31.7.06

EKKI

láta ykkur dreyma um að ég sé hætt. Hins vegar er ég netlaus heima hjá mér og finnst það ástand helst minna á frústrasjónina sem felst í sultukrukku hverrar lokið ekki vill af. Ástand sem maður endar alltaf á að laga með mási og blási og mikilli þenslu handleggsvöðva. Nema bara að þessi ráð duga ekki nú. Né að horfa illu auga á boxið sem blikkar bara í staðinn fyrir að sýna mér tímann. Né að taka allt úr sambandi og stinga aftur í samband.
Tæknivandamál er kannski einmitt ekki hægt að líkja við nein önnur vandamál a.m.k. hjá svona konum eins og mér því við stöndum gersamlega vanmáttugar gagnvart þessu, við sem höfum átt börn úti á ökrum í miðjum heyskap, við sem sáum um börn og rákum öflugan heimilisiðnað meðan kallinn var á sjó, við sem... og nú kemur mér engin klisja í hug og læt því staðar numið.

Fyrir tveimur dögum spurði ég mann hvernig honum dytti í hug að vera með vandamál einmitt á þessum tíma ársins þegar allir eru í fríi. Og nú stend ég frammi fyrir þeirri aumu staðreynd að ég mun þurfa að hringja í netfyrirtækið og það verður hálftíma bið og svo verður ekkert hægt að gera fyrr en 20. ágúst. OH, ég er svo pirruð. Ef netið væri nú bara tólið til að hlusta á fallega útvarpsþætti og lesa undarleg blogg væri kannski hægt að þola þetta. En blessað netið er mitt helsta atvinnutæki. Nú verð ég örugglega að verða aftur fastagestur hjá afar illa lyktandi kallinum hérna niðri á horni. Djöfull er ég pirruð.

Lifið í friði.

26.7.06

og börnin þau grétu og grétu

af því að seríósið var búið

Farin aftur smá, veit ekki í hvað en eikvað

Lifið í friði.

25.7.06

Rómverskur riddari á Akranesi

Í gær lenti ég í smá tölvuskeytasamskiptum við nafna minn Kristinn Pétursson sem hannaði og stýrir Rómarvefnum.
Ég rakst á greinarstúf um hann í Mogganum fyrir þó nokkru og reif það út og kíkti loksins til hans í gær. Þetta er frábær vefur, fullur af fróðleik og ég ákvað að senda honum línu og óska honum til hamingju.
Í ljós kom að við vorum samferða í menntaskóla í 2 ár, ég man eftir honum en hann ekki eftir mér en það er alls ekki undarlegt, hann var töluvert meira áberandi en ég með litað hár í "öðruvísi" fötum. Ég mundi reyndar líka eftir honum frá því að við höfðum hnakkrifist út af leiksviði í Laugardagshöll í sambandi við einhverja sýningu á vegum Tómstundaráðs, ef ég man rétt og kannski einmitt gerði ég í því að láta hann ekki taka eftir mér vegna þess.
Það kom líka í ljós að hann þekkir Eyju (sjá tenglalista) og svo hefur hann jafnvel áhuga á að setja upp einhvers konar Suðurlandavef, svo hver veit nema við förum einn góðan veðurdag í einhvers konar samstarf.
Það sem mér finnst sniðugt á Rómarvefnum er að þar er að finna fullt af greinum eftir aðra en höfundinn sjálfan. Lýsi ég hér með eftir efni frá öllum þeim er telja sig vita eitthvað sniðugt og skemmtilegt um París eða Frakkland og vilja deila því með öðrum í gegnum vefinn minn.
Ég er hins vegar alls ekki á leiðinni að setja auglýsingar eða annað slíkt á síðuna. Það er ekki í samræmi við stefnu mína, a.m.k. ekki í dag. Ég neita því ekki að hafa leitt hugann að því, en eins og málin standa í dag er ég algerlega frjáls og óháð og mér finnst það óþægileg tilhugsun að ég þyrfti að taka tillit til einhverra annarra með það hvað birtist á vefnum mínum.

