4.12.05

wiki, góðar konur og myndamartröð

Það eru skemmtilegar og spennandi umræður um Wikipedia út um allt. Bætti inn tenglum á Salvöru sem er ekki bara frábær kona heldur líka stödd í París einmitt núna og bendir á fína leið til að hafa það gott hérna. Ég ætla að hafa sambandi við hana og fá að "ræna" pistlunum hennar inn á heimasíðuna mína, parisardaman.com.
Svo er það hún Harpa sem ég hef nokkrum sinnum lesið og alltaf líkað en samt alltaf gleymt að tengja á hana. Nú er hún komin inn.
Ég er alveg hissa á því hvernig fólk leyfir sér að hegða sér á kommentakerfum bloggsíðna. Alveg hreint ótrúlega sóðalegt stundum. Gerir í raun að verkum að maður nennir varla að pæla í hlutum sem eru manni hugstæðir eins og trú og trúleysi eða hvort netið er gott eða vont. Því auðvitað er trú einkamál hvers og eins og óþarfi að skíta fólk út fyrir sínar persónulegu skoðanir sem eru jafnvel frekar líðan eða innri sannfæring. Og eins og Fjallabaksleiðin benti á fyrir löngu síðan er ekki hægt að rökstyðja innri sannfæringu þannig að vel sé. Einhvern tímann var ég nú að velta trúmálum fyrir mér hérna en annað hvort las mig enginn þá eða mér tókst að vera fjáranum diplómatískari, ég man alla vega ekki eftir viðbrögðum. Annað gerðist þegar Ástu datt í hug að skella fram einni skitinni setningu um skitinn hlut og var skitin út fyrir það á dögunum. Afsakið, ég varð að skitskrifa þetta svona, skáldaþarfarinnar vegna, svona ofurendurtekning er stundum svo skitlega hressandi.
Og lætin yfir gagnrýni Hörpu og Salvarar á Wikipediu eru alveg með eindæmum og ekki stjórninni til sóma. Ég er hins vegar sammála Salvöru um að þetta má alltaf bæta með því að vera duglegur að senda inn greinar. Hvet fullorðið og greint fólk til að taka þátt og auðvitað á að eyða fáránlegum klámmyndum út af svona fínni síðu. Finnst mér. Og ét smér. Og á líklega seint og illa eftir að skrifa greinar þangað inn sjálf. Þarf nú fyrst að halda áfram með snilld minnar eigin síðu. Og skrifa jólakortin 80.
Einmitt í sambandi við það: Af hverju þurfa þau alltaf að halla sér, snúa sér, stinga puttanum upp í augu, nef eða munn, slefa, grenja, gera eitthvað allt annað en að líta brosandi upp þegar mamma kallar: Krakkar, krakkar, sjáiði mömmu! með myndavél í andlitinu. Og af hverju er ég sí og æ að SLÖKKVA á myndavélinni þegar ég ætla að SMELLA AF??? Kannski er hægt að finna einhverjar fallegar og vel heppnaðar barnamyndir á netinu og stela? Mig vantar sem sagt mynd af tæplega fjögurra ára stúlku og tveggja ára dreng. Ef einhver veit um slíkt, má benda mér á það. Vandamálið er að ég get ekki byrjað að skrifa kortin ef ég hef ekki myndina því maður þarf kannski að útskýra hana eitthvað. Skiljiði?

Lifið í friði.