31.7.06

EKKI

láta ykkur dreyma um að ég sé hætt. Hins vegar er ég netlaus heima hjá mér og finnst það ástand helst minna á frústrasjónina sem felst í sultukrukku hverrar lokið ekki vill af. Ástand sem maður endar alltaf á að laga með mási og blási og mikilli þenslu handleggsvöðva. Nema bara að þessi ráð duga ekki nú. Né að horfa illu auga á boxið sem blikkar bara í staðinn fyrir að sýna mér tímann. Né að taka allt úr sambandi og stinga aftur í samband.
Tæknivandamál er kannski einmitt ekki hægt að líkja við nein önnur vandamál a.m.k. hjá svona konum eins og mér því við stöndum gersamlega vanmáttugar gagnvart þessu, við sem höfum átt börn úti á ökrum í miðjum heyskap, við sem sáum um börn og rákum öflugan heimilisiðnað meðan kallinn var á sjó, við sem... og nú kemur mér engin klisja í hug og læt því staðar numið.

Fyrir tveimur dögum spurði ég mann hvernig honum dytti í hug að vera með vandamál einmitt á þessum tíma ársins þegar allir eru í fríi. Og nú stend ég frammi fyrir þeirri aumu staðreynd að ég mun þurfa að hringja í netfyrirtækið og það verður hálftíma bið og svo verður ekkert hægt að gera fyrr en 20. ágúst. OH, ég er svo pirruð. Ef netið væri nú bara tólið til að hlusta á fallega útvarpsþætti og lesa undarleg blogg væri kannski hægt að þola þetta. En blessað netið er mitt helsta atvinnutæki. Nú verð ég örugglega að verða aftur fastagestur hjá afar illa lyktandi kallinum hérna niðri á horni. Djöfull er ég pirruð.

Lifið í friði.