Ég spurði Kristinn vitanlega hvort hann tæki fólk í gönguferðir um Róm því minn draumur hefur lengi verið að koma þangað og ég myndi sko alveg vilja fara í göngutúr með innvígðum, veit það eftir mitt rölt hér í öll þessi ár að þetta er frábær leið til að kynnast borgum og fá smá innanbúðarupplýsingar sem annars kæmu hvergi fram. Kristinn býr þá ekki lengur í Róm, heldur, eins og hann orðaði það sjálfur: "á Akranesi, með útsýni til Reykjavíkur".

Vitið þið um fleiri svona vefi? Veit t.d. einhver hvort hann Guðlaugur Arason í Köben er með síðu? Fann slíka einhvern tímann í "gamla daga" en var að leita að honum um daginn og kom að tómum kofanum. Mig hefur lengi langað í göngu með honum um þá frómu borg sem ég þekki reyndar skítsæmilega. Hef heyrt að hann sé skemmtilegur og fróður. Hefur einhver lesið bækurnar hans um Kaupmannahöfn? Ég á alltaf eftir að kaupa þær og hver veit nema ég hermi og komi með bókina: París, ekki bara Eiffelturninn? Tja, hver veit? Ekki ég.

Lifið í friði.

24.7.06

Rígmontin


Rígmontin
Originally uploaded by parisardaman.

Ég var farin að halda að enginn ætlaði að spyrja mig um bílinn á myndinni hér að neðan. Málið er að ég tók aldrei mynd af mínum bíl í þessum skurði (að fara í hina áttina, þá sem liggur að bænum sem sést í bakgrunni).
Hins vegar tókst skógarálfinum Noël, bróður bóndans, að aka út í sama skurð kvöldið eftir þegar hann var að reyna að forðast að lýsa upp tjaldið okkar með bílljósunum, greyið. Myndina tók ég gagngert til að setja á bloggið mitt með sögunni af mínum óförum. Segið svo að maður muni ekki eftir ykkur í fríinu!
Noël eigandi gamla fallega bílsins er með sítt ljóst hár og svartan hatt, ríður Arthur, hestinum sínum berbakt, er veðurbarinn og hraustlegur í útliti. Hann er nákvæmlega eins og Jónatan Ljónshjarta lítur út í mínum huga.
Noël er listmálari og býr í tjaldi í skóginum allt sumarið þar sem hann málar og verður með myndlistasýningu á næturnar í ágúst.
Hann var ótrúlega næmur og góður við börnin, Sólrún varð líklega mjög alvarlega ástfangin af honum en maðurinn minn hafði nú samt meiri áhyggjur af mér. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar en ég fann mikið til með dóttur minni þegar hún kvaddi hann með tárum.
Myndin með þessum pistli er hins vegar af þeim systkinum á asnabaki. Það er brillíant leið til að komast í sæmilega gönguferð með svona lítil börn. Þau ganga yfirleitt ekki lengi án þess að byrja að kvarta en á ösnunum sátu þau hnarreist og glöð í klukkustund og fengum við skemmtilegan túr um sveitir og skóga með konu sem var fróð um fleira en asnarækt.

Lifið í friði.

úpps


úpps
Originally uploaded by parisardaman.

