30.6.04

Það er ýmislegt í íslensku þjóðarsálinni sem fer í taugarnar á mér, eins og eðlilegt er. Eitt truflar mig sérstaklega mikið og það er hræðsla Íslendinga við ketti sem fara sínar eigin leiðir. Ákveðnir einstaklingar í þjóðfélaginu hafa fengið einhvers konar óobinbert "leyfi" til að vera sérviskupúkar. Í þeim hópi eru líklega listamenn algengastir og svo eru þarna nokkrir áberandi menn úr viðskiptalífinu. En langflestir furðufuglar eru bara stimplaðir sem vonlaust lið af þjóðinni, og stundum virðist það vera bara hreinlega þjóðin í heild. Ég gæti nefnt dæmi, en vil ekki gera það vegna þess að þeir sem mér dettur í hug hafa verið lagðir í hrikalegt einelti og fjölmiðlar tekið þátt í því (hér á ég ekki við Árna Johnsen, hans ófarir eru annars eðlis og ekki til umræðu hér) og sumir hafa lent í því að þurfa að flýja land um lengri eða skemmri tíma. Ég vil ekki ýfa upp gömul sár þessa fólks sem þjóðin ákvað að væri "skrýtið" og virtist því telja sig hafa eins konar skotleyfi á það.
Ég held að Ástþór Magnússon gæti komist í þennan flokk sem þjóðin neitar alfarið að skilja og afgreiðir sem hálfvita eða trúð, án þess að hafa nokkurn tímann spáð alvarlega í það hvað maðurinn er í raun að fara. Mér er alveg sama þó hann sé með undarlegt augnaráð. Mér er alveg sama þó honum virðist sama um kvótamálið og grænmetisinnflutning. Ástþór er í raun holdgervingur málfrelsisins og réttar okkar allra til að bjóða okkur fram til forseta. Hann hefur málstað sem hann berst fyrir af fullum krafti og lætur ekki deigann síga þrátt fyrir endalausar árásir eða, það sem verra er fyrir forsetaframbjóðanda, algera þögn fjölmiðla um það sem hann hefur að segja.
Íslendingum finnst það, held ég, óhugsandi að einhver sé í pólitík (já, mér finnst forsetaframboð vera hápólitískt þó að forseti geti verið utan flokka) fyrir einhvern málstað. Yfirleitt eru þetta nefninlega litlir pabbadrengir að feta í fótspor, næstum því að ERFA völd pabba og afa, hvort sem þeir koma frá hægri vinstri hliðar eða snú. Ástþór truflar því hann er bara venjulegur kall með smá ýstru og gæti unnið hjá VÍS og haft það ágætt og farið á leiki á kvöldin og í bústaðinn um helgar, en í staðinn fyrir svona þægilegt líf hefur hann valið að berjast við vindmyllur. Friður? Það er ekkert til sem heitir friður. Stríð er náttúrulegt fyrirbæri og óhjákvæmilegt. Hvað hefur maður ekki þurft að hlusta á mikið af klisjum lítilla peða um stríð og frið. Svona klisjum sem hjálpa okkur við að sætta okkur við hryllinginn sem við vitum af en getum ekki stöðvað, og hjálpar stóru ráðamönnunum að hafa stjórn á litlu peðunum, halda þeim í skefjum.
Ég hef ekki hugmynd um það hvort Ástþór í forsetastól á Íslandi myndi auka líkurnar á friði í heiminum. Ég kaus hann ekki og hef aldrei gert. En ég þoli ekki hvernig allir stimpla mannin og afgreiða hann sem vitlausan. Kannski er hann okkar mesti listamaður. John Lennon Íslands.
Kannski yrði Ísland betra land ef við færum að viðurkenna að fjölskrúðugt mannlíf getur ekki þrifist fyrr en við sýnum opinn huga gagnvart mismunandi skoðunum og lífsstíl. Sættum okkur við að við erum ekki öll að leita að fullkomna sófasettinu eða mest spennandi heimsreisunni eða frumlegasta nafninu á næsta barn. Sum okkar hafa bara aðrar þarfir og langanir og það að umgangast ólíkar persónur og virða annarra viðhorf er það sem gerir lífið svo skemmtilegt.
Og að voga sér að skammast yfir því að forsetakosningar séu dýrar, og slá því fram að Ástþór ætti því ekki að bjóða sig fram, er náttúrulega bara afneitun á frelsi okkar allra til að koma skoðunum okkar á framfæri og berjast fyrir þeim.
FRIÐUR SÉ MEÐ YÐUR!

29.6.04

Margur verður af aurum api.
Ég held að við getum öll verið sammála um að peningar ræna fólk vitinu. Samt erum við öll neydd til að eyða stórum hluta af okkar stutta tíma hér á jörðu í það að afla þeirra. Einhverra hluta vegna er ekki hægt að vera til og halda lágmarkssjálfsvirðingu án þessa ljóta illa afls sem peningarnir eru. Það er endalaust klifað á því að fólk hafi myrt í krafti trúarinnar á guð í gegnum aldirnar. En trúin á peningana? Er hún ekki enn verri, enn svartari og er hún ekki einmitt aflið sem fólkið var í raun að myrða fyrir þó það tilheyrði einhverjum trúarhópi, og kæmi fram í nafni hans? Var þetta ekki spurning um jarðir og völd?
Þetta er afar flókið og hefur mikið verið ritað og rætt um þetta svo ég er ekki að fara með neinar nýjar kenningar hérna. Hvað skyldi t.d. knýja Bush áfram í þessu viðbjóðslega hernámi Íraks? Eru það peningar og völd eða einfaldlega þetta fáránlega hatur sem margir hafa á aröbum almennt? Ég hef nefninlega oft haldið því fram að Bush sé aðallega að nota tækifærið og fækka þessum "lýð" sem hvorki hann né pabbi hans geta þolað. En svo var heimildarmynd í sjónvarpinu hérna um tengsl þeirra Bushara við Sádi Arabíu og Laden fjölskylduna. Vissuð þið að 11. september 2001 var pabbi Bush á fundi með bróður Bens hér í París? Merkilegt og vert að spá í. Ég missti því miður af þessari mynd og hef því bara heyrt eitt og annað úr henni. Bush er ekki allur þar sem hann er séður. Það er á hreinu.
Hlutirnir virðast eitt og annað og oft ægilega einfalt að segjast vera með og á móti en svo þegar farið er að snúa hnullungum kemur ýmislegt í ljós sem flækir málin.
Ég segi oft við túristana mína að allt sem ég segi þeim um sögu Parísar og Frakklands sé valið úr ýmsum útgáfum og við höfum það sem skemmtilegra reynist. Enda ómögulegt að negla niður einhvern einn fínan og þægilegan og hreinan og hvítan sannleika. Jafn fáránlegt að eyða lífi sínu í leit að honum eins og að safna peningum.
Bisous.

