30.12.05

friður sóun koss o.m.fl.

Ég get lofað ykkur því að eftir hópvangadansinn sem ég og nokkrir vinir dönsuðum undir Garðari Cortez í gær eru meiri líkur á friði í heiminum.

Ég er á því að á hverju ári ætti að fara fram minningarathöfn um allt það áfengi sem hellt er niður af Tollinum og reyndar bara allar þær matvörur sem eytt er á hverju ári til að viðhalda framleiðslunni í þessum snarklikkaða heimi sem við búum í. Af hverju má aldrei neitt vera gefnis? Af hverju er ekki hægt að senda fátæku ríkjunum umframvörur?

Dagurinn í gær var óhugnalega fallegur og skipti engu þó tærnar frysu næstum af mér í göngutúrnum, Ísland er óneitanlega fallegt land og vel staðsett.

Ég hlakka til morgundagsins. Mér finnst rakettur skemmtilegar þó ég sé tiltölulega nýlega farin að þora að halda á blysi og hafi enn ekki sent rakettu sjálf upp í loftið og sé alltaf sannfærð um það að ég eða einhver mér nákominn muni missa augað á þessu kvöldi.
Ekki spillir fyrir að ég er á leiðinni í partý um nóttina... munur að vera svona miðsvæðis og geta gengið...

Ég hitti bloggvin á förnum um daginn og við kysstumst gleðilega hátíð enda vorum við orðin dús eftir súkkulaðibolla á Mokka.

Ég kemst hins vegar áreiðanlega ekki að sjá hann á sviði í kvöld, það er einfaldlega of mikið að gera við að sinna hittiþörf vina og kunningja auk þess sem ég er með tvö kíló af beinum, hausum og sporðum sem þarf að sjóða til að undirbúa súpuna fyrir annað kvöld.

Þegar maður heyrir útlensku talaða í Reykjavík þarf maður nú að hugsa sig um og skoða fólkið: Túristar sem verið er að mergsjúga í fínu búðunum og á dýru kaffihúsunum eða ódýrt vinnuafl sem verið er að mergsjúga á stofnunum eða í verksmiðjum?

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs fullu af ást og hamingju.

Lifið í friði.

26.12.05

fallegt menningarheimili - freistandi kostur

Íbúðin sem við fengum í skiptum fyrir okkar litla heimili troðfullt af drasli sem ég sanka að mér og á erfitt með að láta þó ég viti afar vel að það er hvorki fengsjú né heilbrigt ryksöfnunar vegna að troðfylla heimilið af ósamstæðu postulíni, gömlum myndavélum, útvörpum, vasaljósum og júneimitt... já, hm, íbúðin sem við erum í hér er hreint dásamleg.
Hún er mátulega stór, mátulega "tómleg", þ.e.a.s. ekki troðfull af drasli en samt er smá ofnhilla með gömlu dóti sem ég get glatt mig við að horfa á, gamlir pez karlar o.fl. skemmtilegt, og síðast en ekki síst er hér góður slatti af íslenskri myndlist. Húsgögnin eru þessi skemmtilega blanda af ikea og góðum hirðum sem er einmitt okkar stíll.
Mér líður sannast sagna svo vel hérna að í gær flaug mér í hug að nú hefði ég góð sambönd við nokkra athafnamenn eftir að hafa lóðsað þá um París og að kannski gæti ég fengið vinnu með góð laun hér heima og maðurinn gæti alveg eins skrifað hér eins og þar og að kannski ættum við bara að gera þetta. En róið ykkur niður, ég er dottin úr slíkum hugleiðingum í bili. Jólaleikrit RÚV minnti mig á að heima er ekki alltaf bezt. Horfði nú ekki á það nema í tvær mínútur hljóðlaust en... það var nóg...
Annars er maður bara að jafna sig á kjötsvíma (sjá útskýringar hjá málbeini)gærdagsins og að undirbúa sig andlega fyrir stóra jólaboðið í dag. Þar hitti ég alla föðurfjölskylduna mína sem er alltaf gaman. Maturinn er oft mjög óhefðbundinn, indverskir pottréttir, hrossaket eða eitthvað skemmtilegt og fólkið í þessari fjölskyldu er hvert öðru skemmtilegra. Ég er jafnvel að hugsa um að mæta of snemma til að ná smá gæðatíma með eldabuskunum sem ég hef ekki hitt þó ég hafi verið hér í viku fyrir jólin sem er undarlegt að hugsa til. Hvert fór þessi vika? Ekki í skúringar eða kringluferðir. Ekki í fyllerí, við erum að veslast upp úr heilagleika hérna hjónin. Jú, ég náði þremur rauðvínsglösum á voðalega fínum bar með leðursófa og óhugnalega stórum ljósakrónum um daginn en var svo slegin yfir verðinu að síðan höfum við látið duga að horfa bara á hina drekka og fengið okkur vatn. Ekkert jafnast á við íslenskt kranavatn. Og nú finnst mér allt í einu að ég verði að taka það fram að síðustu setningar eru háð og lygi. Og um leið fer það í taugarnar á mér því það skemmir óneitanlega fyrir.
Annars gerðust þau stórtíðindi á jóladag að faðir minn las mig. Sem er sjaldgæft. Hann uppástendur að ég hafi alveg gleymt hópnum ljótir og heimskir í fegurðar- og hreystiræktunar tillögu minni um daginn. Hann var nokkuð ánægður með mig en fannst hann kannski vera útundan? Ég þarf að athuga þetta mál nánar.

