29.6.04

Margur verður af aurum api.
Ég held að við getum öll verið sammála um að peningar ræna fólk vitinu. Samt erum við öll neydd til að eyða stórum hluta af okkar stutta tíma hér á jörðu í það að afla þeirra. Einhverra hluta vegna er ekki hægt að vera til og halda lágmarkssjálfsvirðingu án þessa ljóta illa afls sem peningarnir eru. Það er endalaust klifað á því að fólk hafi myrt í krafti trúarinnar á guð í gegnum aldirnar. En trúin á peningana? Er hún ekki enn verri, enn svartari og er hún ekki einmitt aflið sem fólkið var í raun að myrða fyrir þó það tilheyrði einhverjum trúarhópi, og kæmi fram í nafni hans? Var þetta ekki spurning um jarðir og völd?
Þetta er afar flókið og hefur mikið verið ritað og rætt um þetta svo ég er ekki að fara með neinar nýjar kenningar hérna. Hvað skyldi t.d. knýja Bush áfram í þessu viðbjóðslega hernámi Íraks? Eru það peningar og völd eða einfaldlega þetta fáránlega hatur sem margir hafa á aröbum almennt? Ég hef nefninlega oft haldið því fram að Bush sé aðallega að nota tækifærið og fækka þessum "lýð" sem hvorki hann né pabbi hans geta þolað. En svo var heimildarmynd í sjónvarpinu hérna um tengsl þeirra Bushara við Sádi Arabíu og Laden fjölskylduna. Vissuð þið að 11. september 2001 var pabbi Bush á fundi með bróður Bens hér í París? Merkilegt og vert að spá í. Ég missti því miður af þessari mynd og hef því bara heyrt eitt og annað úr henni. Bush er ekki allur þar sem hann er séður. Það er á hreinu.
Hlutirnir virðast eitt og annað og oft ægilega einfalt að segjast vera með og á móti en svo þegar farið er að snúa hnullungum kemur ýmislegt í ljós sem flækir málin.
Ég segi oft við túristana mína að allt sem ég segi þeim um sögu Parísar og Frakklands sé valið úr ýmsum útgáfum og við höfum það sem skemmtilegra reynist. Enda ómögulegt að negla niður einhvern einn fínan og þægilegan og hreinan og hvítan sannleika. Jafn fáránlegt að eyða lífi sínu í leit að honum eins og að safna peningum.
Bisous.