27.6.04

Ég er komin á hjól og með sæti aftan á fyrir dóttur mína sem tekur sig vel út með hjálminn og syngur hástöfum þegar við þeysum um götur Parísar... nei, þetta var nú skrifað til að hrekkja ömmuna og afann, við förum afskaplega rólega og höfum ekki hætt okkur inn í sjálfa Parísarumferðina, bara hérna um Romainville og niður með síkinu á hjólastígnum.
Það er frábært að hjóla. Ég er reyndar lurkum lamin eftir túrinn í dag, en það var heitt og sólríkt loksins eftir nokkra undarlega daga þar sem maður hefur verið að klæða sig í og úr til skiptis á fimm mínútna fresti. Sem minnir á Íslandið góða. Svoleiðis á bara ekki að vera í París í lok júní. LOK JÚNÍ!? Trúið þið því að júní er að verða búinn? Enn ein mánaðarmótin að skella á. Síðast mánuður dóttur minnar í leikskólanum. Hver vill koma og vera au pair hjá okkur í ágúst?

Tíminn líður áfram og teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég neinu ráðið um það hvert hann fer... Megas snillingur...
Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs... Steinn yfirsnillingur...
So many men, so little time... ókunn snilla...

Það er verið að setja fram lagafrumvarp gegn homma- og lesbíuhræðslu og inn í þetta frumvarp fléttast lög gegn almennum sexisma (oh, nú verð ég að kíkja í orðabókina því ég vil alls ekki að þetta blogg sé eingöngu læsilegt fyrir frönskumælandi) gegn almennu kynjamisrétti. Þar átti m.a. að banna að tala um HÚSMÆÐUR, það þótti þingmönnunum sem voru að setja fram fyrstu drögin vera afar niðrandi orðalag (fr. mère au foyer sem þýðir beint móðir sem er heima). Hugsið ykkur. Í staðinn fyrir að við getum verið stoltar af þessu erfiða starfi, þurfum við ekki bara að þola það að þetta sé erfitt og ólaunað starf, heldur líka að það sé hreinlega niðrandi að vera í þessari stöðu. Ég næ varla upp í nefið á mér af pirringi yfir þessari vitleysu. Sem betur fer er fólk eins og tengdapabbi að fara yfir bullið áður en það er sett fram á þingi. Ef lögin hefðu gengið í gegn óbreytt hefði greinin sem ég las um bókina (sjá tvö síðustu blogg) verið orðin lögbrot af því að í fyrirsögninni og oft í greininni var talað um húsmæður. Kannski bara að bókin hefði getað verið gerð upptæk líka. Það er ekkert grín að vera þingmaður og reyna að koma lögum á í þessu skrýtna þjóðfélagi sem reynir að gera öllum jafnhátt undir höfði a.m.k. svona í orði, og reynir að setja lög til að sporna gegn níði og ofbeldi gegn minni máttar. En fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Ég er búin að ákveða að nú verður þingmaður níðorð hjá mér. "Helvítis þingmaðurinn þinn!" ætla ég að öskra á eftir næsta manni sem svínar fyrir mig í umferðinni. "Þessi þingmaður vildi ekki einu sinni hleypa mér inn" segi ég um dyravörðinn á fína diskótekinu sem ég reyni að komast inn á um hverja helgi.
Ég hvet ykkur öll til að taka þátt í þessu með mér og athuga hversu fljótt þetta verður málvenja. Munið þið ekki eftir því að arabi var mikið skammaryrði í denn, a.m.k. í Breiðholtinu. "Helvítis arabinn þinn!" Ég átti reyndar í miklum vandræðum með arabann því svo var svo óskaplega flott að geta farið arabastökk og það æft stíft á grasflötunum við blokkina. Því skildi ég aldrei almennilega að þetta væri skammaryrði.

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust blómið
á gulum skóm.

Einu sinni var ég með plön um að stofna menningarklúbb og átti inngönguskilyrðið að vera að læra Tímann og vatnið utanað. Það varð ekkert af því þar sem verðandi stofnandi nennti aldrei að láta verða almennilega af því. En mikið óskaplega er nú gaman að lesa þetta ljóð og mikið óskaplega ofboðslega væri nú gaman að geta farið með það allt á góðum stundum. Betra en að kunna House of the rising sun og Piano Man utanað eins og staðan er hjá mér í dag. Vert umhugsunarefni.
Áfram... ó nei, afsakið, öll liðin mín dottin út, einmitt verið að mala Dani í þessum orðum möluðum. Ekki það að ég horfi, neyðist bara til að hlusta á eftirlýsingar mannsins míns á hverjum leik og er því vel viðræðuhæf um það hvernig þessir og hinir stóðu sig og með hversu mikilli reisn eða hneisu hver datt úr keppni.
Og farið nú í háttinn þingmennirnir ykkar!

