úpps
úpps
Originally uploaded by parisardaman.
Fyrsta nóttin okkar í tjaldi var sannarlega eftirminnileg. Arnaud fór að horfa á leik í sjónvarpi með bróður bóndans sem ég á eflaust eftir að segja ykkur betur frá.
Við börnin sátum fyrir utan tjaldið og dáðumst að himninum hvar miklir skýjabólstrar hrönnuðust upp og nutum brjálæðislegrar eldglæringasýningar og hrukkum stundum í kút við þrumurnar sem fylgdu. Brátt fór þó að fara um móðurina, hún safnaði saman húsgögnum og dóti inn í tjaldið og þegar fyrstu rigningardroparnir skullu á því dró hún börnin inn. Pabbinn kom líka, enda fann hann að óveður var í uppsiglingu. Ég ætla ekki að reyna að lýsa áhrifunum af eldingunum og þrumunum, harkan í rigningunni var slík að Sólrúnu varð á orði að einhver væri að lemja tjaldið. Við vorum vitanlega undir hæsta trénu á svæðinu og olli það mér miklum áhyggjum, sá það fyrir mér að við yrðum eldingu að bráð um nóttina.
Þegar svefnherbergið öðrum megin lagðist saman og fór að rigna inn í stofuna, færðum við okkur öll inn í hitt svefnherbergið og foreldrarnir spáðu í það hvort við værum örugg eða hvort við ættum að flýja eitthvert.
Þá heyrðist bílhljóð og var það bóndinn kominn að sækja okkur og fengum við inni á bænum sem var orðinn rafmagnslaus.
Við foreldrarnir komum börnunum inn og róuðum þau niður og fórum svo til að bjarga dótinu inn í bíl til öryggis. Bóndinn ók okkur aftur til baka og fór sjálfur að bjarga bróðurnum fyrrnefndum sem var í tjaldi einhvers staðar úti í skógi.
Þegar ég ætlaði svo að aka bílnum upp að bænum, villtist ég af leið í lélegu skyggninu og hafnaði úti í skurði.
Við komumst í hús við illan leik en fötin voru ennþá rennblaut þegar ég fór í þau morguninn eftir. Tjaldið stóðst þessa eldskírn, ástæðan fyrir rigningu í stofunni var einfaldlega rokið sem svipti þakskyggninu upp og svefnherbergið lagðist saman vegna þess að tvær lykkjur slitnuðu af tjaldhælunum. Annað var í fína lagi eftir læti næturinnar. Bærinn og reyndar sveitin öll var rafmagnslaus í tvo sólarhringa og mikið af trjám féllu um nóttina, sem var einmitt það sem þau voru hræddust um fyrir okkur og ástæða þess að við vorum sótt.
Tvo daga á eftir rigndi stundum en hitinn hélst hár svo það var nú allt í fína lagi.
Lifið í friði.
<< Home