Fyrsta nóttin okkar í tjaldi var sannarlega eftirminnileg. Arnaud fór að horfa á leik í sjónvarpi með bróður bóndans sem ég á eflaust eftir að segja ykkur betur frá.
Við börnin sátum fyrir utan tjaldið og dáðumst að himninum hvar miklir skýjabólstrar hrönnuðust upp og nutum brjálæðislegrar eldglæringasýningar og hrukkum stundum í kút við þrumurnar sem fylgdu. Brátt fór þó að fara um móðurina, hún safnaði saman húsgögnum og dóti inn í tjaldið og þegar fyrstu rigningardroparnir skullu á því dró hún börnin inn. Pabbinn kom líka, enda fann hann að óveður var í uppsiglingu. Ég ætla ekki að reyna að lýsa áhrifunum af eldingunum og þrumunum, harkan í rigningunni var slík að Sólrúnu varð á orði að einhver væri að lemja tjaldið. Við vorum vitanlega undir hæsta trénu á svæðinu og olli það mér miklum áhyggjum, sá það fyrir mér að við yrðum eldingu að bráð um nóttina.
Þegar svefnherbergið öðrum megin lagðist saman og fór að rigna inn í stofuna, færðum við okkur öll inn í hitt svefnherbergið og foreldrarnir spáðu í það hvort við værum örugg eða hvort við ættum að flýja eitthvert.
Þá heyrðist bílhljóð og var það bóndinn kominn að sækja okkur og fengum við inni á bænum sem var orðinn rafmagnslaus.
Við foreldrarnir komum börnunum inn og róuðum þau niður og fórum svo til að bjarga dótinu inn í bíl til öryggis. Bóndinn ók okkur aftur til baka og fór sjálfur að bjarga bróðurnum fyrrnefndum sem var í tjaldi einhvers staðar úti í skógi.
Þegar ég ætlaði svo að aka bílnum upp að bænum, villtist ég af leið í lélegu skyggninu og hafnaði úti í skurði.
Við komumst í hús við illan leik en fötin voru ennþá rennblaut þegar ég fór í þau morguninn eftir. Tjaldið stóðst þessa eldskírn, ástæðan fyrir rigningu í stofunni var einfaldlega rokið sem svipti þakskyggninu upp og svefnherbergið lagðist saman vegna þess að tvær lykkjur slitnuðu af tjaldhælunum. Annað var í fína lagi eftir læti næturinnar. Bærinn og reyndar sveitin öll var rafmagnslaus í tvo sólarhringa og mikið af trjám féllu um nóttina, sem var einmitt það sem þau voru hræddust um fyrir okkur og ástæða þess að við vorum sótt.

Tvo daga á eftir rigndi stundum en hitinn hélst hár svo það var nú allt í fína lagi.

Lifið í friði.

Rauðkusýning

Ég var alveg búin að gleyma því að ég gleymdi að setja þetta inn áður en ég fór í frí. En það er aldrei of seint að segja frá góðum hlutum og sýningin stendur til 15. september. Allir í Galdrasafnið!

NÍNA GAUTADÓTTIR sýnir í Galdrasafninu á Hólmavík.

Sýning Nínu samanstendur af safni mynda sem hún hefur haldið til haga frá árinu 1988. Myndirnar hafa það sameiginlegt að birta myndir af rauðhærðum konum í myndlist.
Sagan segir að á 16. og 17. öld hafi um 20.000 konur í Evrópu verið brenndar á báli, þá oft rauðhærðar og þær dæmdar fyrir að hafa verið í tygjum við satan og að vítislogar hafi litað hár þeirra. Hér á landi voru það aftur á móti 20 karlmenn og ein kona sem voru brennd á báli fyrir galdra. En myndir Nínu eru þó ekki af galdrakonum, heldur af rauðhærðum konum eins og listamennirnir túlkuðu þær hver á sínum tíma, allt frá forn-egyptum og fram á okkar dag.
Sýningin stendur yfir frá 1. júlí til 15.sept. 2006


Lifið í friði.

