25.7.06

Rómverskur riddari á Akranesi

Í gær lenti ég í smá tölvuskeytasamskiptum við nafna minn Kristinn Pétursson sem hannaði og stýrir Rómarvefnum.
Ég rakst á greinarstúf um hann í Mogganum fyrir þó nokkru og reif það út og kíkti loksins til hans í gær. Þetta er frábær vefur, fullur af fróðleik og ég ákvað að senda honum línu og óska honum til hamingju.
Í ljós kom að við vorum samferða í menntaskóla í 2 ár, ég man eftir honum en hann ekki eftir mér en það er alls ekki undarlegt, hann var töluvert meira áberandi en ég með litað hár í "öðruvísi" fötum. Ég mundi reyndar líka eftir honum frá því að við höfðum hnakkrifist út af leiksviði í Laugardagshöll í sambandi við einhverja sýningu á vegum Tómstundaráðs, ef ég man rétt og kannski einmitt gerði ég í því að láta hann ekki taka eftir mér vegna þess.
Það kom líka í ljós að hann þekkir Eyju (sjá tenglalista) og svo hefur hann jafnvel áhuga á að setja upp einhvers konar Suðurlandavef, svo hver veit nema við förum einn góðan veðurdag í einhvers konar samstarf.
Það sem mér finnst sniðugt á Rómarvefnum er að þar er að finna fullt af greinum eftir aðra en höfundinn sjálfan. Lýsi ég hér með eftir efni frá öllum þeim er telja sig vita eitthvað sniðugt og skemmtilegt um París eða Frakkland og vilja deila því með öðrum í gegnum vefinn minn.
Ég er hins vegar alls ekki á leiðinni að setja auglýsingar eða annað slíkt á síðuna. Það er ekki í samræmi við stefnu mína, a.m.k. ekki í dag. Ég neita því ekki að hafa leitt hugann að því, en eins og málin standa í dag er ég algerlega frjáls og óháð og mér finnst það óþægileg tilhugsun að ég þyrfti að taka tillit til einhverra annarra með það hvað birtist á vefnum mínum.

Ég spurði Kristinn vitanlega hvort hann tæki fólk í gönguferðir um Róm því minn draumur hefur lengi verið að koma þangað og ég myndi sko alveg vilja fara í göngutúr með innvígðum, veit það eftir mitt rölt hér í öll þessi ár að þetta er frábær leið til að kynnast borgum og fá smá innanbúðarupplýsingar sem annars kæmu hvergi fram. Kristinn býr þá ekki lengur í Róm, heldur, eins og hann orðaði það sjálfur: "á Akranesi, með útsýni til Reykjavíkur".

Vitið þið um fleiri svona vefi? Veit t.d. einhver hvort hann Guðlaugur Arason í Köben er með síðu? Fann slíka einhvern tímann í "gamla daga" en var að leita að honum um daginn og kom að tómum kofanum. Mig hefur lengi langað í göngu með honum um þá frómu borg sem ég þekki reyndar skítsæmilega. Hef heyrt að hann sé skemmtilegur og fróður. Hefur einhver lesið bækurnar hans um Kaupmannahöfn? Ég á alltaf eftir að kaupa þær og hver veit nema ég hermi og komi með bókina: París, ekki bara Eiffelturninn? Tja, hver veit? Ekki ég.

Lifið í friði.