25.12.05

gleðileg rok og rigningu

Þó að veðrið úti geri allt ALLT til þess að hrista jólaskapið úr jólaálfum gengur hvorki né rekur hjá því. (Ætli þessi setning næði í gegnum prófarkarlestur?). Mér er skítsama um rok og rigningu, börnin eru hálfbiluð eftir gjafaflóðið í gær, maðurinn minn er búinn eftir ofátið í gær og ég sjálf er bara í mínu háheilaga jólaskapi sem ég fer alltaf í á slaginu sex á aðfangadag og held í a.m.k. þrjá daga. Auðvitað hrekk ég reglulega í jólagír alla aðventuna, en klukkan sex þegar klukkurnar hringja (sem ég missti næstum því af í þetta sinn en náði þó) hrekk ég í barnslegt gleðiástand. Mjög þægilegt og indælt.
Óvísindaleg könnun mín á hegðun fólksins í landinu vikuna fyrir jólin gefur eftirfarandi niðurstöður:
1. Jólastress er ekki algilt, það er til, sumir fara m.a.s. í jólapanik á Þorláksmessu en flestir virðast ná að stjórna skapi sínu og vera nægilega skipulagðir og kærulausir í bland til að vera lausir undan slíku leiðindaástandi.
2. Kaupæðið virðist frekar mikið. Mér sýnist margir gefa of margar gjafir og allt of dýrar miðað við fjárhag. Það er þó alls ekki algilt heldur og ýmsir virðast hafa sömu viðmið og ég að það er hugurinn sem skiptir máli, ekki verðið. Einhver bloggarinn sagði að til að ná að gefa ódýrar gjafir þyrfti að velja af kostgæfni. Ég hef lent í því að þurfa að kaupa allar gjafir á þorláksmessukvöldi og náði samt að gefa öllum í samræmi við budduna mína. Málið er að hugsa ekki um að viðtakendur séu þannig illa gerðir á jólunum að þeir reikni út krónugildið og spái í eigin gjafir á slíkum forsendum. Málið er líka að vera ekki með minnimáttarkennd heldur treysta á að fólk hafi húmor og finnist gaman að fá litlu skrýtnu gjafirnar. Mér þykir t.d. dræsuuppþvottaburstann frá HG algert æði. En nú fer ég líklega að hljóma vanþakklát gagnvart þeim sem gáfu mér allt of fínar gjafir. Ég segi því bara: Takk öllsömul. Mér þykir vænt um allar gjafirnar mínar og brosi gegnum tárin eins og versta fegurðardrottning. Ég vona bara að fólk sé ekki með leiðindasting í maganum vegna yfirvofandi eftirmála kaupanna. Sjálf hef ég ekki átt kreditkort í mörg ár og neita mér yfirleitt um yfirdráttarheimild nema ég sé örugg um að það sé skammtímalausn. Ég vildi óska að allir hinir gerðu eins, ég er sannfærð um að heimurinn yrði betri ef minni gróði rynni til bankastofnana vegna vaxtagreiðslna neysluskulda.
3. Fólkið sem stundar sund í Sundhöllinni fer ekki í sund í jólaundirbúningnum. Það hefur verið einn af hápunktum dvalar okkar síðustu viku að geta leikið milljónamæringa í einkahöllinni okkar á morgnana. Nokkrir gamlir karlar hafa skemmt okkur með nærveru sinni en laugina sjálfa höfðum við útaf fyrir okkur.

Svo er það staðreyndin sorglega um landið og loftslagið:
Hvít jól eru liðin tíð á Íslandi eða a.m.k. í Reykjavík. Hvað er eiginlega langt síðan síðast???

Gleðilega rest og friður sé með yður.