27.6.04

Ég er komin á hjól og með sæti aftan á fyrir dóttur mína sem tekur sig vel út með hjálminn og syngur hástöfum þegar við þeysum um götur Parísar... nei, þetta var nú skrifað til að hrekkja ömmuna og afann, við förum afskaplega rólega og höfum ekki hætt okkur inn í sjálfa Parísarumferðina, bara hérna um Romainville og niður með síkinu á hjólastígnum.
Það er frábært að hjóla. Ég er reyndar lurkum lamin eftir túrinn í dag, en það var heitt og sólríkt loksins eftir nokkra undarlega daga þar sem maður hefur verið að klæða sig í og úr til skiptis á fimm mínútna fresti. Sem minnir á Íslandið góða. Svoleiðis á bara ekki að vera í París í lok júní. LOK JÚNÍ!? Trúið þið því að júní er að verða búinn? Enn ein mánaðarmótin að skella á. Síðast mánuður dóttur minnar í leikskólanum. Hver vill koma og vera au pair hjá okkur í ágúst?

Tíminn líður áfram og teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég neinu ráðið um það hvert hann fer... Megas snillingur...
Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs... Steinn yfirsnillingur...
So many men, so little time... ókunn snilla...

Það er verið að setja fram lagafrumvarp gegn homma- og lesbíuhræðslu og inn í þetta frumvarp fléttast lög gegn almennum sexisma (oh, nú verð ég að kíkja í orðabókina því ég vil alls ekki að þetta blogg sé eingöngu læsilegt fyrir frönskumælandi) gegn almennu kynjamisrétti. Þar átti m.a. að banna að tala um HÚSMÆÐUR, það þótti þingmönnunum sem voru að setja fram fyrstu drögin vera afar niðrandi orðalag (fr. mère au foyer sem þýðir beint móðir sem er heima). Hugsið ykkur. Í staðinn fyrir að við getum verið stoltar af þessu erfiða starfi, þurfum við ekki bara að þola það að þetta sé erfitt og ólaunað starf, heldur líka að það sé hreinlega niðrandi að vera í þessari stöðu. Ég næ varla upp í nefið á mér af pirringi yfir þessari vitleysu. Sem betur fer er fólk eins og tengdapabbi að fara yfir bullið áður en það er sett fram á þingi. Ef lögin hefðu gengið í gegn óbreytt hefði greinin sem ég las um bókina (sjá tvö síðustu blogg) verið orðin lögbrot af því að í fyrirsögninni og oft í greininni var talað um húsmæður. Kannski bara að bókin hefði getað verið gerð upptæk líka. Það er ekkert grín að vera þingmaður og reyna að koma lögum á í þessu skrýtna þjóðfélagi sem reynir að gera öllum jafnhátt undir höfði a.m.k. svona í orði, og reynir að setja lög til að sporna gegn níði og ofbeldi gegn minni máttar. En fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Ég er búin að ákveða að nú verður þingmaður níðorð hjá mér. "Helvítis þingmaðurinn þinn!" ætla ég að öskra á eftir næsta manni sem svínar fyrir mig í umferðinni. "Þessi þingmaður vildi ekki einu sinni hleypa mér inn" segi ég um dyravörðinn á fína diskótekinu sem ég reyni að komast inn á um hverja helgi.
Ég hvet ykkur öll til að taka þátt í þessu með mér og athuga hversu fljótt þetta verður málvenja. Munið þið ekki eftir því að arabi var mikið skammaryrði í denn, a.m.k. í Breiðholtinu. "Helvítis arabinn þinn!" Ég átti reyndar í miklum vandræðum með arabann því svo var svo óskaplega flott að geta farið arabastökk og það æft stíft á grasflötunum við blokkina. Því skildi ég aldrei almennilega að þetta væri skammaryrði.

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust blómið
á gulum skóm.

Einu sinni var ég með plön um að stofna menningarklúbb og átti inngönguskilyrðið að vera að læra Tímann og vatnið utanað. Það varð ekkert af því þar sem verðandi stofnandi nennti aldrei að láta verða almennilega af því. En mikið óskaplega er nú gaman að lesa þetta ljóð og mikið óskaplega ofboðslega væri nú gaman að geta farið með það allt á góðum stundum. Betra en að kunna House of the rising sun og Piano Man utanað eins og staðan er hjá mér í dag. Vert umhugsunarefni.
Áfram... ó nei, afsakið, öll liðin mín dottin út, einmitt verið að mala Dani í þessum orðum möluðum. Ekki það að ég horfi, neyðist bara til að hlusta á eftirlýsingar mannsins míns á hverjum leik og er því vel viðræðuhæf um það hvernig þessir og hinir stóðu sig og með hversu mikilli reisn eða hneisu hver datt úr keppni.
Og farið nú í háttinn þingmennirnir ykkar!