10.9.07

skjótt skipast

Ég skokkaði út til læknisins í morgun á stuttum appelsínugulum hörbuxum og stuttermabol með létta gullsandala á fæti.
Nú ætla ég að skjótast upp í ráðhús Copavogure með vottorð um að ég megi stunda leikfimi en eitthvað verð ég að klæða mig betur, ekki viljum við að það slái að mér. Trjágreinar feykjast til og frá, himinninn er kolgrár, það gæti jafnvel rignt.
Það er ekki bara í íslenskum stórfyrirtækjum sem veður skipast skjótt í lofti.

Annars er mitt helsta umhugsunarefni þessa dagana (fyrir utan náttúrulega hvernig í ósköpunum ég á að ná að hlusta á fyrirlestrana)er að bæði í Ikea bæklingnum nýja, og í Ikea búðinni stóru, eru föt frá HogM. Þessu hafði ég ekki tekið eftir áður. Eitthvað sænskt plott í gangi?

Að lokum langar mig að deila með ykkur gleði minni yfir því að finna í bókastaflanum í náttborðinu óupptekna bók, Bréf til Maríu. Hana keypti ég á leiðinni frá Íslandi í júlílok, en ákvað að geyma hana aðeins, tímdi ekki að lesa hana alveg strax. Sem varð til þess að ég svona líka steingleymdi því að ég ætti hana eftir. Þannig að eiginlega hef ég eignast bókina tvisvar. Sem er ekkert nema gaman.

Lifið í friði.