26.6.04

Ég fékk þetta svar í tölvupósti frá vinkonu og leyfi mér að birta þetta hérna. Ég vona að hún sé sátt við það, annars kippi ég því út strax og hún lætur mig vita! Henni þótti þetta of langt sem komment, en mér finnst það of gott og hvet ykkur til að skrifa komment og það eru engar lengdartakmarkanir.

Sæl LP!

Tek heilshugar undir pistilinn - hef predikað svipað lengi, fyrst á stofu yfir buguðum mæðrum sem voru "bara" heima og höfðu það svo gott að "allra" mati!.
Ekki batnaði það á næsta vinnustað, er kynntist aðstæðum og líkams-andlegu heilsufari einstæðra mæðra. Einstæðum mæðrum/foreldrum -með 2.2 (tvö komma tvö!) börn að meðaltali í umsjón sinni er ætlað, a m k á Íslandi, að sjá um alla umönnun barnanna - eins og þú lýsir henni - OG vinna samtímis fyrir svotil allri framfærslu heimilisins. Bætum við að þær þurfa helst að kunna margt, halda því við og "koma sér áfram" í vinnunni, annars verður nú kaupið ekki beysið og þær kynsystrum til skammar í þokkabót!
Svo er ein klisjan sú "að þær hafi komið sér í þetta sjálfar" - hefðu átt að hugsa sig um áður en gerðust einstæðar mæður!
Mikill minnihluti einstæðra foreldra hefur komið sér upp börnum aleinn - uppá sport. Oftast er skilnaður í spilinu og hitt foreldrið ósjaldan búið að endurnýja. Hryllingssögur um fjárhag og tilfinninga- og likamsheilsu á einsforeldris heimilum hrúgast upp hjá kerfinu - og vanmáttugir ráðgjafar mega rétta fáeina tugi þúsunda að 2-6 manna fjölskyldu á mánuði, sé Fyrirvinnan sannanlega veik og geti því ekki druslað sér ÚT að VINNA, t d frá 6 mánaða + 2 ára barni og oft 1-2 "stykkjum" í viðbót! Svo ímynda kerfisstjórnendur/löggjafinn að þetta sé hagkvæmt og skili framtíðinni heilum, hraustum þegnum. Ekki má gleyma að fjöldi stjórnmála- og valda-Karla endurnýjar og kemur af sér Fyrstu konu og börnunum 2.2. Eru þeir trúlega yfir meðaltali gifra jafnaldra. Ekkert mál! Lifi frelsið að ógleymdu jafnréttinu! - Á hinu háa Alþingi sjást, m a, dæmin um slíkt, sérlega eftir að konum var hleypt þar inn að e-u ráði ;)

