11.9.07

Loksins

Ég er búin að sitja í tímum í allan dag.
Það er áhugaverð lífsreynsla að sitja svona alein heima hjá sér og heyra allt sem fram fer í skólastofunni, eða réttara sagt sem fram fór í skólastofu fyrir viku síðan. M.a. óskar kennarinn nemendum til hamingju með að hafa fengið að hafa tímana í Árnagarði, á kaffistofunni þar slái nefninlega hjarta íslenskudeildarinnar. Þá leið mér eins og utangarðsmanni, eins og ég væri föst í rangri vídd og kæmist ekki þangað sem ég ætti samt að fara. Nei nei, þetta eru ýkjur. Þó að stundum sé þetta svolítið einmanalegt, sérstaklega fyrir félagsveru eins og mig, er þetta frábært kerfi (FYRIR UTAN AÐ ÚTILOKA MAKKANA) og gaman að heyra allt, líka hóstann, hikið og vandræðaganginn með tæknina. Oft sem maður brosti í kampinn, gjammaði jafnvel frammí. Einu sinni bað ég kennara að hætta að tala of nákvæmlega um lokaprófið (hvað er eiginlega að nemendum sem byrja að spyrja um slíkt í fyrsta tíma?) og þá allt í einu stoppaði hún og sagði að líklega væri of snemmt að vera að tala um þetta. Æði.
Svo getur maður staðið upp og teygt úr sér, borað í nefið, skipt aftur yfir í náttbuxurnar, hengt úr einni vél, allt um leið og maður situr tímann!

Hins vegar á ég eftir að hlusta á einn tíma úr síðustu viku og nú hafa auðvitað tveir tímar bæst við í dag. Og bækurnar lögðu ekki af stað fyrr en í dag úr bóksölunni (eitthvað aðeins of mikið að gera víst) og það kom skýrt fram að engar undantekningar eða afsakanir væru teknar gildar í skilum á heimaverkefnum. Sem gerir það að verkum að ég fæ líklega núll, kannski einn fyrir viðleitni, út úr fyrsta verkefninu. En það skiptir nú ekki öllu máli, aðalmálið er að ég er komin í gang og líst svona líka vel á allt saman.

Næsti höfuðverkur er líklega að athuga hvernig ég get tekið prófin. Helst langar mig náttúrulega til að vera "pínd" til að koma heim, en ég sé að ég á eftir að þurfa að púnga út fleiru en bara innritunargjöldunum fyrir þetta ævintýri, úff hvað ég sendi stóra millifærslu í Bóksöluna, og það þó ég hefði splæst bæði í Íslenska tungu og Orðabókina fínu í sumar. Djísúss hvað það er dýrt að vera námsmaður. Eins gott að hafa gagn og gaman af þessu brölti. Nám er áreiðanlega lúxus sem ekki allir geta leyft sér.

Lifið í friði.