7.9.07

um lista og bókmenntarifrildið franska

Nú er ég komin með alls konar hnappa hér fyrir ofan sem eiga líklega að auðvelda mér blogglífið (sem er síður en svo mitt eina líf). Kannski verð ég duglegri héðan í frá að gera tengla og nota feitletrun og skáletrun.
Ekkert gengur eða rekur með námið mitt. Mér líður eins og versta skrópara. Engar bækur, engir fyrirlestrar, bara nokkrar greinar af netinu, búin að prenta og lesa eina þeirra. Skildi ekki alveg allt en held að eftir sjö, átta lestra hljóti ég að ná þessu.

Ég hef séð eitthvað hér og þar um tilraunir Mannlífs til að gera lista yfir bestu bloggarana. Mér finnst það álíka gáfulegt og listar yfir bestu bækur, kvikmyndir, málverk og annað. Og staðhæfing Farfugls um að ég ætti heima á topp tíu er náttúrulega bara sæt en sem betur fer firra. Ég þyldi alls ekki að fá hingað inn tugi, hundruð lesenda sem ég þekkti hvorki haus né sporð á.
Mér finnst öll bloggin sem ég er með á lista hér til hliðar vera toppblogg, hvert á sinn hátt, sum ofurgáfuleg (og gáfulegt er ekki skammaryrði á þessum bæ), sum ofurhversdagsleg, sum heimspekileg, sum listræn, sum frökk, sum viðvæmnisleg (ekki væmin). Flest eru blanda af þessu öllu og yfirleitt bragðgóð og vel heppnuð blanda.
Málbeinið kom með ágætis metafóru um erótíkina í bloggum og hvernig þau geta komið manni sífellt á óvart.

Ég var með það á dagskránni að blogga bráðum um rifrildið milli Marie Darrieusecq og Camille Laurens en þær berjast nú vopnaðar beittum stílvopnum um það hver á sársaukann sem fylgir barnsmissi. En af tilviljun hlustaði ég á Víðsjá fyrradagsins og þar er þessi fína úttekt á þessu máli. Franska lagið sem þáttastjórnandi spilaði á undan fylgir m.a.s. með í þessum tengli.
En getur einhver sagt mér hvaða kona þetta er sem gerði úttektina? Nafn hennar virðist ekki koma fram í þættinum.

Heyrðu, þetta er allt annað líf að blogga úr Firefox.

Lifið í friði.