9.12.05

The Constant Gardener

Í Englandi á dögunum fórum við stúlkur í bíó eitt kvöldið að sjá spennumynd sem allir gagnrýnendur hrósuðu í hástert með Ralph Fiennes í aðalhlutverki, The Constant Gardener. Við héldum að þetta væri þægilegt léttmeti fyrir konur sem höfðu farið á diskótek kvöldið áður og eru orðnar óvanar slíkum lifnaðarháttum og voru dálítið mikið þreyttar. Skemmst er frá því að segja að sú var alls ekki raunin. Myndin setti stóran stóran köggul í maga minn og þessi köggull hefur enn ekki náð að leysast almennilega upp.
Margt er reyndar hægt að segja myndinni til foráttu. Óskaplega fer t.d. í taugarnar á mér þessi falski heimildamyndastíll með titrandi myndavél og stórkornóttri mynd. Einhver dogmakomplex sem er farinn að vera frekar þreyttur. En sagan er þrykkjugóð, og myndin er náttúrulega bara einn stór og þarfur rasskellur á okkur feita og freka Vesturlandabúa sem níðumst á Afríku og látum það viðgangast að fólk sé drepið til að okkur geti liðið betur í prjálheimum.
Ég held ég hafi ekki séð Ralph síðan í Spider og átti dálítið erfitt með að losa hann úr því hlutverki. Ferlega var sú mynd sterk, hafði ekki gert mér grein fyrir því almennilega hvað hún hafði haft mikil áhrif á mig. Mér finnst hann fantagóður leikari þó ég hafi aldrei vitað hvernig á að segja eftirnafnið hans og eigi erfitt með að fyrirgefa honum það. Rachel Weizs er líka mjög góð og svo undurfögur að það hálfa væri nóg. Hvað er þetta með að vera með ómöguleg eftirnöfn?
Þessi mynd er algert möstsí ef hún kemst í kvikmyndahúsin heima.

Ég er að mála eldhúsið mitt af því það er svo lítið að gera og langt til brottfarar og jóla. Varð að finna mér eitthvað til að dútla við og reif því allt eldhúsdótið hingað fram og hér eru skúffur og hurðir að þorna út um allt. Er reyndar með fínu málninguna hennar Annie Sloan, aðalhetjunnar minnar sem kenndi mér ýmsar málningarbrellur á námskeiðinu um daginn. Var ég einhvern tímann búin að segja ykkur frá tilfinningunni að sitja við borð með tveimur svo dæmigerðum breskum húsmæðrum að það var eins og þær hefðu verið fengið lánaðar úr einhverjum breskum sjónvarpsþáttum og dúlla sér við að búa til sprungumálningu, flagnimunstur, stenslamunstur (ferlega er það erfitt, eins og það lítur út fyrir að vera auðvelt) og margt fleira. Mér leið dálítið í byrjun eins og ég væri að svindla mér inn, eins og ég vær flóðhestur á glerverkstæði og ætti alls ekki heima þarna. En gaman var þetta og fræðandi. Og Annie er góð og skemmtileg kona. Og málningin hennar er auðveld að mála með, þornar hratt og lyktar svo til ekki neitt.

Og núna líður mér eins og ég hljóti að vera leiðinlegasti bloggari í heiminum. Kannski ég fari að taka upp siði Ármanns og þurrka færslur út. Er að halda í mér að þurrka þessa færslu ekki út. Á ég? Á ég ekki? Á ég að láta hana fara eða vera? Ef þið eruð að lesa þetta fékk hún að vera. Nema ég þurrki út allt nema þetta síðasta.
Æ, ég leyfi þessu að standa svo þið getið skrifað bak við eyrað að muna eftir að sjá Eilífa garðyrkjumanninn.

Lifið í friði.