10.6.04

Ég mætti á Bastillutorgið tíu mínútum fyrir tíu, brött og jákvæð, smá fiðringur í maganum: Skyldi einhver koma í göngutúrinn? Tröppurnar upp að nýja óperuhúsinu voru ekki fallegar að sjá, þarna blasti við mér sama sýn og á Lækjartorgi á sunnudagsmorgni. Flöskulík, sígarettustubbar, samlokubréf og annað sem fólk á djamminu skilur eftir sig. Fólk á djamminu lokar sig inni í einhvers konar kúlu, einhverjum eigin heimi, enginn morgundagur, enginn hversdagsleiki, bara NÚIÐ, nóttin, víman, vinirnir og ekkert annað skiptir máli, maður þarf ekki að hugsa um hreinlæti eða góða siði, nýjar reglur eru í gildi.
Fólk á djamminu er óforskammað og subbulegt. M.a.s. fólk sem í daglega lífinu er kurteist, prútt og hreinlegt. Ég er engin undantekning og ég er ekkert rosalega hneyksluð á útganginum þarna í tröppunum í morgun. En það er samt alltaf dálítið leiðinlegt að þurfa að sjá svona dreggjar næturinnar og sem betur fer er hreinsunardeild Parísar frábærlega vel skipulögð og flest torg þar sem fólk safnast fyrir á næturnar orðin hrein og fín áður en dagurinn byrjar hjá morgunhönunum sem slepptu djamminu í gær.
Ógerlegt er þó fyrir þennan frækna her að ná að hreinsa allt upp á þessum örstutta tíma milli svefntíma næturhrafnanna og upphafs nýs dags. Þess vegna eru svona staðir eins og óperutröppurnar ekki orðnar hreinar þegar klukkuna vantar tíu mínútur í tíu, en fimm mínútum síðar kom askvaðandi vaskur karlmaður í fullum herklæðum vopnaður kústi og dýrindis háþrýstiúðara. Hann dæsti stórum þegar hann sá verkið sem beið hans, og á móti honum tók dyravörður óperunnar með miklum mæðusvip, hann vildi líklegast geta lokað tröppunum sínum fínu á nóttunni.
Ég sendi þeim báðum geislandi bros til uppörvunar og, svei mér þá, ég held það hafi haft einhver áhrif. Þeir virtust a.m.k. verða örlítið beinni í baki. Það er alltaf gaman að geta hresst upp á skap fólks sisona úti á götu.
Götusóparinn, hermaðurinn, byrjaði á að tína upp flöskulíkin og stærsta ruslið í stóran svartan plastpoka. Ég horfði á hann úr neðstu tröppunni, og eftir smá stund og nokkur læti þegar ein flaskan hafði brotnað og önnur rúllað niður nokkrar tröppur og svoleiðis, sá ég allt í einu hendi birtast af pallinum efst. Fingurnir teygðust allir sinn í hverja áttina og armurinn skalf. Hafði þá ekki einn af djömmurum næturinnar verið skilinn eftir af vinunum og fengið að sofa úr sér vímuna þarna einn og yfirgefinn! Nú vaknaði hann og það var ekki hátt á honum risið þegar honum tókst að staulast á fætur og skakklappast niður tröppurnar undir stingandi augnaráði hermannins, varðarins, leiðsögumannsins íslenska og hópi af japönskum túristum sem tóku vitanlega mynd. Kannski eiga þau einhvern daginn eftir að taka mynd af íslensku ungmenni á Austurvelli snemma morguns og geta sett myndirnar hlið við hlið í albúm sem gæti heitið: "Næturhrafnar eru alls staðar eins" eða eitthvað viðlíka. Kannski Spessi fari bara af stað og geri svona myndaröð?
Það er a.m.k. alltaf gaman að vera í París. Líka þótt maður sé sjálfstæður atvinnurekandi að bjóða ferð sem enginn kemur í. Alltaf eitthvað um að vera alls staðar. Ég vakti mikla athygli með spjaldið mitt sem á stendur: "Gönguferð á íslensku". Japanirnir komu alltaf alveg upp að því til að vera vissir um að missa ekki af einhverju spennandi. Einn smellti m.a.s. af mér mynd þegar ég brosti til hans. Hvað skyldi albúmið með útlensku spjöldunum/spjaldahöldurunum heita?

Veit af tveimur sem ætla að koma í túrinn á morgun og er spennt að sjá hvort tröppurnar upp í Sacré Coeur kirkjuna séu hreinsaðar fyrr en tröppurnar á óperunni.