Lifið í friði.

25.12.05

gleðileg rok og rigningu

Þó að veðrið úti geri allt ALLT til þess að hrista jólaskapið úr jólaálfum gengur hvorki né rekur hjá því. (Ætli þessi setning næði í gegnum prófarkarlestur?). Mér er skítsama um rok og rigningu, börnin eru hálfbiluð eftir gjafaflóðið í gær, maðurinn minn er búinn eftir ofátið í gær og ég sjálf er bara í mínu háheilaga jólaskapi sem ég fer alltaf í á slaginu sex á aðfangadag og held í a.m.k. þrjá daga. Auðvitað hrekk ég reglulega í jólagír alla aðventuna, en klukkan sex þegar klukkurnar hringja (sem ég missti næstum því af í þetta sinn en náði þó) hrekk ég í barnslegt gleðiástand. Mjög þægilegt og indælt.
Óvísindaleg könnun mín á hegðun fólksins í landinu vikuna fyrir jólin gefur eftirfarandi niðurstöður:
1. Jólastress er ekki algilt, það er til, sumir fara m.a.s. í jólapanik á Þorláksmessu en flestir virðast ná að stjórna skapi sínu og vera nægilega skipulagðir og kærulausir í bland til að vera lausir undan slíku leiðindaástandi.
2. Kaupæðið virðist frekar mikið. Mér sýnist margir gefa of margar gjafir og allt of dýrar miðað við fjárhag. Það er þó alls ekki algilt heldur og ýmsir virðast hafa sömu viðmið og ég að það er hugurinn sem skiptir máli, ekki verðið. Einhver bloggarinn sagði að til að ná að gefa ódýrar gjafir þyrfti að velja af kostgæfni. Ég hef lent í því að þurfa að kaupa allar gjafir á þorláksmessukvöldi og náði samt að gefa öllum í samræmi við budduna mína. Málið er að hugsa ekki um að viðtakendur séu þannig illa gerðir á jólunum að þeir reikni út krónugildið og spái í eigin gjafir á slíkum forsendum. Málið er líka að vera ekki með minnimáttarkennd heldur treysta á að fólk hafi húmor og finnist gaman að fá litlu skrýtnu gjafirnar. Mér þykir t.d. dræsuuppþvottaburstann frá HG algert æði. En nú fer ég líklega að hljóma vanþakklát gagnvart þeim sem gáfu mér allt of fínar gjafir. Ég segi því bara: Takk öllsömul. Mér þykir vænt um allar gjafirnar mínar og brosi gegnum tárin eins og versta fegurðardrottning. Ég vona bara að fólk sé ekki með leiðindasting í maganum vegna yfirvofandi eftirmála kaupanna. Sjálf hef ég ekki átt kreditkort í mörg ár og neita mér yfirleitt um yfirdráttarheimild nema ég sé örugg um að það sé skammtímalausn. Ég vildi óska að allir hinir gerðu eins, ég er sannfærð um að heimurinn yrði betri ef minni gróði rynni til bankastofnana vegna vaxtagreiðslna neysluskulda.
3. Fólkið sem stundar sund í Sundhöllinni fer ekki í sund í jólaundirbúningnum. Það hefur verið einn af hápunktum dvalar okkar síðustu viku að geta leikið milljónamæringa í einkahöllinni okkar á morgnana. Nokkrir gamlir karlar hafa skemmt okkur með nærveru sinni en laugina sjálfa höfðum við útaf fyrir okkur.

Svo er það staðreyndin sorglega um landið og loftslagið:
Hvít jól eru liðin tíð á Íslandi eða a.m.k. í Reykjavík. Hvað er eiginlega langt síðan síðast???

Gleðilega rest og friður sé með yður.

