7.6.04

RÚV bar fram afsökunarbeiðni kvöldið eftir ömurlegan fréttaflutninginn sem ræddur er í síðasta pistli. Ég veit ekki hvort það var ég eða hvort fleiri létu í sér heyra, efast um að RÚV lesi bloggið mitt... vonandi létu margir í sér heyra og sönnuðu þar með það sem ég var að reyna að segja um að við erum ekki þessi áhorfandi sem þeir vilja að við séum. Ég lofaði fleiri pistlum um þetta mál, en í raun sagði ég allt sem þurfti og nenni eiginlega ekki að ræða þetta lengur.
Nema kannski að mál er til komið að einhver fari af stað með gagnrýna skoðun á fréttaflutningi á Íslandi. Mál eins og fjölmiðlafrumprumpið er tilvalið til að taka og skoða frá A til Ö. Kíkja hversu mikið var um það fjallað á hvorri stöð (RÚV og Stöð 2), hvenær það var neikvætt eða jákvætt, hvort það breyttist meðan á fjargviðrinu stóð, hvort fréttaumfjöllunin gæti verið ástæða fyrir ákvörðun Ólafs Ragnars í gær um að undirrita ekki o.s.frv. En svona rýni í fjölmiðla á Íslandi er líklega fjarlægur draumur. Enda hvar ætti að finna hlutlausa manneskju til að taka þetta að sér? Allir virðast vera annað hvort með eða á móti Davíð og það virðist vera það eina sem skipar fólki í flokka varðandi þetta mál. Mér virðist a.m.k. einu gilda fyrir fólk hvað í frumvarpinu standi og hver áhrifin verða á fjölmiðlaflóruna.
Það fyndnasta í umræðunni og það sem mest fór í taugarnar á mér, var þegar menn tala um að þessi og hin lög séu við gildi "í útlöndum". M.a.s. Gunnar Smári sem ég hef alltaf talið með kláru gæjunum okkar, gerði þetta í einhverju rifrildinu sem ég greip niður í. Hvað þýðir það að koma með svona "rök"? Það VERÐUR að nefna landið sem vísað er til, er verið að tala um Sádí Arabíu eða Danmörku? Eru lögin gömul, hver setti þau og hvernig hefur það gengið? Er fólk og þá helst fjölmiðlafólk, sátt við lögin í landinu? Var þeim troðið inn í lok þingsetu eða fór fram fjörug og frjó umræða í þjóðfélaginu áður en þau voru samþykkt? Svona "smáatriði" geta nefninlega skipt sköpum. Hefði annars einhver gúrú í t.d. Svíþjóð getað sagt (ja, a.m.k. ef Ólafur Ragnar hefði skrifað undir eins og flestir bjuggust við) að svona væri þetta nú á Íslandi og getað talið sænskum þegnum trú um að þess vegna væri allt í lagi að gera svona hjá þeim? Úff, ekki viss um að þessi setning sé jafngóð og hún hljómaði í kollinum á mér, en nenni ekki að laga hana núna... Þið skiljið alla vega hvað ég meina. Ég sætti mig ekki við þá rakaleysu að svona sé þetta í útlöndum. Mér er sama um útlöndin. Það er hvort eð er yfirleitt svo vonlaust að bera litla góða Ísland við einhver risastór og þunglamaleg og erfið og hættuleg útlönd.
Að líkja Baugsveldi við Berlusconi veldið er eins og að etja saman maríuhænu og fíl.
Ísland er einangrað smáríki og skiptir afar litlu máli fyrir heiminn fyrir utan, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mér líkar það betur, nota óspart smæð okkar og hvað við erum sérstök hér í Frakklandi. Við þykjum einmitt mjög spennandi hérna. Eins og ég útskýri alltaf fyrir túristunum mínum: við erum "rarítet", við erum sjaldgæf, eins og gott vín eða gamalt skrifborð og þess vegna þykir Frökkum við merkileg og eru spenntir fyrir okkur. Þetta eigum við að nýta okkur betur, koma á framfæri listamönnum og vísindamönnum og öðru hæfileikaríku fólki sem gæti, eitt og sér, skipt sköpum fyrir heiminn.
Hver gefur út Moggann eða hver kemur í Moggann skiptir ekki miklu máli. En að sigra heiminn getur gefið mikla möguleika fyrir litla þjóð og það er það sem við ættum að einbeita okkur að. VOILA!