25.6.04

HÚSMÓÐIR UM HÚSMÆÐUR
Ég var að lesa grein um bók sem var að koma út í Frakklandi sem sálfræðingur skrifaði um rannsóknir sínar á stressi húsmæðra. Þar kemur fram að streita hefur verið mæld í flestum störfum og að mörg störf eru viðurkennd sem sérlega erfið störf streitulega séð. Þessi sálfræðingur bendir á að samkvæmt hennar rannsóknum er húsmæðrastarfið jafn erfitt andlega og hjúkrunarkonustarfið og það að vera yfirmaður á skrifstofu. Hún segir jafnframt að í þessum geirum hafi verið lögð áhersla á viðurkenningu og umbun sem ráð gegn streitu, en að enginn veiti húsmæðrum svona hvatningu heldur séu þær frekar illa séðar af þjóðfélaginu, þykja afar óspennandi í boðum og margir líti svo á að þær geri bara ekki neitt, hangi bara yfir lélegu sjónvarpsefni alla daga.
[Bryn vinkona minnti mig einmitt um daginn á enska rannsókn sem leiddi í ljós að húsmæðrastarfið jafngilti að mig minnir 3 heilsdagsstörfum á ári, þ.e. að ef maður gerði ekkert sjálfur heima heldur fengi fólk í það, þyrfti að hafa 3 manneskjur í fullri vinnu.]
Í greininni voru vitnisburðir nokkurra kvenna, og sú sem er ánægð með líf sitt sem húsmóðir og móðir 3ja barna, segir að þrennt komi henni til hjálpar við að vera sátt við stöðu sína: mjög góður eiginmaður, brjálæðislega mikil skipulagning í heimilishaldinu þar sem börnin eru virkjuð til að hjálpa til og svo síðast en ekki síst að henni er skítsama um það hvað öðrum finnst um hana. Hún lætur t.d. börnin borða í skólanum tvo daga í viku þó margir hneykslist á því við hana.
Mér þykir þetta mjög áhugavert og vil minna á að öll störf sem fela í sér umönnun og uppeldi barna eru illa launuð og oft litið niður á þessar stéttir þjóðfélagsins. Samt erum við öll nokkuð meðvituð um þá staðreynd að þarna eru jú komandi kynslóðir og að það skipti máli að fara rétt að öllu til að byggja upp góða einstaklinga fyrir framtíðina, er það ekki?
Sálfræðingurinn kom með mjög gott dæmi til að fá útivinnandi fólk til að skilja hversu flókið húsmæðrahlutverkið getur orðið: Segjum að þú þurfir að gera stutta skýrslu fyrir fund eftir hádegi og ætlir að nýta morguninn í það. Tveir samstarfsfélagar þínir koma með vandamál til þín sem þeir þurfa aðstoð við að leysa og yfirmaðurinn kallar þig inn á skrifstofu til að bera undir þig nýja hugmynd sem þú átt að melta með þér. Á endanum gerir þú skýrsluna hroðvirknislega og mætir pirraður og óundirbúinn á fundinn með streitukúlu í maganum. Svona aðstæður eru daglegt brauð mæðra margra barna. Ein húsmóðir sagði henni sögu um það að hún ætlaði að fara að versla með tvö börn sín. Hún var rétt búin að koma þeim fyrir í bílnum þegar síminn hringdi. Þegar hún kom út á plan aftur var litli búinn að kúka og sá eldri grenjandi. Hún skipti á litla gaur og gaf þeim eldri djús að drekka. Þegar hún fór að setja þá aftur inn í bíl komst hún að því að klukkan var orðin of margt, hún myndi aldrei ná þessu fyrir kvöldmatartímann sem er heilagur fyrir börnin eins og allir foreldrar vita. Hún tók því alla inn aftur og settist niður við eldhúsborðið og grét. Þegar hún reyndi að segja manninum sínum frá þessu um kvöldið sýndi hann málinu engan skilning.
Málið er að konur í dag eru oft félagslega einangraðar þegar þær eru heima með börnin. Fjölskyldan býr oft of langt í burtu til að hægt sé að hittast reglulega, vinkonurnar eru allar úti að vinna og ekki býr maður til vinkonur úr þessum konum sem maður hittir úti í almenningsgarði, maður á yfirleitt ekkert sameiginlegt með þeim eða nær a.m.k. aldrei að komast að því þar sem það kurteislega hjal sem þar fer fram snýst aðallega um aldur barnanna og hvernig þau sofa og borða og hvort þau eru dugleg eða sein til í þroska. Ég hef a.m.k. aldrei prófað að ræða bókmenntir eða bíó við konurnar úti í garði. Kannski ætti maður að gera það einn daginn, ég ímynda mér samt að þær myndu horfa á mig eins og eitthvað viðundur og mjaka sér hægt í burtu frá mér eins og maður gerir ef maður lendir á sérlega leiðinlegri mömmu.
Ég er mjög heppin því ég á mikið af góðum vinkonum sem nenna að hlusta á mig og eru sjálfar í þessum barnapakka, og svo á ég líka nokkrar vinkonur sem nenna alls ekki að tala of mikið um svona mál þar sem þær eru alls ekki í þessum pakka. Bæði er mjög gott og gefandi. Reyni að hitta vinkonurnar reglulega til að afmamma mig aðeins eins og Agnes kallar það.
Svo er ég líka svo heppin að eiga yndislegan mann sem býr oft til matinn og gengur frá í eldhúsinu og vaknar t.d. alltaf með þessum morgunhönum sem við eigum og leyfir mér að sofa aðeins lengur. Ekki má gleyma því að við getum leyft okkur að fá konu í tvo tíma á viku sem ryksugar og þrífur. Ég elska þá konu svo mikið að engin orð fá því lýst, hún er eiginlega engillinn minn.
En best af öllu er þó að ég er farin að vinna aðeins aftur. Það er nóg að gera hjá okkur þessa dagana og ég er örþreytt á kvöldin. En ég er samt svo ánægð með að komast aðeins burt frá heimilinu og hversdagslífinu og hitta ókunnugt og skemmtilegt fólk og geta deilt með þeim þessari dásamlegu borg minni.
Öll þessi atriði gera það að verkum að ég mun að öllum líkindum halda geðheilsu minni meðan ég kem börnunum á legg. Málið er að það er fullt af konum út um allan heim sem gera það ekki. Þær eru meira og minna þunglyndar og oft gengur það svo langt að það endar með ósköpum og ofbeldi. Börn út um allan heim eru lamin af mæðrum sem, um leið og þær slá til barnsins, engjast um af kvöl inni í sér. Þjóðfélagið verður að gera eitthvað í þessu, það er ekki hægt lengur að láta eins og ekkert sé. Stórum fjármunum er ausið í að fá okkur til að hætta að reykja, væri ekki mikilvægara að koma á fót fleiri barnaheimilum, gefa konum kost á að fá frí frá börnunum þó ekki væri nema einn, tvo daga í viku? Kannski myndu m.a.s. reykingar húsmæðra snarminnka ef þær hefðu tíma til að hugsa aðeins um sjálfar sig og gætu styrkt sjálfsmatið.
Ég var að pirra mig um daginn á öllum þessum vörum sem eru gerðar með setningum eins og "I love my mummy" eða "mamma er best". Mér fannst svona framleiðsla ganga út á að gera lítið úr okkur mæðrum, gera ráð fyrir því að við værum svo frústreraðar að við þyrftum að sannfæra sjálfar okkur um að börnin elskuðu okkur svo og svo mikið. En líklega eru þessar vörur framleiddar af góðum hug og af góðu fólki sem skilur það að oft er eina hrósið sem við fáum okkar eigin sjálfshól og bolir og smekkir sem við getum klætt börnin okkar í og lesið á þeim að þau elski okkur um leið og þau frussa matnum út úr sér yfir nýskúrað gólfið.

Nokkrir hlutir sem "venjulegt fólk" getur byrjað að gera til að hjálpa húsmæðrum að halda geðheilsunni:
Hrósaðu mömmunni fyrir hárið, peysuna eða varalitinn í staðinn fyrir að segja að barnið sé fallegt.
Segðu öllum húsmæðrum frá ensku rannsókninni og dáðstu að þeim fyrir dugnaðinn (þó að íbúðin sé í rúst og horið leki úr barninu).
Dragðu húsmóðurina út í bíó eða á tónleika við og við. Ekki hlusta á hik hennar, píndu hana til að redda barnapíu ef pabbinn getur ómögulega komið heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma.

Nú er ég farin að hljóma eins og einn af þessum tölvupóstum sem ég er alltaf að fá þar sem konur stunda sjálfshól sér til styrkingar. Best að hætta núna.

Áfram Frakkland (eitt núll fyrir grikkjum akkúrat núna...)!

