5.9.07

byrjunarörðugleikar

Hlýtur að vera gaman að segja þetta orð full. Nei, mér dettur það bara í hug vegna þess að í dag fékk ég sendan lista yfir orð sem erfitt er að segja full. Ekki það að ég sé það nokkurn tímann. Listinn sá var á ensku svo byrjunarörðugleikar (sko, það er m.a.s. erfitt að skrifa þetta orð á lyklaborð bláedrú) var ekki á honum.

Ég get ekki hlustað á fyrirlestrana tvo sem ég ætlaði að hlusta á í dag. Ég get hins vegar hlustað á þann þriðja sem ég var eiginlega alveg búin að ákveða að skrá mig úr.

Ég get ekki opnað bóksöluvefinn og get því ekki pantað bækurnar sem ég hefði þurft að fá í gær.

Bóksölustúlkan sem ég talaði við gat varla leynt hneykslan sinni á því að ég væri ekki með kreditkort.

Ég get ekki lesið diskinn Alfræði íslenskrar tungu, sem ég á að kaupa, því auðvitað er hann bara gerður fyrir PC. Spurning hvort ég kaupi hann nokkuð.

Ég sakna Ármanns.

Ég er að fara að skrá mig í Samtökin 78, ef ég finn tvo í viðbót getur systir mín eða mágkona komist í pott og unnið ferð til útlanda. Ertu memm?

Lifið í friði.