24.7.06

Rígmontin


Rígmontin
Originally uploaded by parisardaman.

Ég var farin að halda að enginn ætlaði að spyrja mig um bílinn á myndinni hér að neðan. Málið er að ég tók aldrei mynd af mínum bíl í þessum skurði (að fara í hina áttina, þá sem liggur að bænum sem sést í bakgrunni).
Hins vegar tókst skógarálfinum Noël, bróður bóndans, að aka út í sama skurð kvöldið eftir þegar hann var að reyna að forðast að lýsa upp tjaldið okkar með bílljósunum, greyið. Myndina tók ég gagngert til að setja á bloggið mitt með sögunni af mínum óförum. Segið svo að maður muni ekki eftir ykkur í fríinu!
Noël eigandi gamla fallega bílsins er með sítt ljóst hár og svartan hatt, ríður Arthur, hestinum sínum berbakt, er veðurbarinn og hraustlegur í útliti. Hann er nákvæmlega eins og Jónatan Ljónshjarta lítur út í mínum huga.
Noël er listmálari og býr í tjaldi í skóginum allt sumarið þar sem hann málar og verður með myndlistasýningu á næturnar í ágúst.
Hann var ótrúlega næmur og góður við börnin, Sólrún varð líklega mjög alvarlega ástfangin af honum en maðurinn minn hafði nú samt meiri áhyggjur af mér. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar en ég fann mikið til með dóttur minni þegar hún kvaddi hann með tárum.
Myndin með þessum pistli er hins vegar af þeim systkinum á asnabaki. Það er brillíant leið til að komast í sæmilega gönguferð með svona lítil börn. Þau ganga yfirleitt ekki lengi án þess að byrja að kvarta en á ösnunum sátu þau hnarreist og glöð í klukkustund og fengum við skemmtilegan túr um sveitir og skóga með konu sem var fróð um fleira en asnarækt.

Lifið í friði.