22.6.04

Af hverju má fólk ekki vera eins og það er? Mér dettur þetta í hug eftir samræður við einn túristann minn sem sagði mér að hann hefði fengið eilífar glósur á sig þegar þau fóru fínt út að borða og hann vildi bara bjór með matnum. Af hverju má hann ekki drekka bjór frekar en að pína ofan í sig rauðvín sem honum þykir ekki gott og verður yfirleitt veikur af? Af hverju viljum við alltaf vera að búa til reglur yfir óþarfa hluti og erum svo ofsalega dugleg við að brjóta hinar þörfustu reglur eins og rauða kallinn á gatnamótunum o.s.frv?
Ég þoli ekki reglur um klæðaburð, hárgreiðslu, hvernig á að standa upp og setjast og fleiri svona snobbreglur sem eru líklega leifar af konungatímabilinu. Hins vegar hef ég yndislega gaman að því að fara fínt út að borða og finnst þá nauðsynlegt persónulega að drekka rauðvín með matnum. Ég fæ hins vegar ekki séð hvað veitir mér rétt á að hneykslast á þeim sem vill frekar bjór með steikinni. Ef honum finnst það betra, get ég með engu móti mótmælt því. Misjafn er smekkur mannanna sem betur fer!
Áfram Frakkland. Lifi Barthez. Lifi Zidane.

21.6.04

Fólkið í lífi manns hlýtur að vera það mikilvægasta sem maður á. Þess vegna er líka mikilvægt að hlúa að sambandi sínu við vini og fjölskyldu. Ég tel mig ríka að þessu leyti, á svo mikið af frábærum vinum hér og þar um heiminn og svo er náttúrulega fjölskyldan mín hreint stórkostleg, engin vandamál eða leiðindi og allir hæfilega klikkaðir samt, svona rétt til að vera ekki bara ofurvenjulegir og þar af leiðandi leiðinlegir.
Ég var rétt í þessu að taka þá ákvörðun að Embla vinkona mín getur bara alls ekki opnað kaffihúsið sitt í Óðinsvéum án þess að ég sé þar viðstödd og leggi blessun mína á þetta allt saman. Nú bíð ég bara eftir dagsetningu frá þeim og ég mæti með kassa af freyðivíni eða tvo og sé til þess að allt fari rétt fram. Skíri staðinn með einni flösku sem ég mun grýta í framhliðina, barnið heitir Optimistinn, og skála svo við þá viðstadda sem á annað borð drekka áfengi (margir í kringum mig hættir slíku sem er gott og blessað) og ég lofa því að það verður trallað fram á nótt því mörgu þarf að fagna.
Munið bara að hlúa að vinum ykkar og vera stolt af þeim.
Áfram Frakkland. Lifi Barthez!

19.6.04

Hún var nú skondin skrýtna fréttin í mogganum á laugardaginn var, sem ég er að lesa núna (tekur um 3 daga að komast í gegnum blaðið og stundum fer það ólesið í endurvinnsluna). Um tófuna og kríuvarpið. Fer ekki ofan af því að þetta hefur ekkert á útsíður að gera, en hins vegar ættu svona skemmtilega skrifaðar litlar skondnar sögur úr dýraríkinu að birtast t.d. í barnablaðinu. Hvað var meint með "hvít tófa í nýjum sumarbúningi"? Er sumarbúningur tófa hvítur? Eins og hjá þotuliðinu í París? Eru þotuliðsgellur kannski tófur?
Nenni ekki að skrifa meira með annarri hendi (tanntakan dregst á langinn).

17.6.04

Langt síðan heyrst hefur í mér en tjóar ekki að gráta það. Nenni ekki að útskýra tanntökur, bleijuskiptingar og annað sem tilheyrir þessum harða raunveruleika sem er alltaf svo leiðinlegt að skrifa um...
Ferðirnar ganga betur og betur og nóg að gera núna. Það var betra um að litast á Bastillunni í morgun, stæðilegir Íslendingarnir sem biðu mín við komu skyggðu algerlega á tómar bjórdollurnar sem ég heyrði rúlla undan sópi hermannsins í fjarska.
Gaman og gott að vinna. Vinnan en heilsan eins og Frakkinn segir. Eru Frakkar latir? Veit það ekki, þekki bæði harðduglega Frakka og dreplata Frakka. Þekki nokkra afkaplega lata Íslendinga. Fleiri þó duglega. Þetta kemur okkur ekki neitt.
Hafa menn þörf á reglum? Þetta var eitt af ritgerðarefnunum í samræmda stúdentsprófinu í heimspeki þetta árið hérna. Ég fór strax að spá og pæla og komst hratt og örugglega að þeirri niðurstöðu að styrkur mannskepnunnar felist að vissu leyti í hæfni sinni til að aðlaga sig reglum, siðum og kerfum ýmsum. En svo má segja að "hið skemmtilega" við manninn séu öll tilbrigðin við þessar reglur, siði og kerfi. Til dæmis er skemmtilegt að lesa um bófa og eltingaleik löggunnar við þá. Enn meira gaman að sjá bófa að störfum og lögguna fylgjast með eins og ég lenti einu sinni í á næturgöngu í París. Þá sá ég fyrst þjrá menn horfa fyrir horn hver ofan á öðrum alveg eins og upp úr einhverri teiknimyndasögu. Ég hikaði fyrst, vissi ekki hvort eitthvað hættulegt væri handan hornsins, sá að þetta voru lögreglumenn og ákvað að halda ferð minni áfram beint af augum. Gjóaði þó augum til hægri og hvað sá ég? Mann með poka að tæma stöðumæli í rólegheitum. Ég hefði getað gefið honum merki og reynt að tefja lögreglumennina meðan hann kæmist undan, en ég ákvað að flýta mér áfram og blanda mér á engan hátt í þetta skemmtilega leikrit sem var að gerast þarna beint við nef mitt. Eitt af því fyrsta sem Nína kenndi mér hér í Frakklandi var að blanda sem allra minnstu geði mínu við lögreglumenn. Ég hef alltaf farið eftir því og aldrei lent í vandræðum með verði langanna.
En ég fylgdist með úr fjarlægð þegar löggan stökk á manninn um leið og hann gekk á braut með pokann sinn. Þetta var skemmtileg reynsla fyrir mig þó ég væri dálítið sorgmædd fyrir hönd bófans, ég vorkenni alltaf fólki sem er tekið fyrir þjófnað. Mér finnst nefninlega í raun mjög asnalegt að stela. Fáránlegt að láta taka sig við slíka iðju. Vorkenni bæði fólki sem stelur af græðgi og þeim sem stela af nauðsyn. Skil nauðsynina en næ með engu móti gráðugum einstaklingum sem t.d. misnota sér aðstöðu sína með því að sölsa undir sig pening eða öðru úr fyrirtækinu sem þeir vinna hjá. Auðgunarbrot. Verða auðugur. Verða auðugri. Hvers vegna bera sumir enga virðingu fyrir reglunum, telja sig hafna yfir þær?
Ein tegund þjófnaðar veldur mér þó alltaf miklum heilabrotum. Það er þjófnaður af netinu. Þjófnaður á tónlist, kvikmyndum og sjónvarpsefni sem er stundaður í stórum stíl og oft af fólki sem má varla vamm sitt vita. Á maður virkilega að vera meðmæltur þessari tegund þjófnaðar? Er hún eitthvað betri en að tæma úr stöðumælum eða beina brotinni kókflösku að bensínafgreiðslumanni meðan hann tæmir kassann? Mér virðist maður alla vega vera voða OUT að finnast þetta þjófnaður. Ein rökin með þessu athæfi er að auðvitað eru stóru plötufyrirtækin þjófar og ræningjar og leggja allt of mikið á diskana sem þeir gefa út. En væri ekki betra að berjast gegn því á annan hátt en að setja þá í þá aðstöðu að vilja hækka enn meir svo við eymingjarnir sem þorum ekki að stela af netinu getum þá a.m.k. borgað upp hluta af tapinu?
Reyndar kemur þetta mér ekki við. Ég á stórt safn af diskum, nær öllum keyptum, og hef látið mér þetta safn duga að mestu leyti síðan við maðurinn minn ákváðum að hætta að kaupa tónlist árið 2000. Bara til að spara. Við vöndum okkur svo vel af því þá, að við höfum aldrei byrjað aftur að kaupa diska og við erum bara nokkuð ánægð með lífið og tónlistina sem við eigum. En við erum náttla lúserar með vonlausan tónlistarsmekk svo það er kannski ekki alveg að marka... Ég freistaðist þó inn í Fnac um daginn og leit á nokkra diska. Þegar ég sá verðið á nýju diskunum, hrökklaðist ég öfug út úr búðinni. Þrjátíu og fjórar evrur! Það væri gaman að vita hvernig mér liði í matvörubúðinni ef ég hefði hætt að kaupa í matinn fyrir fjórum árum. Væri ég jafn sjokkeruð, eða hefur diskaverðið rokið meira upp en maturinn á þessum evruárum? Þarf eiginlega að gera vísindalega könnun á þessu og hvort það tengist þá þessum þjófnaði af netinu. Veit a.m.k. ekki til þess að hægt sé að hlaða niður kartöflum og ýsuflökum af netinu. Óska þó eftir ábendingum ef einhver veit um slíkt. Góða nótt, lifi Fabien Barthez!