22.7.06

víkverji fer á kostum

Í Morgunblaðinu 1. júlí sl. fer Víkverji á kostum. Hann viðurkennir að hafa til þessa verið hlynntur þéttingu byggðar, en nú sé komið í mikið óefni, Reykjavík sé hvorki almennileg úthverfaborg sem tengd eru með góðum hraðbrautum, né borg með lifandi miðbæjarkjarna. Og Víkverji hefur því skipt um skoðun og er á því að leggja eigi niður almenningssamgöngur og byggja góðar hraðbrautir og nýta það eina sem fallegt er og gott við Reykjavík: Náttúruna. Byggja dreift og leyfa náttúrunni að njóta sín.
Ég bara spyr: Hvernig getur þetta tvennt samræmst? Hvar eiga góðu umferðartengingarnar að koma? Ofan við trjálundina eða undir þá? Hvernig eiga hríslurnar svo að lifa það af að virkilega ALLIR þurfi á einkabíl að halda til að komast í skóla og vinnu?
Gerir fólk sér virkilega ENGA grein fyrir því hversu mikil mengun felst í hverri bílferð? Og er virkilega svo mikil veruleikabrenglun á Íslandinu góða að hvorki yfirvaldið né hugsandi fólk nær að grípa þá einföldu staðreynd að miðað við stjórnmálaástandið í heiminum í dag mun láglaunafólk að öllum líkindum ekki hafa efni á að kaupa bensín á bílinn sinn eftir nokkur ár? Bensínið er nú þegar orðin dýr munaðarvara. Fólk ræður við bílalánin, tryggingar og annað slíkt enn í dag, með herkjum þó, en það er alls ekki víst að sú verði raunin áfram.
Hér í París er þróunin þannig að borgaryfirvöld reyna af kappi að efla almenningssamgöngur. Stöðugt er unnið að breytingum og lagfæringum sem miða að því að auka tíðni ferða, bæta lýsingu og aðstöðu í neðanjarðarlestarkerfinu sem er orðið farsímatengt, byrjað er að wifi-væða strætóleiðir o.fl. til að hvetja fólk til að leggja bílum sínum, sem talið er að allir græði á. Sparnaður fyrir fólk í bensínkostnaði og öðrum kostnaði sem fylgir bílferðum og sparnaður fyrir ríki og borg í mengunarbaráttunni.

En á Íslandi er alltaf svo gott að lifa. Það hafa það allir svo gott. Það er ekkert til sem heitir mengun í fallegasta landi heimsins.
Útrásin, virkjanirnar, uppfinningarnar og harkan bjarga okkur.

Við verðum auðvitað öll í stórum einbýlishúsum með leðursófa og nýlegan bíl fyrir hvern fjölskyldumeðlim eftir nokkur ár. Getum gengið afslöppuð út í garðinn okkar og tekið dýfu í hylnum þegar veður leyfir. Nakin í skjóli trjánna. Umferðarniðurinn í fjarska mun ekki trufla lækjarniðinn. Þeir eru samofnir og þannig á þetta að vera. Tengjumst náttúrunni og kaupum okkur bíl.

Lifið í friði.

21.7.06

eyða

Ég eyddi þremur tenglum út hjá mér rétt í þessu.
Tveir voru orðnir óvirkir og þriðji var Bryn sem nennir ekkert að blogga svo ég tók hana bara út. Ef hún byrjar aftur lætur hún mig vita.
Þetta var vitanlega sársaukafull aðgerð en mér leiðist hvað blogglistinn minn er orðinn langur. Og samt er ég stundum að kíkja á fleiri en þá sem ég er með þó ég gleymi að bæta þeim við.
EN, skyldi það hafa verið jafn auðvelt fyrir nýja borgarstjórann að stroka út eitt stykki strætóleið?

Lifið í friði.

blind

bóklaus þjóð

Guðni Elísson fer á kostum í Lesbók 1. júlí sl. Hvet alla til að lesa hann.
Ég smjatta við tilhugsunina um að ég á aðra grein eftir hann ólesna, um umhverfisvernd og pólitík. Guðni er einn af íslensku fræðimönnunum sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir. Ég veit að hann vinnur harkalega að því að vera það sem hann er og svo tekst honum alltaf að koma hlutunum svo vel frá sér á blað. Tveir rokna kostir sem því miður fara ekki alltaf saman hjá intellígensunum okkar.

