fórnir
Ég man alltaf eftir því þegar ég sá fyrstu John Woo myndina í bíó. Tveir þriðji hluti áhorfenda gekk út áður en myndinni lauk. Ég sat hins vegar límd við sætið og notaði frasann "ça chauffe à la maternité" lengi vel. Annar góður frasi úr John Woo mynd er: "On ne fait pas d'omelette sans casser des œufs".
Getur einhver sagt mér hvort
þessi maður er djók eða ekki?
Lifið í friði.
p.s. þýðingar og útskýringar:
"ça chauffe à la maternité" : "það er farið að hitna í kolunum á fæðingardeildinni" segir aðalsöguhetjan þar sem hann berst með hríðsotabyssu við menn með hríðskotabyssur yfir spítalavöggum fullum af börnum, með eitt ungabarnið í fanginu, sem hann greip þegar vaggan valt í látunum.
"on ne fait pas d'omelette sans casser des œufs" er þekktur frasi sem ég hef nokkrum sinnum séð í glæpómyndum: það er ekki hægt að gera eggjaköku án þess að brjóta eggin.
til og frá flugvelli
Í gær bætti ég við kafla með þessu spennandi heiti á
parisardaman.com Hann er sem sagt neðstur núna í Hagnýtum upplýsingum.
Ég hef dedúað örlítið í vetur við narðarkaflann. Það vantar margt inn ennþá, nerðir eru svo margslunginn hópur.
Allar hugmyndir að sérvöruverlsunum sem nerðir gætu leitað að eru velkomnar. Ég er komin með tónlistina, bæði til hlustunar og iðkunar, sem er stór kafli. Bókabúðir með bækur á ensku fá sitt pláss vitanlega. Svo er ég með flugdrekabúð og "goth"-búð sem hentar heiðingjum og miðalda- og víkingaáhugamönnum líka ásamt einhverju fleiru. Ég ætla að setja inn kafla um búsáhaldaverslanir fyrir nerði eins og Nönnu.
Svo var spurning með esóterík, er til íslenskt orð yfir þá
fræðigrein?
Hver er þín ástríða, herra eða frú nörður? Eða á ég að segja njörður?
nörður - nörð - nerði - narðar
nerðir - nerði - nörðum - narða
EÐA
njörður - njörð - nerði/nirði - njarðar?
Lifið í friði.
heimsferðir - terra nova
Ég hef alveg gleymt að benda fólki á að
Heimsferðir og
Terra Nova bjóða flugferðir til Parísar á besta verðinu í sumar. Komið þið?
Lifið í friði.
ég er dottin í moggabloggpytt og vil ekki láta draga mig upp
Ég á frænda sem kann alveg að hugsa. Hann skrifaði
þetta. Ég er montin og endurtek: Hann er frændi minn.
Nú hef ég tvisvar sinnum sett inn athugasemd á moggablogg.
Mér er illt í höfðinu og full af stressi. Mig langar dálítið út að hlaupa núna strax en mig langar líka að hitta hlaupahópinn í kvöld. Lúxusvandamál eiga líka rétt á sér og þegiðu svo.
Lifið í friði.
virkni
Einkunnin í faginu sem ég skildi aldrei fyrr en í sjálfum próflestrinum kom skemmtilega á óvart og er jafnhá einkunninni í hljóðfræði. Mér tókst sem sagt að fá 8,5 í Beygingar- og orðmyndunarfræði. Kannski ég slái til og fari í framhaldskúrs í þessu bráðskemmtilega fagi?
Hér skín sólin áfram þrátt fyrir sífellda rigningarspá. Rauða regnkápan grætur. Ljósa hárið lýsist.
Í dag er það Mýrin.
Á morgun plakataupphengingar.
Á miðvikudaginn ætla ég að reyna að komast í Hammam.