10.6.04

Ég mætti á Bastillutorgið tíu mínútum fyrir tíu, brött og jákvæð, smá fiðringur í maganum: Skyldi einhver koma í göngutúrinn? Tröppurnar upp að nýja óperuhúsinu voru ekki fallegar að sjá, þarna blasti við mér sama sýn og á Lækjartorgi á sunnudagsmorgni. Flöskulík, sígarettustubbar, samlokubréf og annað sem fólk á djamminu skilur eftir sig. Fólk á djamminu lokar sig inni í einhvers konar kúlu, einhverjum eigin heimi, enginn morgundagur, enginn hversdagsleiki, bara NÚIÐ, nóttin, víman, vinirnir og ekkert annað skiptir máli, maður þarf ekki að hugsa um hreinlæti eða góða siði, nýjar reglur eru í gildi.
Fólk á djamminu er óforskammað og subbulegt. M.a.s. fólk sem í daglega lífinu er kurteist, prútt og hreinlegt. Ég er engin undantekning og ég er ekkert rosalega hneyksluð á útganginum þarna í tröppunum í morgun. En það er samt alltaf dálítið leiðinlegt að þurfa að sjá svona dreggjar næturinnar og sem betur fer er hreinsunardeild Parísar frábærlega vel skipulögð og flest torg þar sem fólk safnast fyrir á næturnar orðin hrein og fín áður en dagurinn byrjar hjá morgunhönunum sem slepptu djamminu í gær.
Ógerlegt er þó fyrir þennan frækna her að ná að hreinsa allt upp á þessum örstutta tíma milli svefntíma næturhrafnanna og upphafs nýs dags. Þess vegna eru svona staðir eins og óperutröppurnar ekki orðnar hreinar þegar klukkuna vantar tíu mínútur í tíu, en fimm mínútum síðar kom askvaðandi vaskur karlmaður í fullum herklæðum vopnaður kústi og dýrindis háþrýstiúðara. Hann dæsti stórum þegar hann sá verkið sem beið hans, og á móti honum tók dyravörður óperunnar með miklum mæðusvip, hann vildi líklegast geta lokað tröppunum sínum fínu á nóttunni.
Ég sendi þeim báðum geislandi bros til uppörvunar og, svei mér þá, ég held það hafi haft einhver áhrif. Þeir virtust a.m.k. verða örlítið beinni í baki. Það er alltaf gaman að geta hresst upp á skap fólks sisona úti á götu.
Götusóparinn, hermaðurinn, byrjaði á að tína upp flöskulíkin og stærsta ruslið í stóran svartan plastpoka. Ég horfði á hann úr neðstu tröppunni, og eftir smá stund og nokkur læti þegar ein flaskan hafði brotnað og önnur rúllað niður nokkrar tröppur og svoleiðis, sá ég allt í einu hendi birtast af pallinum efst. Fingurnir teygðust allir sinn í hverja áttina og armurinn skalf. Hafði þá ekki einn af djömmurum næturinnar verið skilinn eftir af vinunum og fengið að sofa úr sér vímuna þarna einn og yfirgefinn! Nú vaknaði hann og það var ekki hátt á honum risið þegar honum tókst að staulast á fætur og skakklappast niður tröppurnar undir stingandi augnaráði hermannins, varðarins, leiðsögumannsins íslenska og hópi af japönskum túristum sem tóku vitanlega mynd. Kannski eiga þau einhvern daginn eftir að taka mynd af íslensku ungmenni á Austurvelli snemma morguns og geta sett myndirnar hlið við hlið í albúm sem gæti heitið: "Næturhrafnar eru alls staðar eins" eða eitthvað viðlíka. Kannski Spessi fari bara af stað og geri svona myndaröð?
Það er a.m.k. alltaf gaman að vera í París. Líka þótt maður sé sjálfstæður atvinnurekandi að bjóða ferð sem enginn kemur í. Alltaf eitthvað um að vera alls staðar. Ég vakti mikla athygli með spjaldið mitt sem á stendur: "Gönguferð á íslensku". Japanirnir komu alltaf alveg upp að því til að vera vissir um að missa ekki af einhverju spennandi. Einn smellti m.a.s. af mér mynd þegar ég brosti til hans. Hvað skyldi albúmið með útlensku spjöldunum/spjaldahöldurunum heita?

