20.7.06

Það er ljóst að ég eyði ekki minni litlu aleigu í ferðalag til Danaveldis. Kommer ikke til måle.
Verð því bara dugleg heima hjá mér því eins og bent var á í athugasemdum er ýmislegt sem situr á hakanum í heimilishaldinu þegar börn eru yfir manni alla daga. Ég ætla að
- ljúka við að mála og bóna skrifborð nokkurt sem er hérna og fer svo niður í geymslu þar til það fer í sölu
- bóna aftur yfir eldhúsinnréttinguna og jafnvel hreinsa burt kítti kringum eldhúsvaskinn og milli eldhúsbekks og veggjar til að geta sett nýtt
Þetta er í raun feikinógu mikið í hitabylgju því auðvitað þarf maður að liggja aðeins í sófanum með bók líka þegar börnin eru í burtu. En samt:
- hver veit nema ég sletti málningu á annað skrifborð sem er í barnaherberginu og á að vera þar...
- svo þarf ég að halda áfram með heklið mitt, náði að gera amk 6 cm2 af slíku í fríinu
- langar að koma ferðasögunni á stafrænt form, hvert sem hún svo fer.
- langar að skrifa um Marie Antoinette, myndina og bókina og eitthvað fleira, hvert sem þau skrif svo færu.

Annars er það eina sem kemst að í huga mínum núna hvað við hjónin eigum að gera í kvöld. Til allrar guðs mildi byrjaði aðeins að rigna áðan. Gæti gengið á með hörkuskúrum í kvöld svo spurning hvort við eigum að vera að fara eitthvað út. Vorum að spá í útibíó í Villette-garðinum eða eitthvert gott út að borða. Það er sko bíómynd í sjónvarpinu í kvöld sem manninn minn langar að sýna mér. The Searchers með Nathalie Wood og John Wayne o.fl. Hann grét víst frá 2. mínútu og út alla myndina síðast þegar hann sá hana. Segir þetta eina bestu mynd allra tíma. Og hann er smekkmaður, enda giftur mér.

Minnst er í huga mínum myndin af tveimur litlum sólbrúnum englum sem kvöddu mig með bros á vör á Roissy flugvelli áðan. Þau hlökkuðu svo til að fara með ömmu og afa að þau nánast ýttu okkur foreldrunum í burtu. Eða nei. Myndin af þeim er líklega það eina sem kemst að í mínum huga núna.
Annars hafa margir verið að spyrja mig hvort ég kviði ekki brottför þeirra og fjarveru. Ég neyðist til að játa að ég kveið því engan veginn. Það er vitanlega tómlegt hérna þegar þau eru í burtu, en það er okkur öllum svo hollt og gott að taka frí hvert frá öðru, við erum jú í þeim forréttindahópi sem fær að eyða heilu dögunum saman mjög oft í viku, ekki bara á laugardögum og sunnudögum sem fara þá í verslunarferðir og þrif eins og lífið er hjá sumu fjölskyldufólki sem ég þekki.
Ég veit að börnin mín eru í góðum höndum á góðum stað. Sundlaug, sjór, alls konar leikir og skemmtanir út í eitt. Ég efast um að þau eigi eftir að sakna okkar mikið og er það vel. Ég á örugglega eftir að dauðsakna þeirra við og við og er það líka vel. Það er gottvont að elska og sakna og endurfundir eru náttúrulega bara ein hollasta athöfn sem hægt er að hugsa sér.

Lifið í friði.