Ég er að spá í að gerast fáfræðingur. Kristín Jónsdóttir, dr. í fáfræði.

Það er hiti.

Ég ætlaði að vera dugleg og hef verið dugleg við að lesa gamla Mogga.
Las um Orkuveituauglýsinguna og langar ekki til að sjá minn gamla góða vin fara á kostum í klisjunni.
Las frétt um dreng á hjóli sem ekið var á á gatnamótum og ekki var talið að um hraðakstur hefði verið að ræða heldur var umferðin þung og þar að auki var drengurinn hjálmlaus. Kannski er líklegra að ekið sé á hjólreiðamann ef hann er hjálmlaus. Og líklega er beint samband milli hjálmleysis og fótbrots. Þetta er fréttin sem hafði hvað mest áhrif á mig af öllu því sem ég drakk í mig í morgun yfir rúgbrauðsneið með appelsínumarmelaði. Fréttir af baugum og öðru slíku hafa nákvæmlega enga þýðingu fyrir mig. Ég las nokkrar um slíkt en er ekki fær um að endurtaka neitt upp úr þeim.

Best að skella sér í kalda sturtu. Hitinn á að lækka eftir þrjá daga, en þannig hefur spáin verið sl. fjóra daga. Múgsefjunarhelvítisveðurfréttastofufjandi.

Við hjónin enduðum á því að fara út að borða í gær. Hrottalega góður fiskur, smart diskar og fín hönnun á staðnum en maturinn allt of vel útilátinn. Ég þurfti að leifa bæði af for- og aðalrétti og hafði ekki pláss fyrir mitt daglega súkkulaði á eftir. Hneisa. Dásamlega gott Sancerre með. Ég er forréttindabelja en ég veit það og þá hlýtur það að vera í lagi.

Lifið í friði.

20.7.06

Það er ljóst að ég eyði ekki minni litlu aleigu í ferðalag til Danaveldis. Kommer ikke til måle.
Verð því bara dugleg heima hjá mér því eins og bent var á í athugasemdum er ýmislegt sem situr á hakanum í heimilishaldinu þegar börn eru yfir manni alla daga. Ég ætla að
- ljúka við að mála og bóna skrifborð nokkurt sem er hérna og fer svo niður í geymslu þar til það fer í sölu
- bóna aftur yfir eldhúsinnréttinguna og jafnvel hreinsa burt kítti kringum eldhúsvaskinn og milli eldhúsbekks og veggjar til að geta sett nýtt
Þetta er í raun feikinógu mikið í hitabylgju því auðvitað þarf maður að liggja aðeins í sófanum með bók líka þegar börnin eru í burtu. En samt:
- hver veit nema ég sletti málningu á annað skrifborð sem er í barnaherberginu og á að vera þar...
- svo þarf ég að halda áfram með heklið mitt, náði að gera amk 6 cm2 af slíku í fríinu
- langar að koma ferðasögunni á stafrænt form, hvert sem hún svo fer.
- langar að skrifa um Marie Antoinette, myndina og bókina og eitthvað fleira, hvert sem þau skrif svo færu.

Annars er það eina sem kemst að í huga mínum núna hvað við hjónin eigum að gera í kvöld. Til allrar guðs mildi byrjaði aðeins að rigna áðan. Gæti gengið á með hörkuskúrum í kvöld svo spurning hvort við eigum að vera að fara eitthvað út. Vorum að spá í útibíó í Villette-garðinum eða eitthvert gott út að borða. Það er sko bíómynd í sjónvarpinu í kvöld sem manninn minn langar að sýna mér. The Searchers með Nathalie Wood og John Wayne o.fl. Hann grét víst frá 2. mínútu og út alla myndina síðast þegar hann sá hana. Segir þetta eina bestu mynd allra tíma. Og hann er smekkmaður, enda giftur mér.

