3.12.05

kvíði

Ég kvíði þess vegna er ég.
Ég hef einbeitt mér svo að því að hlakka til að koma heim að ég var alveg stein búin að gleyma að taka með í reikninginn að nú væri framkvæmdum sem rétt voru að hefjast síðast þegar ég var heima líklega lokið eða að ljúka. Allt í einu helltist það yfir mig í gær þegar mamma fór að tala um hvað Hringbrautin væri orðin hræðileg. Og svo las ég þrykkjugóða grein Hvalveiðarans um mislæg gatnamót og fylltist enn meiri kvíða. Ekki bætir úr skák að ég hlustaði á nöturlega úttekt á bílanotkun og viðhorfi fólks, lögreglu og yfirvalda til bíla og bílstjóra á Speglinum í gær.
Mér finnst ömurlegt hvernig Reykjavík er að breytast í hraðbrautir og umferðaslaufur.
Ég skil ekki fólk sem getur ekki án bílsins síns verið, ég skil að fólk vilji eiga bíl til að komast í ferðalög og snatta í úthverfum en ég skil ekki að fólk finni ekki lengur gleði yfir því að koma með strætó niður í bæ og tölta Laugaveginn og Skólavörðustíginn, hlýja sér yfir súkkulaðibolla á Mokka og tölta svo yfir Þingholtin, skoða í gluggana hjá fólki og ná strætó heim í úthverfin fyrir framan Landspítalann. Já, ég er rómantíker og hugsa ekki hlutina til enda. Læt mig dreyma um lífsstíl sem var deyddur af markaðsviðusrstyggðum fyrir löngu síðan. Læt mig dreyma um að fólk sé ekki endilega alltaf að hugsa um að hlutirnir verði að GERAST, heldur geti stundum bara notið þess að vera til, vera núna, svífa um og ekkert sérstakt að gerast og samt allt. Æ, það skilur mig líklega enginn. Enda svo sem hægt að segja það líka að búið er að eyðileggja endanlega almenningssamgöngurnar og ekki verði aftur snúið. Bíll eða dauði.
Um daginn fór ég með ferðalanga í strætó og það var rætt að fólkið hreinlega vissi ekki hvernig átti að haga sér í strætó, þetta væri hlutur sem þau hefðu ekki gert í rúman áratug. Hm. Ég get ekki dæmt fólk sem nennir ekki að taka strætó, ég tel mig ekki hafa neinn rétt á því að hafa skoðanir á annarra vali. En mér finnst samt sorglegt að strætó skuli vera gersamlega horfinn úr lífi fólks. Hverjir aka strætó? Ég man hvað við vorum spennt, krakkarnir, þegar einn af strætóbílstjórunum flutti í húsið við hliðina á frænku minni. Við gátum skyggnst inn í einkalíf þessa manns sem var stór hluti af lífi okkar. Þrisvar í viku ók hann okkur fram og til baka úr tónlistarskólanum plús allar hinar ferðirnar sem við fórum niður í bæ. Einkabílstjórinn okkar. Í dag skilst mér að foreldrar eyði miklum tíma í skutl og reddingar. Auðvitað hafa mamma og pabbi skutlað og senst fyrir okkur í gegnum tíðina, en þau gátu samt alltaf líka sent okkur bara í strætó þangað sem við áttum að fara. Ætli einhver strætóbílstjóri í dag sé hetja krakkanna í hverfinu? Líklega ekki.
Úff hvað ég er döpur. Aumingja aumingja elsku borgin mín við Sundin. En lesið heldur hvalveiðarann, ég er andlaus í depurðinni.

Lifið í friði.