gleðileg rok og rigningu

Þó að veðrið úti geri allt ALLT til þess að hrista jólaskapið úr jólaálfum gengur hvorki né rekur hjá því. (Ætli þessi setning næði í gegnum prófarkarlestur?). Mér er skítsama um rok og rigningu, börnin eru hálfbiluð eftir gjafaflóðið í gær, maðurinn minn er búinn eftir ofátið í gær og ég sjálf er bara í mínu háheilaga jólaskapi sem ég fer alltaf í á slaginu sex á aðfangadag og held í a.m.k. þrjá daga. Auðvitað hrekk ég reglulega í jólagír alla aðventuna, en klukkan sex þegar klukkurnar hringja (sem ég missti næstum því af í þetta sinn en náði þó) hrekk ég í barnslegt gleðiástand. Mjög þægilegt og indælt.
Óvísindaleg könnun mín á hegðun fólksins í landinu vikuna fyrir jólin gefur eftirfarandi niðurstöður:
1. Jólastress er ekki algilt, það er til, sumir fara m.a.s. í jólapanik á Þorláksmessu en flestir virðast ná að stjórna skapi sínu og vera nægilega skipulagðir og kærulausir í bland til að vera lausir undan slíku leiðindaástandi.
2. Kaupæðið virðist frekar mikið. Mér sýnist margir gefa of margar gjafir og allt of dýrar miðað við fjárhag. Það er þó alls ekki algilt heldur og ýmsir virðast hafa sömu viðmið og ég að það er hugurinn sem skiptir máli, ekki verðið. Einhver bloggarinn sagði að til að ná að gefa ódýrar gjafir þyrfti að velja af kostgæfni. Ég hef lent í því að þurfa að kaupa allar gjafir á þorláksmessukvöldi og náði samt að gefa öllum í samræmi við budduna mína. Málið er að telja ekki viðtakendur vera það illa gerða að þeir reikni út krónugildið og spái í eigin gjafir á slíkum forsendum. Málið er að vera ekki með minnimáttarkennd heldur treysta á að fólk hafi húmor og finnist gaman að fá litlu skrýtnu gjafirnar. Mér þykir t.d. dræsuuppþvottaburstinn frá HG algert æði. En nú fer ég líklega að hljóma vanþakklát gagnvart þeim sem gáfu mér allt of fínar gjafir. Ég segi því bara: Takk öllsömul. Mér þykir vænt um allar gjafirnar mínar og brosi gegnum tárin eins og versta fegurðardrottning. Ég vona bara að fólk sé ekki með leiðindasting í maganum vegna yfirvofandi eftirmála kaupanna. Sjálf hef ég ekki átt kreditkort í mörg ár og neita mér yfirleitt um yfirdráttarheimild nema ég sé örugg um að það sé skammtímalausn. Ég vildi óska að allir hinir gerðu eins, ég er sannfærð um að heimurinn yrði betri ef minni gróði rynni til bankastofnana vegna vaxtagreiðslna neysluskulda.
3. Fólkið sem stundar sund í Sundhöllinni fer ekki í sund í jólaundirbúningnum. Það hefur verið einn af hápunktum dvalar okkar síðustu viku að geta leikið milljónamæringa í einkahöllinni okkar á morgnana. Nokkrir gamlir karlar hafa skemmt okkur með nærveru sinni en laugina sjálfa höfðum við útaf fyrir okkur.

Svo er það staðreyndin sorglega um landið og loftslagið:
Hvít jól eru liðin tíð á Íslandi eða a.m.k. í Reykjavík. Hvað er eiginlega langt síðan síðast???

Gleðilega rest og friður sé með yður.

18.12.05

mokka

Heyrst hefur að nokkrir frómir bloggarar hittist á Mokka n.k. miðvikudag kl. 16.
Öll helstu dagblöð landsins munu þegar hafa ákveðið hvaða útsendarar verði með diktafóna á næstu borðum til að missa nú ekki af neinum þeim gullmolum sem gætu flogið þessara vel ritfæru og væntanleg þá einnig mælsku kvenna og karla.
Það vantar samt enn staðfestingu frá tveimur fundargestum.
Reykjavík er yndisleg þó að heilsan gæti verið betri, kraumandi hálsbólga sem nær náttúrulega ekki að hristast af mér í öllu þessu lebeni. Snjórinn í gærmorgun vakti slíka kátínu að við vorum komin út í myrkur og kulda á undan öllum nema tveimur verkamönnum sem grófu holu í götu hérna úti á horni.
Íbúðin "okkar" er dásamleg. Lífið er dásamlegt. Súrefnið hérna er dásamlegt. Og ég er leiðinleg og hætti því núna strax.

Lifið í friði.

14.12.05

kvíði út af engu

Ég er búin að þjást af tilhlökkun yfir að koma heim til Íslands. Hitta nýja einstaklinga sem litu dagsins ljós á þessu ári, hitta vinkonur og vini og ganga niður Laugaveginn og sjá hvað allt er ekki eins trist og Smáralindafarar vilja vera láta og heilsa upp á Calla Bergmann og nýbökuðu foreldrana á Klapparstíg og fá mér hlussustóra rjómatertu og kakóbolla á Súfistanum einn daginn og hlussustóra vöfflu og súkkulaðibolla á Mokka annan daginn (með Hildigunni) og engar franskar anorexíur að horfa hungruðum öfundar- og viðbjóðsaugum á mig. Skoða Iðu áður en hún hættir (mér skilst það en eins og verið hefur að marka fréttir undanfarið er ég alls ekki viss hvort taka eigi mark á því), kaupa bókina sem ég ætla að gefa í jólagjöf (get skiljanlega ekki gefið meira upp um það hér) og auðvitað, það sem er best af öllu, hvíla í faðmi fjölskyldunnar, ó mamma, ó pabbi, ó þið öll hin. Hlakka svo til. Og við þessi skrif fór ég aftur að hlakka til þannig að titillinn var víst réttur þó ég væri hikandi.
En þannig var mál með vexti að allt í einu áðan þegar töskurnar voru komnar fram á gólf og fatabunkar byrjaðir að myndast fór ég að kvíða heimkomunni. Kvíða matvöruverslunum, kvíða stressinu og prjálinu, kvíða spurningum um hvað ég sé eiginlega að gera og á hverju við lifum og hvort ég sé nú búin að fá mér sófa og hvort þetta sé ekki allt ómögulegt og af hverju flytjið þið ekki heim því hér er allt svo gott og allir með vinnu.
Eins gott að minningar um rjómatertur og súkkulaðibolla gátu slegið á kvíðann.