Minnst er í huga mínum myndin af tveimur litlum sólbrúnum englum sem kvöddu mig með bros á vör á Roissy flugvelli áðan. Þau hlökkuðu svo til að fara með ömmu og afa að þau nánast ýttu okkur foreldrunum í burtu. Eða nei. Myndin af þeim er líklega það eina sem kemst að í mínum huga núna.
Annars hafa margir verið að spyrja mig hvort ég kviði ekki brottför þeirra og fjarveru. Ég neyðist til að játa að ég kveið því engan veginn. Það er vitanlega tómlegt hérna þegar þau eru í burtu, en það er okkur öllum svo hollt og gott að taka frí hvert frá öðru, við erum jú í þeim forréttindahópi sem fær að eyða heilu dögunum saman mjög oft í viku, ekki bara á laugardögum og sunnudögum sem fara þá í verslunarferðir og þrif eins og lífið er hjá sumu fjölskyldufólki sem ég þekki.
Ég veit að börnin mín eru í góðum höndum á góðum stað. Sundlaug, sjór, alls konar leikir og skemmtanir út í eitt. Ég efast um að þau eigi eftir að sakna okkar mikið og er það vel. Ég á örugglega eftir að dauðsakna þeirra við og við og er það líka vel. Það er gottvont að elska og sakna og endurfundir eru náttúrulega bara ein hollasta athöfn sem hægt er að hugsa sér.

Lifið í friði.

19.7.06

hundar

Ég finn ekkert beint flug til Danmerkur undir 500 evrum. Gæti farið með tengiflugi gegnum Zurich fyrir 300 evrur. Er það ekki of mikið í helgarskrepp?

Lifið í friði.

heiðardalurinn

komin heim með slitna gullsandala

komin heim í hita og sól

komin heim til að hlusta á þvottavélina mala

komin heim í leit að vinnu

komin heim afslöppuð en samt uppgefin

Fríið var gott. Ef ykkur vantar upplýsingar um leynitjaldstæði og hvernig hægt er að ferðast ódýrt um Frakkland er ég með ýmislegt skemmtilegt handa ykkur. Spurning hvort ég eigi að rita upp ferðasögu og setja á www.parisardaman.com?

En nú er bara spurningin: Ef allir eru að flýja Ísland og rigningarnar, af hverju er þá enginn skráður í göngutúr með mér um helgina?

Og af hverju er þetta með rigningu og vatn eins og með peninga? Þar sem er nóg kemur meira. Þar sem er skortur kemur minna. Er lífið bara óréttlátt frá náttúrunnar hendi? Er þetta kannski sönnunin á því að guð er ekki til? Er ekki kominn tími til að Íslendingar finni leið til að safna góðu magni af rigningu og sendi á svæði sem eru að skrælna upp? Og ég er ekki að tala um að selja vatnið, við eigum vitanlega að gefa það. Ríkir eiga að gefa fátækum, það hlýtur að vera rétta jafnan.

Eftir stiklur um bloggheima sé ég að það er gaman að heyra frá ykkur aftur þó ég neyðist til að játa að ég saknaði ykkar nákvæmlega ekkert þar sem ég sat við fína álborðið mitt fyrir framan góða tjaldið mitt með rauðvín í plastbolla og nakta krakka í boltaleik í kringum mig og fallegan karl á móti mér. Ekki vitund.

Kannski ég skelli mér til Danmerkur um helgina. Nenni varla að hanga hér í París ef enginn þarf á mér að halda. Krakkarnir fara til Grikklands með ömmu og afa á morgun og karlinn verður að vinna á fullu. Á ég að fara?

Nú er ég búin að setja fram svo margar spurningar að það er ljóst að fátt verður um svör. Best að hætta og fara í kalda sturtu. 37,2 að morgni.

Lifið í friði.

3.7.06

farin bless

Lifið í friði.

