innflytjendur
Mér fannst gaman að lesa viðtalið við stúlkuna/konuna sem rannsakaði unglinga af erlendum uppruna á Íslandi. Þörf athugun og mér sýnist hún vera vel úr garði gerð. Hlakka til að fá að lesa ritgerðina. En ég hnýt samt um pælingarnar um að krakkarnir segist ekki vera íslensk. Mér finnst það ekkert mjög undarlegt. Ég segist alltaf vera íslensk og neita því staðfastlega að vera orðin frönsk. Einnig kenni ég börnum mínum að segja að þau séu íslensk. Þau eru íslensk en þau eru líka frönsk. Ef maðurinn minn væri íslenskur, myndi ég ekki kenna þeim að segja að þau væru líka frönsk. Þá væru þau bara Íslendingar í Frakklandi. Það er ekkert að því að vera útlendingur í landi. Auðvitað er það auðveldara fyrir fólk eins og mig sem kem frá landi sem allt hefur að bjóða. Kem af fúsum og frjálsum vilja með góðan bakgrunn og lifi góðu lífi.Auðvitað flækjast málin þegar fólk neyðist til að flýja landið sitt því annars myndu þau deyja og koma til annarra landa allslaus og fá alls konar hjálp og m.a. vegabréf landsins. En það væri fásinna að heimta af þeim að telja sig umbreytast í eitthvað annað samt. Finnst mér. En þetta mál er hið flóknasta og ég er gersamlega tótallí algerlega svo innilega sammála konunni um að biðja um smá fréttapláss á erlendum tungumálum í íslenskum fjölmiðlum. Ég skora hér með á blöðin sem berjast um íslenskan markað að ákveða að vera fyrst til að ríða á vaðið.
Lifið í friði.
<< Home