6.12.05

stundum

Stundum finnst mér ógeðslega gaman að heyra góðar kjaftasögur. Stundum er það hrein nautn að smjatta á annarra manna óförum, hallærishætti eða hverju því öðru sem gaman getur verið að hneykslast á. En stundum verð ég hálffúl þegar ég heyri sögur um fólk sem ég þekki eða veit hver eru. Stundum finnst mér það óþægileg tilhugsun að vita að ég muni sjá þetta fólk aftur og vita þetta um það og það veit ekki að ég veit og ég gæti aldrei sagt þeim það. Mig langar ekki að vita um skuggahliðar vina og kunningja. Ekkert frekar en að þau þekki mínar.
Hm. Hef svo sem ekkert meira um þetta mál að segja annað en að allt sem þið getið nokkru sinni heyrt um mig er ósatt ef það er óþægilegt en hreina satt ef það eru fræknisögur. Munið það bara.

Ég er að fara til tannlæknis. Rifjaði einmitt upp fyrstu tannlæknaför mína sem ég man eftir. Ég slóst þannig við mömmu að hún kom mér ekki inn fyrir dyrnar í fyrstu ferð. Þurfti að fá annan tíma fyrir mig seinna. Ég hékk á dyrakarminum og orgaði. Mömmu hefur áreiðanlega liðið mjög vel fyrir framan fólkið á biðstofunni. Skil ég núna. Þá var mér slétt sama og fannst þetta viðbjóðsleg aðför að lífi mínu og réttindum. Í næstu ferð komst ég í stólinn en þá byrjaði slagur við tannlækninn sem reyndist hið versta fól og hef ég aldrei þolað að hugsa um hann síðan.
Í dag, þegar ég fer til tannlæknis, langar mig alltaf að byrja að láta eins og óhemja. í hvert skipti sem ég mæti, pollróleg, læt vita af mér, bíð lesandi úrelt vikublöð, stend upp og geng að stólnum og sest í hann, gapi, spýti, sit og segi takk, er ég að sigra Golíat. Þetta sýnir að maður getur í rauninni allt. Bara þóst vera kúl og gert hlutina. Farið til tannlæknis. Ég kvíði svo fyrir að ég er með tár í augum.

Lifið í friði.