9.6.04

Æ, hvað maður er nú heppinn með lífið sitt. Áhyggjur manns snúast að mestu um svo jarðneska og ómerkilega hluti að það hálfa væri nóg.
Til dæmis engdist ég um í gær yfir því hvort ég ætti að kaupa freyðivín eða kampavín í veisluna sem við höldum fyrir vini um helgina í tilefni brúðkaupsins og nýju íbúðarinnar. Loksins höldum við almennilegt partý.
Mig dreymdi aldrei um risastórt brúðkaup með hljómsveit og mat en mig dreymdi stundum um gott partý með fullt af kampavíni. Málið er bara að það er svo déskoti dýrt að kaupa kampavín og svo déskoti miklu ódýrara að kaupa freyðivín þó það sé úr sömu þrúgum og gert á nákvæmlega sama hátt og samkvæmt sumum snillingum alveg jafn gott. Ég bara ræð ekki við það hvað ég snobba rosalega fyrir kampavíni. Ég finn annað bragð. Ég held því fram að ég finni annað bragð. Ég ímynda mér að ég finni annað bragð.
En það fór svo að ég kíkti út í vínbúð að ráðum einnar vinkonu sem er vínþekkjari og uppástendur sem sagt að freyðivín sé alveg jafn gott, og þar lenti ég á sölumanni sem er líklega vínþekkjari (annars væri hann varla þarna að selja vín) og uppástóð líka að freyðivín væri alveg jafn gott og þar sem ég er svo seint á ferðinni með allan undirbúning partýsins varð ég að panta á mínútunni til að fá kassana fyrir laugardaginn. Á mínútunni. Ekki strax í fyrramálið eftir að geta smakkað eina flösku og ákveðið með manninum mínum og svoleiðis. Nei, á mínútunni. Það er ekki alveg mín sterkasta hlið að taka ákvarðanir svo ég stóð þarna í búðinni og engdist í orðsins fyllstu merkingu. Reyndi að hringja í tvo snillinga sem ráðleggja mér oft og voru búnar að vera með puttana í þessum pælingum, en hvorug svaraði. HVAR ERU VINIRNIR ÞEGAR Á ÞARF AÐ HALDA? Sölumaðurinn reyndist nógu ýtinn og nógu sannfærandi til að ég keypti 10 kassa hjá honum af hvítu og bleiku freyðivíni. Fyrst ég er á annað borð komin út í freyðivín, þá er alveg eins gott að ganga dálítið lengra í lágkúrunni og bjóða upp á bleikt í stíl við bleika brúðarkjólinn.
Ég keypti eina flösku til að taka með heim og smakkaði hana í gærkvöld. Við hjónin vorum sammála um að ef við hefðum fengið glasið framborið á góðum veitingastað hefði okkur ekki dottið í hug að biðja þjóninn um að sýna flöskuna til að sanna að um freyðivín væri að ræða. Þetta bévítans freyðivín hefur m.a.s. þetta góða eftirbragð og allt! Eða ég ímynda mér það a.m.k. þar sem ég á tíu kassa pantaða og greidda hjá lítilli vínbúð í París.
Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt þar sem ég er að lifa í samræmi við mína eigin getu, ekki eyða um efni fram og samt að vera dálítið grandíós í tilefni tilefnisins. Kampavín er alveg fáránlega dýrt og það er það auðvitað bara vegna þess að heimurinn er troðfullur af pæjum eins og mér sem bara hreinlea fá verki af fögnuði þegar opnuð er flaska með miða sem á stendur champagne. Orðið er fagurt og seiðandi á frönsku. Á ekkert skylt við kampakátan sjóara í íslenskum slagara. Champagne... fullt af loforðum um einhvers konar sældarlíf og pelsa og demanta... eitthvað er það... kannski ekki þetta þar sem ég tel mig lifa sældarlífi og mig langar ekki í pels og alls ekki í demant því ég kann ekki við svona lúxusvörur sem hafa ekkert annað hlutverk en að skreyta og búa til ímyndir og sem fólk og dýr þjást við að útvega ríka fólkinu en... eitthvað er það...
Ég er sannfærð um að ég er að gera rétt í þetta sinn, en ég get lofað einu: Kampavín hefur og mun alltaf hafa meiri áhrif á mig en freyðivín.

Óforbetranlega snobbuð og ánægð með það!