Mikið fannst mér fín hugvekjan frá Hollandi í Lesbókinni. Það er svo skrýtið hvað það er auðvelt að elska og hata landið sitt. Og auðvelt að elska að hata það. Og auðvelt að sakna þess. Og erfitt að sakna þess. Lífið er skrýtið. Þess vegna er það skemmtilegt.

Lifið í friði.

13.12.05

uppboð

Fyrirsögnin er tengill á skemmtilegt uppboð. Mér datt t.d. Einar í hug. Hann er áreiðanlega spenntur fyrir myndavélunum.

Lifið í friði.

fegurð og hreysti

Í tengslum við stoltið sem sigur "okkar" í Ungfrú Heimur vakti hjá íslenskum ráðamönnum er ég með hugmynd:
Á þessum síðustu og verstu tímum er hreysti orðin að vandamáli, allt of margir unglingar þjást af offitu. Á sama tíma er verið að tala um að stytta menntaskólann og margir afar óánægðir með það brölt menntayfirvalda sem er líklega eingöngu sparnaðarleið fyrir ríkið með engum alvöru ágóða fyrir þegnana.
Hvernig væri að þjappa námsskránni aðeins saman, og taka eitt ár í fegurðar- og hreystiprógramm? Allir fengju metna stöðu sína, þeir fegurstu og hraustustu færu í A-bekki og mikil áhersla yrði lögð á framkomu, göngu á háum hælum í sundbolum fyrir stúlkurnar (hvaða skófatnaður er það sem drengirnir bera við sundskýlurnar í sinni eftirlíkingarkeppni?) og drengirnir stúderuðu spólur af Jóni Páli, hann var svo skemmtilegur þegar hann var tekinn í viðtöl af erlendum blaðamönnum.
Þeir sem þættu vonlausir í að komast í ungfrú og herra keppnir í fjarlægum löndum væru látnir leggja meiri áherslu á vöðvauppsöfnun og þau sem eru svo óheppin að vera bæði ljót og gáfuð væru sett í næringarfræðina, því vitanlega þarf einnig að huga að umgjörðinni, þeim sem eiga að þjálfa og aðstoða komandi kynslóðir.
Bílaframleiðendur gætu styrkt þetta átak með því að nota stúlkurnar í auglýsingar, liggjandi íðilfagrar á bílhúddum og drengirnir lærðu að bera bílana milli tveggja punkta eða ýta þeim upp brekkur. Ég er viss um að ýmis önnur fyrirtæki væru til í að leggja peninga í svona átak. Peningarnir færu m.a. í að greiða börnunum laun fyrir að taka skyldufagskólann aðeins hraðar svo ekki þurfi að vinna með.
Ég veit ekki, mér sýnist þetta afar góð hugmynd hérna alein í útlöndum í morgunsárið. Spennt að heyra viðbrögð ykkar.

Lifið í friði.

12.12.05

sá hann bloggin fyrir?

"C'est fou comme les gens qui se croient instruits éprouvent le besoin de faire chier le monde" sagði Boris Vian.

Og þar sem ég lofaði mér í byrjun að vera ekki að slá of mikið um mig með óskiljanlegum slettum fyrir þá sem gleymdu að læra frönskuna, neyðist ég til að reyna að þýða þetta:
Það er ótrúlegt hvernig fólk sem telur sig upplýst, finnur sig knúið til að ergja alla hina". Mér dettur nú bara bloggin í hug við þennan frasa. Auglýsin samt eftir betri þýðingu en "ergja" fyrir "faire chier" sem þýðir að "láta skíta" í orðsins fyllstu en er notað eins og "piss off" eða pirra, ergja, trufla... dettur ekkert dónalegra í hug. Er íslenskan svona kurteis eða ég svona andlaus?

Lifið í friði.

9.12.05

The Constant Gardener

Í Englandi á dögunum fórum við stúlkur í bíó eitt kvöldið að sjá spennumynd sem allir gagnrýnendur hrósuðu í hástert með Ralph Fiennes í aðalhlutverki, The Constant Gardener. Við héldum að þetta væri þægilegt léttmeti fyrir konur sem höfðu farið á diskótek kvöldið áður og eru orðnar óvanar slíkum lifnaðarháttum og voru dálítið mikið þreyttar. Skemmst er frá því að segja að sú var alls ekki raunin. Myndin setti stóran stóran köggul í maga minn og þessi köggull hefur enn ekki náð að leysast almennilega upp.
Margt er reyndar hægt að segja myndinni til foráttu. Óskaplega fer t.d. í taugarnar á mér þessi falski heimildamyndastíll með titrandi myndavél og stórkornóttri mynd. Einhver dogmakomplex sem er farinn að vera frekar þreyttur. En sagan er þrykkjugóð, og myndin er náttúrulega bara einn stór og þarfur rasskellur á okkur feita og freka Vesturlandabúa sem níðumst á Afríku og látum það viðgangast að fólk sé drepið til að okkur geti liðið betur í prjálheimum.
Ég held ég hafi ekki séð Ralph síðan í Spider og átti dálítið erfitt með að losa hann úr því hlutverki. Ferlega var sú mynd sterk, hafði ekki gert mér grein fyrir því almennilega hvað hún hafði haft mikil áhrif á mig. Mér finnst hann fantagóður leikari þó ég hafi aldrei vitað hvernig á að segja eftirnafnið hans og eigi erfitt með að fyrirgefa honum það. Rachel Weizs er líka mjög góð og svo undurfögur að það hálfa væri nóg. Hvað er þetta með að vera með ómöguleg eftirnöfn?
Þessi mynd er algert möstsí ef hún kemst í kvikmyndahúsin heima.

