víkverji fer á kostum
Í Morgunblaðinu 1. júlí sl. fer Víkverji á kostum. Hann viðurkennir að hafa til þessa verið hlynntur þéttingu byggðar, en nú sé komið í mikið óefni, Reykjavík sé hvorki almennileg úthverfaborg sem tengd eru með góðum hraðbrautum, né borg með lifandi miðbæjarkjarna. Og Víkverji hefur því skipt um skoðun og er á því að leggja eigi niður almenningssamgöngur og byggja góðar hraðbrautir og nýta það eina sem fallegt er og gott við Reykjavík: Náttúruna. Byggja dreift og leyfa náttúrunni að njóta sín.Ég bara spyr: Hvernig getur þetta tvennt samræmst? Hvar eiga góðu umferðartengingarnar að koma? Ofan við trjálundina eða undir þá? Hvernig eiga hríslurnar svo að lifa það af að virkilega ALLIR þurfi á einkabíl að halda til að komast í skóla og vinnu?
Gerir fólk sér virkilega ENGA grein fyrir því hversu mikil mengun felst í hverri bílferð? Og er virkilega svo mikil veruleikabrenglun á Íslandinu góða að hvorki yfirvaldið né hugsandi fólk nær að grípa þá einföldu staðreynd að miðað við stjórnmálaástandið í heiminum í dag mun láglaunafólk að öllum líkindum ekki hafa efni á að kaupa bensín á bílinn sinn eftir nokkur ár? Bensínið er nú þegar orðin dýr munaðarvara. Fólk ræður við bílalánin, tryggingar og annað slíkt enn í dag, með herkjum þó, en það er alls ekki víst að sú verði raunin áfram.
Hér í París er þróunin þannig að borgaryfirvöld reyna af kappi að efla almenningssamgöngur. Stöðugt er unnið að breytingum og lagfæringum sem miða að því að auka tíðni ferða, bæta lýsingu og aðstöðu í neðanjarðarlestarkerfinu sem er orðið farsímatengt, byrjað er að wifi-væða strætóleiðir o.fl. til að hvetja fólk til að leggja bílum sínum, sem talið er að allir græði á. Sparnaður fyrir fólk í bensínkostnaði og öðrum kostnaði sem fylgir bílferðum og sparnaður fyrir ríki og borg í mengunarbaráttunni.
En á Íslandi er alltaf svo gott að lifa. Það hafa það allir svo gott. Það er ekkert til sem heitir mengun í fallegasta landi heimsins.
Útrásin, virkjanirnar, uppfinningarnar og harkan bjarga okkur.
Við verðum auðvitað öll í stórum einbýlishúsum með leðursófa og nýlegan bíl fyrir hvern fjölskyldumeðlim eftir nokkur ár. Getum gengið afslöppuð út í garðinn okkar og tekið dýfu í hylnum þegar veður leyfir. Nakin í skjóli trjánna. Umferðarniðurinn í fjarska mun ekki trufla lækjarniðinn. Þeir eru samofnir og þannig á þetta að vera. Tengjumst náttúrunni og kaupum okkur bíl.
Lifið í friði.
<< Home