta einhver próf í vetur, ákvað ég að æfa mig á einu netprófi (þó ég hafi vitanlega mestu skömm á þessari stúpid dægradvöl netnörda). Ég er ekki alveg viss hver einkunnin er, en er þokkalega ánægð með niðurstöðuna. Það skal þó tekið fram að ég hef ekki (enn) lesið þessa bók.
You're Mrs. Dalloway!
by Virginia Woolf
Your life seems utterly bland and normal to the casual observer, but
inside you are churning with a million tensions and worries. The company you surround
yourself with may be shallow, but their effects upon your reality are tremendously deep.
To stay above water, you must try to act like nothing's wrong, but you know that the
truth is catching up with you. You're not crazy, you're just a little unwell. But no
doctor can help you now.
Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.
Lifið í friði.
hálfnuð
Búin að sigrast á deginum. Nú þarf að sigrast á kvöldinu.
Lifið í friði.
sunudagur til sigurs
Það held ég nú.
Lifið í friði.