Á fimmtudaginn Mýrin og tónleikar um kvöldið:
Tónleikar fimmtudag 29. maí 2008:
Sólu fegri skært þú skínHljómeyki
undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar
Anna Tryggvadóttir selló
Kl. 20:00. Église Saint Jean, 147, rue de Grenelle (7e), M° La Tour Maubourg. Ókeypis inn, frjáls framlög.
Á föstudaginn held ég til Tours með kórnum.
Ég býst ekki við að vera mikið á blogginu þessa vikuna, þarf að vera hörkudugleg, ýmislegt sem ég á eftir að breyta og bæta á Parísardaman.com og svo þarf ég að lesa um Tours, það þýðir ekkert að fara með hóp á stað án þess að vita nokkuð af viti um hann. En ég er náttúrulega bloggfíkill svo þið megið ekki taka mark á svona yfirlýsingum. Þá eruð þið meðvirk. Það er víst gott að vera virkur en vont að vera meðvirkur.
Lifið í friði.
vísbending
Ég sakna hans, og ég er viss um að mörg ykkar saknið hans líka.
Lifið í friði.
getraun
Fyrst var hann, svo fór hann og svo kom hann aftur en nú virðist hann farinn. Hver er það?
Lifið í friði.
sunnudagstepoki
Í gærkvöld horfði ég á íslenska lagið, til að geta svo hringt í hópinn sem ég er með um helgina og sagt þeim "hvernig gekk". Ég hef sérstakar ástæður til að dekra þennan hóp sérstaklega, mér einstaklega dýrmætt fólk fyllir hann. Ég ákvað að bíða og sjá Frakkland líka, sat með tölvuna í kjöltunni og fylgdist með öðru auga með skrípaleiknum.
Frakkar hefðu tvímælalaust átt skilið að verða ofar en við, eða þá í neðsta sæti enda lagið þeirra vitanlega langt utan við Eurovision standardinn, a.m.k. eins og hún hefur verið síðustu ár. Gainsbourg stemning í þessu andrómantíska lagi. Ég get ekki tjáð mig um önnur lög því ég hlustaði ekki og horfði varla. Mér fannst þó Bosnía-Hersegovnía töff með leikhústilþrifin og lag Króatíu var fallegt og, líkt og franska lagið, enginn Eurovision bragur að skemma það.
Jean-Paul Gaultier sat ásamt spyrli úr spurningaleik og gerði athugasemdir. Þeir voru nokkuð jákvæðir út í Ísland en ég náði þó að verða hissa á þeim. Spyrillinn setti sig í spurningakeppnisstílinn og bað um höfuðborg Íslands, J-P svaraði Osló. Ég veit að hann hefur komið til landsins og þetta hlýtur að hafa verið einhvers konar húmor í honum. Eða þá að hann er einfaldlega heimskur, sem er vissulega möguleiki, hann samþykkir alla vega að vera kynnir í Eurovision.
Svo lagðist ég upp í rúm með ljóðabók, Mogga og skáldsögu og fletti skipulagslaust í smá tíma áður en ég datt út af. Hef ekki hugmynd um hvað stendur í neinu ritanna, þarf að lesa allt aftur. Jú, það sló mig að strax á laugardeginum viku fyrir keppni var langur pistill um stemninguna í Belgrad. Ég nenni þó ekki að lesa þann pistil og mun væntanlega ekki nenna að lesa hann þó ég sé öllu hressari eftir nætursvefninn.
Í dag ek ég langdýrmætasta hluta hópsins upp á flugvöll og kveð með tár á hvarmi. Svo á að vera árshátíð íslenska skólans, lautarferð í Vincennes-skóginum. Veðurspáin er ekki eins ömurleg og hún var í gær, en ég þarf að finna til regnföt á liðið. Sjálf er ég stoltur eigandi fagurrauðrar regnkápu frá íslenska fyrirtækinu sem gerir ykkur kleift að vera lengur úti. Engin slorflík, ég gladdist í gær þegar loksins fór að rigna og ég gat vígt hana.