Ég er að mála eldhúsið mitt af því það er svo lítið að gera og langt til brottfarar og jóla. Varð að finna mér eitthvað til að dútla við og reif því allt eldhúsdótið hingað fram og hér eru skúffur og hurðir að þorna út um allt. Er reyndar með fínu málninguna hennar Annie Sloan, aðalhetjunnar minnar sem kenndi mér ýmsar málningarbrellur á námskeiðinu um daginn. Var ég einhvern tímann búin að segja ykkur frá tilfinningunni að sitja við borð með tveimur svo dæmigerðum breskum húsmæðrum að það var eins og þær hefðu verið fengið lánaðar úr einhverjum breskum sjónvarpsþáttum og dúlla sér við að búa til sprungumálningu, flagnimunstur, stenslamunstur (ferlega er það erfitt, eins og það lítur út fyrir að vera auðvelt) og margt fleira. Mér leið dálítið í byrjun eins og ég væri að svindla mér inn, eins og ég vær flóðhestur á glerverkstæði og ætti alls ekki heima þarna. En gaman var þetta og fræðandi. Og Annie er góð og skemmtileg kona. Og málningin hennar er auðveld að mála með, þornar hratt og lyktar svo til ekki neitt.

Og núna líður mér eins og ég hljóti að vera leiðinlegasti bloggari í heiminum. Kannski ég fari að taka upp siði Ármanns og þurrka færslur út. Er að halda í mér að þurrka þessa færslu ekki út. Á ég? Á ég ekki? Á ég að láta hana fara eða vera? Ef þið eruð að lesa þetta fékk hún að vera. Nema ég þurrki út allt nema þetta síðasta.
Æ, ég leyfi þessu að standa svo þið getið skrifað bak við eyrað að muna eftir að sjá Eilífa garðyrkjumanninn.

Lifið í friði.

7.12.05

bara fyrir ykkur

Til að gleðja nú ykkar alíslensku hjörtu vil ég segja ykkur að á föstudaginn verður þáttur um íslenskan mann sem er að reyna að minnka laxveiði í ám á Íslandi til að ná upp stofninum. Á laugardagsmorgun verður svo líklega þátturinn um íslenska sjónvarpið þó ég hafi ekki séð það auglýst, enda er sá þáttur á kapalstöð sem ég hef ekki aðgang að. En ég er búin að redda mér upptakara. Ég veit hvað þið eruð sjúklega unglingslega spennt þegar talað er um ykkur/okkur í útlöndum svo mér fannst ég verða að skella þessu hér inn þó ég hafi verið búin að lofa sjálfri mér að blogga ekki í kvöld. Og nú er ég hætt. Jólakort númer sex á dagskrá. Komin í béin!

Lifið í friði.

6.12.05

stundum

Stundum finnst mér ógeðslega gaman að heyra góðar kjaftasögur. Stundum er það hrein nautn að smjatta á annarra manna óförum, hallærishætti eða hverju því öðru sem gaman getur verið að hneykslast á. En stundum verð ég hálffúl þegar ég heyri sögur um fólk sem ég þekki eða veit hver eru. Stundum finnst mér það óþægileg tilhugsun að vita að ég muni sjá þetta fólk aftur og vita þetta um það og það veit ekki að ég veit og ég gæti aldrei sagt þeim það. Mig langar ekki að vita um skuggahliðar vina og kunningja. Ekkert frekar en að þau þekki mínar.
Hm. Hef svo sem ekkert meira um þetta mál að segja annað en að allt sem þið getið nokkru sinni heyrt um mig er ósatt ef það er óþægilegt en hreina satt ef það eru fræknisögur. Munið það bara.

