29.9.07

kíghósti

Nágrannakona mín og móðir þriggja aukabarna minna er búin að vera lasin og dauf í tvær vikur. Í gær fór hún til læknis sem sagði henni að rífa þetta úr sér með panódíl(i?). Í gærkvöld fór hún svo að hósta með soghljóðum og eftir símtal við lækninn í morgun á að taka sýni til ræktunar því honum finnst þetta hljóma eins og kíghósti.
Meðgöngutími kíghósta er 5-15 dagar. Ég er búin að vera hálfslyttisleg alla þessa viku, skilaði óvart hálfkláruðu verkefni, áttaði mig á því um nóttina að það sem ég hafði geymt hafði ég svo gleymt, ég lá í sófanum og las blogg og leysti sudoku í heilan dag og fékk þann úrskurð frá góðri konu að líklega væri ég maníusjúklingur, komin niður úr maníunni sem ég hef verið í undanfarnar vikur, ég nennti ekki út með skemmtilegu fólki í gærkvöld og mér er illt í hálsinum og það leiðir út í eyra.
Ég trúi því samt ekki að ég sé komin með kíghósta. Ekki það. Ekki ég. Ekki núna.

En ég held að ég fari kannski að spá í endurbólusetningu. Maðurinn minn fór í slíkt fyrir ári síðan, hann er mun duglegri en ég að hlýða læknum.

Lifið í friði.