1.7.06

hippi eða uppi?

Nútímabarnið sem ég er, fannst mér samt ekkert nema sjálfsagðara að reyna að koma mér upp viðlegubúnaði til að börnin mín fengju sömu æskuminningar og ég frá tjaldferðum við læk.
Fyrst keypti ég tjaldið um miðjan vetur á rokna útsölu, það lá þarna eitt og yfirgefið og búðin vildi losna við það til að koma fleiri skíðaskóm í hillurnar og ég greip það umhugsunarlaust með mér. Þegar ég tjaldaði því í fyrsta sinn, sem betur fer með vinkonu mína vana tjaldkerlingu, til aðstoðar, fékk ég vægt sjokk yfir stærðinni. Þetta er tvö svefnherbergi og stofa, ég get staðið upprétt svo til alls staðar inni í því (og maðurinn minn líka því ég veit að nú hugsa margir að dvergurinn Kristín sé ekki góð viðmiðun fyrir lofthæð í tjöldum). Þetta er fínt og flott tjald og þó ég kvíði dálítið að tjalda því á mánudaginn eftir langa pásu þá veit ég að það mun hafast og að við munum hafa það mjög gott. Ekkert hokur eða þrengsli þar.
Svo keypti ég prímus, en nota nú para pott og pönnu úr eldhúsinu, sleppti því að kaupa alúmíníum sett eins og ma og pa eiga.
Svo keypti ég borð og stóla úr alúmíníum og skammaðist mín smá því auðvitað er markmiðið að koma alúmíníum verksmiðjum heimsins fyrir kattarnef, er það ekki?
Svo eigum við plastborðbúnað í fallegum litum og kæliboxið gamla kemur nú að góðum notum, sem og gömlu svefnpokarnir frá ömmu mannsins míns, einn er rósóttur.

Í gær settist ég niður við að prenta út lýsingar á tjaldstæðunum sem við verðum á ásamt leiðarlýsingum og komst að því að það bjóða flestir upp á eldunaraðstöðu og borð og stóla. Nú er ég í vandræðum með að vita hvort nýja fína álborðið á að verða eftir, hvort við þurfum kannski ekki prímusinn, hvort... hvort ég var alltaf á leiðinni í litla vel falda laut í Borgarfirðinum...

Og nú þarf ég að rjúka. 29 stig í gönguferð um Montmartre. 29 stig í útréttingar á fyrsta laugardegi útsölunnar (í þetta sinn læt ég ekki gabba mig til að fara á bílnum í úthverfamollið, glöggir lesendur muna væntanlega eftir síðustu hremmingum mínum þar þegar ég var klukkutíma að komast út af bílastæðinu), 29 stig við að byrja að pakka niður fötum fyrir alla tegund veðra, 29 stig við að pakka inn gjöfum fyrir Ívar og 40 stig þegar blásið verður til leiks í kvöld. Áfram Frakkland!? Ha, hver sagði þetta?

Lifið í friði.