23.9.07

ciel mon mari!

Maðurinn minn segir börnunum sögur af Le petit lutin á hverju kvöldi. Þessi hefð byrjaði í tjaldútilegu á Normandí fyrir nokkrum öldum síðan. Þá áttu börnin eitthvað erfitt með að róa sig niður í spenningnum yfir því að vera í tjaldi og brá karl á það ráð að segja sögu. Síðan hefur eingöngu verið sleppt úr þeim fáu kvöldum sem hann er ekki heima þegar farið er í rúmið og auðvitað þegar við erum stödd í öðru landi en pabbinn.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Le petit lutin. Hann á góðan vin sem heitir Haraldur og vinkonu líka sem ég man samt ekki hvað heitir. En í sögunni hafa undanfarið verið persónurnar David Beckham og Yasmina Reza. Ég heyri bara undan og ofan af atburðarrásinni og hef alveg gleymt að spyrja hann hvað hún Yasmina sé að gera þarna, ég held að Beckham sé lélegur í fótbolta í sögunni, eða er hann að kenna litla álfinum? Ekki viss.
Yasmina Reza var nýlega að gera pínulítið á sig í hópi intellóelítunnar með bók um Sarkozy og kosningabaráttuna þar sem hún sleikir mest rassa, skilst mér og kafar ekki nógu djúpt í pælingar um vald, valdafíkn og einsemdina sem fylgir völdum.
Ég væri alveg til í að sjá Listaverkið aftur. En nenni ómögulega að lesa óð um Sarkozy.

Lifið í friði.