17.6.04

Langt síðan heyrst hefur í mér en tjóar ekki að gráta það. Nenni ekki að útskýra tanntökur, bleijuskiptingar og annað sem tilheyrir þessum harða raunveruleika sem er alltaf svo leiðinlegt að skrifa um...
Ferðirnar ganga betur og betur og nóg að gera núna. Það var betra um að litast á Bastillunni í morgun, stæðilegir Íslendingarnir sem biðu mín við komu skyggðu algerlega á tómar bjórdollurnar sem ég heyrði rúlla undan sópi hermannsins í fjarska.
Gaman og gott að vinna. Vinnan en heilsan eins og Frakkinn segir. Eru Frakkar latir? Veit það ekki, þekki bæði harðduglega Frakka og dreplata Frakka. Þekki nokkra afkaplega lata Íslendinga. Fleiri þó duglega. Þetta kemur okkur ekki neitt.
Hafa menn þörf á reglum? Þetta var eitt af ritgerðarefnunum í samræmda stúdentsprófinu í heimspeki þetta árið hérna. Ég fór strax að spá og pæla og komst hratt og örugglega að þeirri niðurstöðu að styrkur mannskepnunnar felist að vissu leyti í hæfni sinni til að aðlaga sig reglum, siðum og kerfum ýmsum. En svo má segja að "hið skemmtilega" við manninn séu öll tilbrigðin við þessar reglur, siði og kerfi. Til dæmis er skemmtilegt að lesa um bófa og eltingaleik löggunnar við þá. Enn meira gaman að sjá bófa að störfum og lögguna fylgjast með eins og ég lenti einu sinni í á næturgöngu í París. Þá sá ég fyrst þjrá menn horfa fyrir horn hver ofan á öðrum alveg eins og upp úr einhverri teiknimyndasögu. Ég hikaði fyrst, vissi ekki hvort eitthvað hættulegt væri handan hornsins, sá að þetta voru lögreglumenn og ákvað að halda ferð minni áfram beint af augum. Gjóaði þó augum til hægri og hvað sá ég? Mann með poka að tæma stöðumæli í rólegheitum. Ég hefði getað gefið honum merki og reynt að tefja lögreglumennina meðan hann kæmist undan, en ég ákvað að flýta mér áfram og blanda mér á engan hátt í þetta skemmtilega leikrit sem var að gerast þarna beint við nef mitt. Eitt af því fyrsta sem Nína kenndi mér hér í Frakklandi var að blanda sem allra minnstu geði mínu við lögreglumenn. Ég hef alltaf farið eftir því og aldrei lent í vandræðum með verði langanna.
En ég fylgdist með úr fjarlægð þegar löggan stökk á manninn um leið og hann gekk á braut með pokann sinn. Þetta var skemmtileg reynsla fyrir mig þó ég væri dálítið sorgmædd fyrir hönd bófans, ég vorkenni alltaf fólki sem er tekið fyrir þjófnað. Mér finnst nefninlega í raun mjög asnalegt að stela. Fáránlegt að láta taka sig við slíka iðju. Vorkenni bæði fólki sem stelur af græðgi og þeim sem stela af nauðsyn. Skil nauðsynina en næ með engu móti gráðugum einstaklingum sem t.d. misnota sér aðstöðu sína með því að sölsa undir sig pening eða öðru úr fyrirtækinu sem þeir vinna hjá. Auðgunarbrot. Verða auðugur. Verða auðugri. Hvers vegna bera sumir enga virðingu fyrir reglunum, telja sig hafna yfir þær?
Ein tegund þjófnaðar veldur mér þó alltaf miklum heilabrotum. Það er þjófnaður af netinu. Þjófnaður á tónlist, kvikmyndum og sjónvarpsefni sem er stundaður í stórum stíl og oft af fólki sem má varla vamm sitt vita. Á maður virkilega að vera meðmæltur þessari tegund þjófnaðar? Er hún eitthvað betri en að tæma úr stöðumælum eða beina brotinni kókflösku að bensínafgreiðslumanni meðan hann tæmir kassann? Mér virðist maður alla vega vera voða OUT að finnast þetta þjófnaður. Ein rökin með þessu athæfi er að auðvitað eru stóru plötufyrirtækin þjófar og ræningjar og leggja allt of mikið á diskana sem þeir gefa út. En væri ekki betra að berjast gegn því á annan hátt en að setja þá í þá aðstöðu að vilja hækka enn meir svo við eymingjarnir sem þorum ekki að stela af netinu getum þá a.m.k. borgað upp hluta af tapinu?
Reyndar kemur þetta mér ekki við. Ég á stórt safn af diskum, nær öllum keyptum, og hef látið mér þetta safn duga að mestu leyti síðan við maðurinn minn ákváðum að hætta að kaupa tónlist árið 2000. Bara til að spara. Við vöndum okkur svo vel af því þá, að við höfum aldrei byrjað aftur að kaupa diska og við erum bara nokkuð ánægð með lífið og tónlistina sem við eigum. En við erum náttla lúserar með vonlausan tónlistarsmekk svo það er kannski ekki alveg að marka... Ég freistaðist þó inn í Fnac um daginn og leit á nokkra diska. Þegar ég sá verðið á nýju diskunum, hrökklaðist ég öfug út úr búðinni. Þrjátíu og fjórar evrur! Það væri gaman að vita hvernig mér liði í matvörubúðinni ef ég hefði hætt að kaupa í matinn fyrir fjórum árum. Væri ég jafn sjokkeruð, eða hefur diskaverðið rokið meira upp en maturinn á þessum evruárum? Þarf eiginlega að gera vísindalega könnun á þessu og hvort það tengist þá þessum þjófnaði af netinu. Veit a.m.k. ekki til þess að hægt sé að hlaða niður kartöflum og ýsuflökum af netinu. Óska þó eftir ábendingum ef einhver veit um slíkt. Góða nótt, lifi Fabien Barthez!