30.9.07

hjólað í París

Noh, Ferðalangur.net var á undan mér að segja frá hjólunum í París.

Um daginn var ég á leið um 7. hverfi að kvöldlagi. Á gatnamótum birtast þrír jakkafataklæddir karlar á fimmtugsaldri, ægilega fínir og smart, örugglega með feit veski og "falleg"* úr, allir á Vélib' hjólum. Ég fékk kökk í hálsinn. Svona álíka og fólk lýsir að gerist þegar það horfir á Gay Pride. Ég kannast nefninlega líka við það. Það er einhver ótrúlega góð byltingartilfinning að sjá fólk sem óvanalegt er að sjá hjólandi, hjólandi.

Vélib' er frábær viðbót við flotta borg og gengur svo vel að farið er að nefna borgarstjórann sem tilvonandi forsetaefni sósíalistanna. Verst hvað það er stutt síðan núverandi forseti var kjörinn, Delanoë verður ekkert endilega á stalli fyrir þetta í fjögur ár, en hann er helvíti góður í baráttunni gegn einkabílnum, leggur borgarstjórastöðu sína hiklaust að veði í því stríði, og hefur rifið upp almenningssamgöngur sem er einmitt það sem allar nútímaborgarstjórnir ættu að einbeita sér að, vilji þær geta kallast nútímalegar og framsæknar.

Lifið í friði.

*mér finnst í raun undarlegt að tala um fegurð úra. A.m.k. á ég hér við að þeir séu með dýr úr og, trúið mér, það er ekki beintenging milli verðs og fegurðar úra.