Ég er að fara til tannlæknis. Rifjaði einmitt upp fyrstu tannlæknaför mína sem ég man eftir. Ég slóst þannig við mömmu að hún kom mér ekki inn fyrir dyrnar í fyrstu ferð. Þurfti að fá annan tíma fyrir mig seinna. Ég hékk á dyrakarminum og orgaði. Mömmu hefur áreiðanlega liðið mjög vel fyrir framan fólkið á biðstofunni. Skil ég núna. Þá var mér slétt sama og fannst þetta viðbjóðsleg aðför að lífi mínu og réttindum. Í næstu ferð komst ég í stólinn en þá byrjaði slagur við tannlækninn sem reyndist hið versta fól og hef ég aldrei þolað að hugsa um hann síðan.
Í dag, þegar ég fer til tannlæknis, langar mig alltaf að byrja að láta eins og óhemja. í hvert skipti sem ég mæti, pollróleg, læt vita af mér, bíð lesandi úrelt vikublöð, stend upp og geng að stólnum og sest í hann, gapi, spýti, sit og segi takk, er ég að sigra Golíat. Þetta sýnir að maður getur í rauninni allt. Bara þóst vera kúl og gert hlutina. Farið til tannlæknis. Ég kvíði svo fyrir að ég er með tár í augum.

Lifið í friði.

5.12.05

innflytjendur

Mér fannst gaman að lesa viðtalið við stúlkuna/konuna sem rannsakaði unglinga af erlendum uppruna á Íslandi. Þörf athugun og mér sýnist hún vera vel úr garði gerð. Hlakka til að fá að lesa ritgerðina. En ég hnýt samt um pælingarnar um að krakkarnir segist ekki vera íslensk. Mér finnst það ekkert mjög undarlegt. Ég segist alltaf vera íslensk og neita því staðfastlega að vera orðin frönsk. Einnig kenni ég börnum mínum að segja að þau séu íslensk. Þau eru íslensk en þau eru líka frönsk. Ef maðurinn minn væri íslenskur, myndi ég ekki kenna þeim að segja að þau væru líka frönsk. Þá væru þau bara Íslendingar í Frakklandi. Það er ekkert að því að vera útlendingur í landi. Auðvitað er það auðveldara fyrir fólk eins og mig sem kem frá landi sem allt hefur að bjóða. Kem af fúsum og frjálsum vilja með góðan bakgrunn og lifi góðu lífi.
Auðvitað flækjast málin þegar fólk neyðist til að flýja landið sitt því annars myndu þau deyja og koma til annarra landa allslaus og fá alls konar hjálp og m.a. vegabréf landsins. En það væri fásinna að heimta af þeim að telja sig umbreytast í eitthvað annað samt. Finnst mér. En þetta mál er hið flóknasta og ég er gersamlega tótallí algerlega svo innilega sammála konunni um að biðja um smá fréttapláss á erlendum tungumálum í íslenskum fjölmiðlum. Ég skora hér með á blöðin sem berjast um íslenskan markað að ákveða að vera fyrst til að ríða á vaðið.

Lifið í friði.

4.12.05

wiki, góðar konur og myndamartröð

Það eru skemmtilegar og spennandi umræður um Wikipedia út um allt. Bætti inn tenglum á Salvöru sem er ekki bara frábær kona heldur líka stödd í París einmitt núna og bendir á fína leið til að hafa það gott hérna. Ég ætla að hafa sambandi við hana og fá að "ræna" pistlunum hennar inn á heimasíðuna mína, parisardaman.com.
Svo er það hún Harpa sem ég hef nokkrum sinnum lesið og alltaf líkað en samt alltaf gleymt að tengja á hana. Nú er hún komin inn.
Ég er alveg hissa á því hvernig fólk leyfir sér að hegða sér á kommentakerfum bloggsíðna. Alveg hreint ótrúlega sóðalegt stundum. Gerir í raun að verkum að maður nennir varla að pæla í hlutum sem eru manni hugstæðir eins og trú og trúleysi eða hvort netið er gott eða vont. Því auðvitað er trú einkamál hvers og eins og óþarfi að skíta fólk út fyrir sínar persónulegu skoðanir sem eru jafnvel frekar líðan eða innri sannfæring. Og eins og Fjallabaksleiðin benti á fyrir löngu síðan er ekki hægt að rökstyðja innri sannfæringu þannig að vel sé. Einhvern tímann var ég nú að velta trúmálum fyrir mér hérna en annað hvort las mig enginn þá eða mér tókst að vera fjáranum diplómatískari, ég man alla vega ekki eftir viðbrögðum. Annað gerðist þegar Ástu datt í hug að skella fram einni skitinni setningu um skitinn hlut og var skitin út fyrir það á dögunum. Afsakið, ég varð að skitskrifa þetta svona, skáldaþarfarinnar vegna, svona ofurendurtekning er stundum svo skitlega hressandi.
Og lætin yfir gagnrýni Hörpu og Salvarar á Wikipediu eru alveg með eindæmum og ekki stjórninni til sóma. Ég er hins vegar sammála Salvöru um að þetta má alltaf bæta með því að vera duglegur að senda inn greinar. Hvet fullorðið og greint fólk til að taka þátt og auðvitað á að eyða fáránlegum klámmyndum út af svona fínni síðu. Finnst mér. Og ét smér. Og á líklega seint og illa eftir að skrifa greinar þangað inn sjálf. Þarf nú fyrst að halda áfram með snilld minnar eigin síðu. Og skrifa jólakortin 80.
Einmitt í sambandi við það: Af hverju þurfa þau alltaf að halla sér, snúa sér, stinga puttanum upp í augu, nef eða munn, slefa, grenja, gera eitthvað allt annað en að líta brosandi upp þegar mamma kallar: Krakkar, krakkar, sjáiði mömmu! með myndavél í andlitinu. Og af hverju er ég sí og æ að SLÖKKVA á myndavélinni þegar ég ætla að SMELLA AF??? Kannski er hægt að finna einhverjar fallegar og vel heppnaðar barnamyndir á netinu og stela? Mig vantar sem sagt mynd af tæplega fjögurra ára stúlku og tveggja ára dreng. Ef einhver veit um slíkt, má benda mér á það. Vandamálið er að ég get ekki byrjað að skrifa kortin ef ég hef ekki myndina því maður þarf kannski að útskýra hana eitthvað. Skiljiði?