Veit af tveimur sem ætla að koma í túrinn á morgun og er spennt að sjá hvort tröppurnar upp í Sacré Coeur kirkjuna séu hreinsaðar fyrr en tröppurnar á óperunni.

9.6.04

Æ, hvað maður er nú heppinn með lífið sitt. Áhyggjur manns snúast að mestu um svo jarðneska og ómerkilega hluti að það hálfa væri nóg.
Til dæmis engdist ég um í gær yfir því hvort ég ætti að kaupa freyðivín eða kampavín í veisluna sem við höldum fyrir vini um helgina í tilefni brúðkaupsins og nýju íbúðarinnar. Loksins höldum við almennilegt partý.
Mig dreymdi aldrei um risastórt brúðkaup með hljómsveit og mat en mig dreymdi stundum um gott partý með fullt af kampavíni. Málið er bara að það er svo déskoti dýrt að kaupa kampavín og svo déskoti miklu ódýrara að kaupa freyðivín þó það sé úr sömu þrúgum og gert á nákvæmlega sama hátt og samkvæmt sumum snillingum alveg jafn gott. Ég bara ræð ekki við það hvað ég snobba rosalega fyrir kampavíni. Ég finn annað bragð. Ég held því fram að ég finni annað bragð. Ég ímynda mér að ég finni annað bragð.
En það fór svo að ég kíkti út í vínbúð að ráðum einnar vinkonu sem er vínþekkjari og uppástendur sem sagt að freyðivín sé alveg jafn gott, og þar lenti ég á sölumanni sem er líklega vínþekkjari (annars væri hann varla þarna að selja vín) og uppástóð líka að freyðivín væri alveg jafn gott og þar sem ég er svo seint á ferðinni með allan undirbúning partýsins varð ég að panta á mínútunni til að fá kassana fyrir laugardaginn. Á mínútunni. Ekki strax í fyrramálið eftir að geta smakkað eina flösku og ákveðið með manninum mínum og svoleiðis. Nei, á mínútunni. Það er ekki alveg mín sterkasta hlið að taka ákvarðanir svo ég stóð þarna í búðinni og engdist í orðsins fyllstu merkingu. Reyndi að hringja í tvo snillinga sem ráðleggja mér oft og voru búnar að vera með puttana í þessum pælingum, en hvorug svaraði. HVAR ERU VINIRNIR ÞEGAR Á ÞARF AÐ HALDA? Sölumaðurinn reyndist nógu ýtinn og nógu sannfærandi til að ég keypti 10 kassa hjá honum af hvítu og bleiku freyðivíni. Fyrst ég er á annað borð komin út í freyðivín, þá er alveg eins gott að ganga dálítið lengra í lágkúrunni og bjóða upp á bleikt í stíl við bleika brúðarkjólinn.
Ég keypti eina flösku til að taka með heim og smakkaði hana í gærkvöld. Við hjónin vorum sammála um að ef við hefðum fengið glasið framborið á góðum veitingastað hefði okkur ekki dottið í hug að biðja þjóninn um að sýna flöskuna til að sanna að um freyðivín væri að ræða. Þetta bévítans freyðivín hefur m.a.s. þetta góða eftirbragð og allt! Eða ég ímynda mér það a.m.k. þar sem ég á tíu kassa pantaða og greidda hjá lítilli vínbúð í París.
Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt þar sem ég er að lifa í samræmi við mína eigin getu, ekki eyða um efni fram og samt að vera dálítið grandíós í tilefni tilefnisins. Kampavín er alveg fáránlega dýrt og það er það auðvitað bara vegna þess að heimurinn er troðfullur af pæjum eins og mér sem bara hreinlea fá verki af fögnuði þegar opnuð er flaska með miða sem á stendur champagne. Orðið er fagurt og seiðandi á frönsku. Á ekkert skylt við kampakátan sjóara í íslenskum slagara. Champagne... fullt af loforðum um einhvers konar sældarlíf og pelsa og demanta... eitthvað er það... kannski ekki þetta þar sem ég tel mig lifa sældarlífi og mig langar ekki í pels og alls ekki í demant því ég kann ekki við svona lúxusvörur sem hafa ekkert annað hlutverk en að skreyta og búa til ímyndir og sem fólk og dýr þjást við að útvega ríka fólkinu en... eitthvað er það...
Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt í þetta sinn, en ég get lofað einu: Kampavín hefur og mun alltaf hafa meiri áhrif á mig en freyðivín.

Óforbetranlega snobbuð og ánægð með það!

