26.9.07

þegar ég vakhnaði um morguninn

Ég finn til í öllum skrokknum. En mér líst vel á þessa tíma. Við vorum þrjár nýjar, allar hinar þekktust sín á milli og þekktu kennarann sem er unaðslega sætur með tröllalokka og allt.
Kellingarnar flestar eldri en ég og flissuðu eins og smástelpur þegar hann gantaðist í þeim. Svo töluðu þær hver í kapp við aðra og stundum þurfti kennarinn að sussa á þær. Það er ekki bara í verkefnavinnu í fjarnámi sem mér líður eins og ég sé aftur komin í ellefu ára bekk. Hlýtur að vera gott fyrir húðina allt saman, ég ætti kannski að hafa áhyggjur af því að verða enn barnalegri í útliti?
Allar erum við sammála um að vilja ekki hlaupa neitt of mikið en kennarinn segist þó vilja sjá árangur og auðvitað viljum við allar gera honum til geðs, hann er svo sætur. Reyndar er einn karlmaður í hópnum en hann fílar sig svo vel að hann er alveg eins og einn af stelpunum svo ég mun tala um kvennahópinn minn áfram.
Og stemningin milli kvennanna kom mér á óvart, alveg sama fjörið og í Baðhúsinu hjá Lindu í denn. Ég man ekki eftir að hafa lent í svona hérna, það var mun stífari stemning í leikfiminni sem ég fór í inni í París í fyrra. Fullt af indælu fólki þar, en ekki svona stanlaust stuð og grín eins og þarna í gær.
Ég var samt töluvert fúl yfir því að lummufötin mín skáru sig ekkert úr. Allar voru þær bara í óskaplega venjulegum íþróttabuxum og bolum, ekkert merkja- eða tískusnobb í gangi. Mér finnst nefnilega svo gaman að vera eins og lúði innan um íþróttafrík í flottu göllunum sínum. En ég er ekki nógu svekkt til að það hafi áhrif á mætinguna, ég SKAL vera dugleg í vetur. Áfram Kristín!

Lifið í friði.