2.7.06

hiti

Hitinn fór örugglega upp í 100 í gærkvöld. Það varð allt vitlaust. Zidane var víst æði og Thierry Henry, sá sem sýndi leikarahæfileika sína svo rækilega í síðasta leik, líka.
Næsti leikur er sem sagt Frakkland-Portúgal. Það hljómar næstum eins og borgarastyrjöld. Húsverðir gegn leigutökum. Það verður fjör í blokkunum og hverfunum.
Hræðilegt að sjá litla brasilíska drenginn sem grét svo sárt í fangi móður sinnar.
En svona er lífið, sumir sigra og hinir tapa þá bara. Búið. Bless.

Og ég er farin að henda niður einhverjum spjörum í tösku, mikill verkkvíði og því ekkert komið í tösku enn.
Svo ætlum við að flýja þessa heitu efstuhæðaríbúð og fara í skógarferð og halda upp á afmælið hans Ívars sem er 4 ára.
Liggja í lundi við læk í skugganum.

Lifið í friði.

1.7.06

hippi eða uppi?

Nútímabarnið sem ég er, fannst mér samt ekkert nema sjálfsagðara að reyna að koma mér upp viðlegubúnaði til að börnin mín fengju sömu æskuminningar og ég frá tjaldferðum við læk.
Fyrst keypti ég tjaldið um miðjan vetur á rokna útsölu, það lá þarna eitt og yfirgefið og búðin vildi losna við það til að koma fleiri skíðaskóm í hillurnar og ég greip það umhugsunarlaust með mér. Þegar ég tjaldaði því í fyrsta sinn, sem betur fer með vinkonu mína vana tjaldkerlingu, til aðstoðar, fékk ég vægt sjokk yfir stærðinni. Þetta er tvö svefnherbergi og stofa, ég get staðið upprétt svo til alls staðar inni í því (og maðurinn minn líka því ég veit að nú hugsa margir að dvergurinn Kristín sé ekki góð viðmiðun fyrir lofthæð í tjöldum). Þetta er fínt og flott tjald og þó ég kvíði dálítið að tjalda því á mánudaginn eftir langa pásu þá veit ég að það mun hafast og að við munum hafa það mjög gott. Ekkert hokur eða þrengsli þar.
Svo keypti ég prímus, en nota nú para pott og pönnu úr eldhúsinu, sleppti því að kaupa alúmíníum sett eins og ma og pa eiga.
Svo keypti ég borð og stóla úr alúmíníum og skammaðist mín smá því auðvitað er markmiðið að koma alúmíníum verksmiðjum heimsins fyrir kattarnef, er það ekki?
Svo eigum við plastborðbúnað í fallegum litum og kæliboxið gamla kemur nú að góðum notum, sem og gömlu svefnpokarnir frá ömmu mannsins míns, einn er rósóttur.

Í gær settist ég niður við að prenta út lýsingar á tjaldstæðunum sem við verðum á ásamt leiðarlýsingum og komst að því að það bjóða flestir upp á eldunaraðstöðu og borð og stóla. Nú er ég í vandræðum með að vita hvort nýja fína álborðið á að verða eftir, hvort við þurfum kannski ekki prímusinn, hvort... hvort ég var alltaf á leiðinni í litla vel falda laut í Borgarfirðinum...

Og nú þarf ég að rjúka. 29 stig í gönguferð um Montmartre. 29 stig í útréttingar á fyrsta laugardegi útsölunnar (í þetta sinn læt ég ekki gabba mig til að fara á bílnum í úthverfamollið, glöggir lesendur muna væntanlega eftir síðustu hremmingum mínum þar þegar ég var klukkutíma að komast út af bílastæðinu), 29 stig við að byrja að pakka niður fötum fyrir alla tegund veðra, 29 stig við að pakka inn gjöfum fyrir Ívar og 40 stig þegar blásið verður til leiks í kvöld. Áfram Frakkland!? Ha, hver sagði þetta?

Lifið í friði.