Lifið í friði.

Hugvekja frá Hildigunni

Ég gat ekki fengið beina tengilinn hennar upp á gamla jálknum svo ég set bara pistilinn hennar hingað inn. Hildigunnur er á tenglalistanum mínum:

Fæ annars ekki orða bundist, hann Kristján hérna á móti kom til okkar áðan til að fá lánaðan stiga. Tvær síðustu helgar hafa einhverjir misguided einstaklingar gert sér ferð hingað til að kasta eggjum í húsið hans vegna þess að fyrrverandi íbúi þar er skítseiði. Þetta hefst upp úr nafn- og myndbirtingum í fjölmiðlum.

Hvernig væri að fólk hugsaði nú aðeins. Ég veit ekki hvort það er búið að stinga mannfýlunni inn en hann býr amk ekki þarna lengur. Hefur aldrei búið á efri hæðum hússins heldur. Annað fólk í húsinu er alsaklaust og á ekki skilið svona meðferð. Auðvitað lendir það á þeim að þrífa þetta.

Það er ekki einu sinni eins og þetta sé eitthvað fullt lið að labba framhjá og segi: hei, þetta er húsið gerum eitthvað. Kemur hingað sér ferð með eggin, amk. geng ég ekki með egg í vasanum þegar ég er að fara í bæinn. Liðið kemur sér ferð til að henda eggjum.

Væruð þið til í að láta þetta berast? Vísa í færsluna kannski? Yrðum þakklát...

Þar hafið þið það. Ég veit ekki hvort einhverju er við þetta að bæta. En ég er alvarlega búin að hugsa mikið um það núna um helgina að það hljóti bara að vera til fólk sem er fífl. Ha?

Lifið í friði litlu fíflin mín öllsömul.

3.12.05

í morgun

var ég skömmuð fyrir þau barnalegheit mín að halda alltaf að allir séu góðir. Skömmuð fyrir að gera mér ekki grein fyrir hörku heimsins og að fólk talar illa um annað fólk.
Ég tala stundum illa um fólk. Ég geri mér fulla grein fyrir því að til er fólk sem þolir mig ekki. Stundum er bara skrýtið að heyra lygasögur um sjálfan sig. Og stundum er sárt að vita hvaðan þær lygasögur koma. Fólk er skrýtið. Og sumir ekki skemmtilegir. Ónei.

Lifið í friði.

p.s. dundaði mér við að breyta tenglalistanum áðan. Bætti við góðu fólki sem ég laumast stundum til að lesa.

kvíði

Ég kvíði þess vegna er ég.
Ég hef einbeitt mér svo að því að hlakka til að koma heim að ég var alveg stein búin að gleyma að taka með í reikninginn að nú væri framkvæmdum sem rétt voru að hefjast síðast þegar ég var heima líklega lokið eða að ljúka. Allt í einu helltist það yfir mig í gær þegar mamma fór að tala um hvað Hringbrautin væri orðin hræðileg. Og svo las ég þrykkjugóða grein Hvalveiðarans um mislæg gatnamót og fylltist enn meiri kvíða. Ekki bætir úr skák að ég hlustaði á nöturlega úttekt á bílanotkun og viðhorfi fólks, lögreglu og yfirvalda til bíla og bílstjóra á Speglinum í gær.
Mér finnst ömurlegt hvernig Reykjavík er að breytast í hraðbrautir og umferðaslaufur.
Ég skil ekki fólk sem getur ekki án bílsins síns verið, ég skil að fólk vilji eiga bíl til að komast í ferðalög og snatta í úthverfum en ég skil ekki að fólk finni ekki lengur gleði yfir því að koma með strætó niður í bæ og tölta Laugaveginn og Skólavörðustíginn, hlýja sér yfir súkkulaðibolla á Mokka og tölta svo yfir Þingholtin, skoða í gluggana hjá fólki og ná strætó heim í úthverfin fyrir framan Landspítalann. Já, ég er rómantíker og hugsa ekki hlutina til enda. Læt mig dreyma um lífsstíl sem var deyddur af markaðsviðusrstyggðum fyrir löngu síðan. Læt mig dreyma um að fólk sé ekki endilega alltaf að hugsa um að hlutirnir verði að GERAST, heldur geti stundum bara notið þess að vera til, vera núna, svífa um og ekkert sérstakt að gerast og samt allt. Æ, það skilur mig líklega enginn. Enda svo sem hægt að segja það líka að búið er að eyðileggja endanlega almenningssamgöngurnar og ekki verði aftur snúið. Bíll eða dauði.
Um daginn fór ég með ferðalanga í strætó og það var rætt að fólkið hreinlega vissi ekki hvernig átti að haga sér í strætó, þetta væri hlutur sem þau hefðu ekki gert í rúman áratug. Hm. Ég get ekki dæmt fólk sem nennir ekki að taka strætó, ég tel mig ekki hafa neinn rétt á því að hafa skoðanir á annarra vali. En mér finnst samt sorglegt að strætó skuli vera gersamlega horfinn úr lífi fólks. Hverjir aka strætó? Ég man hvað við vorum spennt, krakkarnir, þegar einn af strætóbílstjórunum flutti í húsið við hliðina á frænku minni. Við gátum skyggnst inn í einkalíf þessa manns sem var stór hluti af lífi okkar. Þrisvar í viku ók hann okkur fram og til baka úr tónlistarskólanum plús allar hinar ferðirnar sem við fórum niður í bæ. Einkabílstjórinn okkar. Í dag skilst mér að foreldrar eyði miklum tíma í skutl og reddingar. Auðvitað hafa mamma og pabbi skutlað og senst fyrir okkur í gegnum tíðina, en þau gátu samt alltaf líka sent okkur bara í strætó þangað sem við áttum að fara. Ætli einhver strætóbílstjóri í dag sé hetja krakkanna í hverfinu? Líklega ekki.
Úff hvað ég er döpur. Aumingja aumingja elsku borgin mín við Sundin. En lesið heldur hvalveiðarann, ég er andlaus í depurðinni.

