24.7.06

Rauðkusýning

Ég var alveg búin að gleyma því að ég gleymdi að setja þetta inn áður en ég fór í frí. En það er aldrei of seint að segja frá góðum hlutum og sýningin stendur til 15. september. Allir í Galdrasafnið!

NÍNA GAUTADÓTTIR sýnir í Galdrasafninu á Hólmavík.

Sýning Nínu samanstendur af safni mynda sem hún hefur haldið til haga frá árinu 1988. Myndirnar hafa það sameiginlegt að birta myndir af rauðhærðum konum í myndlist.
Sagan segir að á 16. og 17. öld hafi um 20.000 konur í Evrópu verið brenndar á báli, þá oft rauðhærðar og þær dæmdar fyrir að hafa verið í tygjum við satan og að vítislogar hafi litað hár þeirra. Hér á landi voru það aftur á móti 20 karlmenn og ein kona sem voru brennd á báli fyrir galdra. En myndir Nínu eru þó ekki af galdrakonum, heldur af rauðhærðum konum eins og listamennirnir túlkuðu þær hver á sínum tíma, allt frá forn-egyptum og fram á okkar dag.
Sýningin stendur yfir frá 1. júlí til 15.sept. 2006


Lifið í friði.