7.6.04

Ég ætla, eins og þið vitið flest, að fara út í sjálfstæða leiðsögn í París í sumar. Verð með göngutúra alla fimmtu- og föstudaga og hægt að panta mig í netfanginu mínu sem er parisardaman@free.fr
Það hafa komið heilmikil viðbrögð við greininni um mig í Fréttablaðinu. Meira en ég átti von á. Kannski á maður að vera hræddur við fjölmiðlaveldi á Íslandi?
Ég er annars mjög spennt og bjartsýn á það að vera á eigin vegum í sumar. Þetta er ekki mikil áhætta þar sem enginn beinn kostnaður er af þessu fyrir mig. Bara mín vinna. Hef verið heilmikið að svara bréfum og svoleiðis svo líklega verð ég aldrei hálaunamanneskja af þessu. En þetta er samt skárra en að vera láglaunamanneskja að jaska sér út fyrir einvhern annan, er það ekki?
Ég er búin að ákveða að enda hver greinaskil á spurningu. Hef fengið allt of lítið af commentum og þetta gæti hvatt fólk til að skilja slíkt eftir hjá mér. Hvernig líst ykkur á það?
Annars er klukkan orðin allt of margt. Glösin orðin miklu meira en tóm eins og Valgeir lét Ingunni syngja forðum í júróvisjón (þeirri sömu keppni og Gísli Mart sigraði í um daginn í... Tyrklandi? - var sko að borða foie gras og drekka kampavín með nýjasta eiginmanninum á meðan). Ég lofa því að það var bara Volvic eldfjallavatn í glasinu mínu í kvöld. Ekkert vín og engar pillur, bara svo gaman að lifa og veðrið svo gott og maður bara kófsveittur og glaður. Eruð þið það ekki líka?

RÚV bar fram afsökunarbeiðni kvöldið eftir ömurlegan fréttaflutninginn sem ræddur er í síðasta pistli. Ég veit ekki hvort það var ég eða hvort fleiri létu í sér heyra, efast um að RÚV lesi bloggið mitt... vonandi létu margir í sér heyra og sönnuðu þar með það sem ég var að reyna að segja um að við erum ekki þessi áhorfandi sem þeir vilja að við séum. Ég lofaði fleiri pistlum um þetta mál, en í raun sagði ég allt sem þurfti og nenni eiginlega ekki að ræða þetta lengur.
Nema kannski að mál er til komið að einhver fari af stað með gagnrýna skoðun á fréttaflutningi á Íslandi. Mál eins og fjölmiðlafrumprumpið er tilvalið til að taka og skoða frá A til Ö. Kíkja hversu mikið var um það fjallað á hvorri stöð (RÚV og Stöð 2), hvenær það var neikvætt eða jákvætt, hvort það breyttist meðan á fjargviðrinu stóð, hvort fréttaumfjöllunin gæti verið ástæða fyrir ákvörðun Ólafs Ragnars í gær um að undirrita ekki o.s.frv. En svona rýni í fjölmiðla á Íslandi er líklega fjarlægur draumur. Enda hvar ætti að finna hlutlausa manneskju til að taka þetta að sér? Allir virðast vera annað hvort með eða á móti Davíð og það virðist vera það eina sem skipar fólki í flokka varðandi þetta mál. Mér virðist a.m.k. einu gilda fyrir fólk hvað í frumvarpinu standi og hver áhrifin verða á fjölmiðlaflóruna.
Það fyndnasta í umræðunni og það sem mest fór í taugarnar á mér, var þegar menn tala um að þessi og hin lög séu við gildi "í útlöndum". M.a.s. Gunnar Smári sem ég hef alltaf talið með kláru gæjunum okkar, gerði þetta í einhverju rifrildinu sem ég greip niður í. Hvað þýðir það að koma með svona "rök"? Það VERÐUR að nefna landið sem vísað er til, er verið að tala um Sádí Arabíu eða Danmörku? Eru lögin gömul, hver setti þau og hvernig hefur það gengið? Er fólk og þá helst fjölmiðlafólk, sátt við lögin í landinu? Var þeim troðið inn í lok þingsetu eða fór fram fjörug og frjó umræða í þjóðfélaginu áður en þau voru samþykkt? Svona "smáatriði" geta nefninlega skipt sköpum. Hefði annars einhver gúrú í t.d. Svíþjóð getað sagt (ja, a.m.k. ef Ólafur Ragnar hefði skrifað undir eins og flestir bjuggust við) að svona væri þetta nú á Íslandi og getað talið sænskum þegnum trú um að þess vegna væri allt í lagi að gera svona hjá þeim? Úff, ekki viss um að þessi setning sé jafngóð og hún hljómaði í kollinum á mér, en nenni ekki að laga hana núna... Þið skiljið alla vega hvað ég meina. Ég sætti mig ekki við þá rakaleysu að svona sé þetta í útlöndum. Mér er sama um útlöndin. Það er hvort eð er yfirleitt svo vonlaust að bera litla góða Ísland við einhver risastór og þunglamaleg og erfið og hættuleg útlönd.
Að líkja Baugsveldi við Berlusconi veldið er eins og að etja saman maríuhænu og fíl.
Ísland er einangrað smáríki og skiptir afar litlu máli fyrir heiminn fyrir utan, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mér líkar það betur, nota óspart smæð okkar og hvað við erum sérstök hér í Frakklandi. Við þykjum einmitt mjög spennandi hérna. Eins og ég útskýri alltaf fyrir túristunum mínum: við erum "rarítet", við erum sjaldgæf, eins og gott vín eða gamalt skrifborð og þess vegna þykir Frökkum við merkileg og eru spenntir fyrir okkur. Þetta eigum við að nýta okkur betur, koma á framfæri listamönnum og vísindamönnum og öðru hæfileikaríku fólki sem gæti, eitt og sér, skipt sköpum fyrir heiminn.
Hver gefur út Moggann eða hver kemur í Moggann skiptir ekki miklu máli. En að sigra heiminn getur gefið mikla möguleika fyrir litla þjóð og það er það sem við ættum að einbeita okkur að. VOILA!