Lifið í friði.

1.12.05

kitl

Ég þarf mikið á því að halda að dreifa huganum einmitt núna. Getur maður sprungið úr stressi og áhyggjum? Er illt umtal óumflýjanlegt ef maður lætur bera örlítið á sér (til að bjarga sér)? Well. Ljúfa kitlaði mig fyrir viku síðan og ég hefði náttúrulega átt að hafa langan og góðan tíma til að hugsa eitthvað smart og smellið að segja en ég veit einungis eitt svar nú þegar.
Leyfum skemmtuninni að hefjast:

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. Sjá pýramídana í Egyptalandi.
2. Sjá Grand Canyon og Niagara fossana í BNA.
3. Skoða Louvre safnið almennilega "frá toppi til táar".
4. Kafa og helst að horfast í augu við hákarl þó ekki sé víst að ég þori þegar á reynir.
5. Leika í leikriti á sviði.
6. Eignast píanó og rifja upp spilamennskuna.
7. Vera duglegri að hjálpa minni máttar.

7 hlutir sem ég get:
1. Eldað góðan mat syngjandi.
2. Gengið lengi lengi lengi.
3. Skrifað áttatíu jólakort.
4. Skrifað ágætis íslensku.
5. Skrifað ágætis frönsku.
6. Sungið hástöfum úti á götu án þess að skammast mín.
7. Farið ein í bíó, út á bar og í ferðalag án þess að líða illa (þessu var nú stolið frá einhverjum öðrum bloggara en á afskaplega vel við mig).

7 hlutir sem ég get ekki:
1. Logið að mömmu minni eða leynt hana nokkrum sköpuðum hlut.
2. Verið reið út í fólk lengi.
3. Flísalagt veggi (hef aldrei prófað en mig óar við þeirri tilhugsun)
4. Lagt eða gert við raflagnir.
5. Spilað fótbolta.
6. Hlaupið í meira en þrjár sekúndur.
7. Sprautað sjálfa mig eða aðra.

7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
1. Góður húmor.
2. Hlýjar hendur.
3. Hjartahlýja (og ekki búllsjitta með að 2 og 3 eigi ekki saman).
4. Gáfur.
5. Feitir bankareikningar.
6. Flottir bílar.
7. Fyrirgefið mér ég bara fann ekki fleiri en 4 atriði. Bara finnst fólk svo frábært hvernig sem það er.

7 frægir karlmenn sem heilla mig:
1. Alfred Hitchcock.
2. Serge Gainsbourg.
3. Megas.
4. Pálmi Gunnarsson.
5. Rock Hudson.
6. James Dean.
7. Johnny Depp (hélduð þið að ég myndi sleppa honum?)

7 orð eða setningar sem ég segi oftast:
1. Sólrún!
2. Kári!
3. Arnaud minn!
4. jesús maría jósef (með spænskum hreim, það kemur best út).
5. Þú ert að djóka.
6. Kræst.
7. Helvítis.
Pjúff hvað þetta var erfitt, tók mig lengsta tímann þó ég færi þessa auðveldu leið í byrjun.

7 manneskjur sem ég ætla að kitla:
1. Hanna litla
2. Farfuglinn
3. Magga best
4. Ásta Svavars
5. Bryngive
6. Eyja
7. Björn Friðgeir
Ég er alls ekki viss hvort einhverjir hafi ekki þegar verið kitlaðir en það verður þá að hafa það.

Ég vona að þetta komi ykkur að góðum notum í dagsins amstri. Þetta var ágætt, mér tókst að hætta að hugsa um ákveðið mál í smá tíma.

Lifið í friði.