fallegt menningarheimili - freistandi kostur
Íbúðin sem við fengum í skiptum fyrir okkar litla heimili troðfullt af drasli sem ég sanka að mér og á erfitt með að láta þó ég viti afar vel að það er hvorki fengsjú né heilbrigt ryksöfnunar vegna að troðfylla heimilið af ósamstæðu postulíni, gömlum myndavélum, útvörpum, vasaljósum og júneimitt... já, hm, íbúðin sem við erum í hér er hreint dásamleg.Hún er mátulega stór, mátulega "tómleg", þ.e.a.s. ekki troðfull af drasli en samt er smá ofnhilla með gömlu dóti sem ég get glatt mig við að horfa á, gamlir pez karlar o.fl. skemmtilegt, og síðast en ekki síst er hér góður slatti af íslenskri myndlist. Húsgögnin eru þessi skemmtilega blanda af ikea og góðum hirðum sem er einmitt okkar stíll.
Mér líður sannast sagna svo vel hérna að í gær flaug mér í hug að nú hefði ég góð sambönd við nokkra athafnamenn eftir að hafa lóðsað þá um París og að kannski gæti ég fengið vinnu með góð laun hér heima og maðurinn gæti alveg eins skrifað hér eins og þar og að kannski ættum við bara að gera þetta. En róið ykkur niður, ég er dottin úr slíkum hugleiðingum í bili. Jólaleikrit RÚV minnti mig á að heima er ekki alltaf bezt. Horfði nú ekki á það nema í tvær mínútur hljóðlaust en... það var nóg...
Annars er maður bara að jafna sig á kjötsvíma (sjá útskýringar hjá málbeini)gærdagsins og að undirbúa sig andlega fyrir stóra jólaboðið í dag. Þar hitti ég alla föðurfjölskylduna mína sem er alltaf gaman. Maturinn er oft mjög óhefðbundinn, indverskir pottréttir, hrossaket eða eitthvað skemmtilegt og fólkið í þessari fjölskyldu er hvert öðru skemmtilegra. Ég er jafnvel að hugsa um að mæta of snemma til að ná smá gæðatíma með eldabuskunum sem ég hef ekki hitt þó ég hafi verið hér í viku fyrir jólin sem er undarlegt að hugsa til. Hvert fór þessi vika? Ekki í skúringar eða kringluferðir. Ekki í fyllerí, við erum að veslast upp úr heilagleika hérna hjónin. Jú, ég náði þremur rauðvínsglösum á voðalega fínum bar með leðursófa og óhugnalega stórum ljósakrónum um daginn en var svo slegin yfir verðinu að síðan höfum við látið duga að horfa bara á hina drekka og fengið okkur vatn. Ekkert jafnast á við íslenskt kranavatn. Og nú finnst mér allt í einu að ég verði að taka það fram að síðustu setningar eru háð og lygi. Og um leið fer það í taugarnar á mér því það skemmir óneitanlega fyrir.
Annars gerðust þau stórtíðindi á jóladag að faðir minn las mig. Sem er sjaldgæft. Hann uppástendur að ég hafi alveg gleymt hópnum ljótir og heimskir í fegurðar- og hreystiræktunar tillögu minni um daginn. Hann var nokkuð ánægður með mig en fannst hann kannski vera útundan? Ég þarf að athuga þetta mál nánar.
Lifið í friði.
<< Home