21.7.06

blind

bóklaus þjóð

Guðni Elísson fer á kostum í Lesbók 1. júlí sl. Hvet alla til að lesa hann.
Ég smjatta við tilhugsunina um að ég á aðra grein eftir hann ólesna, um umhverfisvernd og pólitík. Guðni er einn af íslensku fræðimönnunum sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir. Ég veit að hann vinnur harkalega að því að vera það sem hann er og svo tekst honum alltaf að koma hlutunum svo vel frá sér á blað. Tveir rokna kostir sem því miður fara ekki alltaf saman hjá intellígensunum okkar.

Ég er að spá í að gerast fáfræðingur. Kristín Jónsdóttir, dr. í fáfræði.

Það er hiti.

Ég ætlaði að vera dugleg og hef verið dugleg við að lesa gamla Mogga.
Las um Orkuveituauglýsinguna og langar ekki til að sjá minn gamla góða vin fara á kostum í klisjunni.
Las frétt um dreng á hjóli sem ekið var á á gatnamótum og ekki var talið að um hraðakstur hefði verið að ræða heldur var umferðin þung og þar að auki var drengurinn hjálmlaus. Kannski er líklegra að ekið sé á hjólreiðamann ef hann er hjálmlaus. Og líklega er beint samband milli hjálmleysis og fótbrots. Þetta er fréttin sem hafði hvað mest áhrif á mig af öllu því sem ég drakk í mig í morgun yfir rúgbrauðsneið með appelsínumarmelaði. Fréttir af baugum og öðru slíku hafa nákvæmlega enga þýðingu fyrir mig. Ég las nokkrar um slíkt en er ekki fær um að endurtaka neitt upp úr þeim.

Best að skella sér í kalda sturtu. Hitinn á að lækka eftir þrjá daga, en þannig hefur spáin verið sl. fjóra daga. Múgsefjunarhelvítisveðurfréttastofufjandi.

Við hjónin enduðum á því að fara út að borða í gær. Hrottalega góður fiskur, smart diskar og fín hönnun á staðnum en maturinn allt of vel útilátinn. Ég þurfti að leifa bæði af for- og aðalrétti og hafði ekki pláss fyrir mitt daglega súkkulaði á eftir. Hneisa. Dásamlega gott Sancerre með. Ég er forréttindabelja en ég veit það og þá hlýtur það að vera í lagi.

Lifið í friði.