Hópurinn hefur líklega tekið slatta af myndum af mér, kannski ég geti skellt inn mynd af nýja lúkkinu bráðlega.
Lifið í friði.
einkunn
Einkunn í hljóðfræði komin: 8,5.
Kennarinn er svo mikill atvinnumaður að hann sendi okkur bréf með tölfræðilegum upplýsingum, það hef ég aldrei fengið áður.
Meðaleinkunn var eitthvað undir 7, 2 af 49 náðu ekki prófinu.
Þetta finnst mér frábært að fá að vita. Og til að svara kennaranum góða: Ég lenti ekki í neinu tímahraki, en fannst ég allt í einu vera á leið í að lenda í því þegar ég var að byrja að svara annarri valspurningunni, eftir að hafa svarað hinni. Sem betur fer áttaði ég mig á því á örfáum mínútum, líklega m.a. vegna þess ágæta verklags að setja tímaáætlun á spurningarnar, það finnst mér góð hugmynd.
Ég býst fastlega við að þau sem voru í virkilegu tímahraki, hafi verið þau sem treystu á að lesa sér til í prófinu sjálfu. Það segir sig sjálft að slíkt er vonlaust, þó maður hafi glósur og bækur þarf maður að vita hvað stendur í þeim áður en maður sest í tveggja tíma próftöku.
Lifið í friði.
örlítið af henni sjálfri
Ég sit hér með rauðvín af því svo undarlega vildi til að ég
átti ekki hvítvín þegar á hólmninn var komið. Rauðvín er reyndar alveg jafngott og hvítvín, jafnvel betra. Svo er ég líka með sígó en það er leyndarmál sem ekki má segja frá. Ég hef tíma núna því ég er of þreytt til að hringja í einhverja af mínum vanræktu vinum, of spennt til að rjúka upp í rúm. Svo það er best að blogga:
Ég fékk bréf í pósti í dag sem segir að ég sé samþykkt í MA nám með þeim skilyrðum að ég taki ákveðinn kúrs. Ég hef ekki hugrekki til að skoða hvort að ég verði að taka þann kúrs á Íslandi eða af hverju er hann nefndur svona sérstaklega. Ég þarf að redda 45 þúsundkalli, sem ég mun gera ef ég ákveð að vaða í þetta. Sem er ekki ákveðið. En samt... næstum ákveðið.
Það mun þó þýða að ég þarf að taka aðrar ákvarðanir sem verða kannski sársaukafullar, kannski eðlilegar, ég veit það ekki ennþá.
Ég er búin að þrífa viftuna og búin að komast að því að einhver þarf að reikna út fyrir mig hvort einn brúsi af viðbjóðslegu CIF í spray-formi, ásamt ótal lítrum af sjóðheitu vatni, ótal ótal, sé nokkuð betra fyrir móður náttúru en einfaldlega að láta endurvinna gömlu viftuna og kaupa í staðinn nýja. Einnig vildi ég fá betri rök fyrir því að glugginn sé jafngóður eins og einhverjir vildu vera láta í athugasemdum á dögunum. Ég er með góðan glugga sem ég opna iðulega við eldamennsku, en miðað við ógeðið sem var inni í viftunni, hef ég bjargað eldhúsinnréttingu og viðkvæmum höndum mínum (sem nú eru hreistraðar og illa haldnar) frá slatta af skít. Ætlið þið að segja mér að viftur séu einskis nýtar?
Ég fór í indælis óskipulagða ferð um sveitir Champagne í dag. Fórum aftur til sama kampavínsbónda og síðast. Hann gaf foreldrum mínum og ónefndum doktorsnema sem fylgdi okkur, alls konar kampavín að smakka. Ég smakkaði smá sjálf en var ofurmeðvituð um að þú keyrir ekki og drekkur.
Ég keypti samt kassa og annan og þau sitt af hvoru tagi. Svo fengum við öll tappa að gjöf. Þegar ég var að bakka út, stoppaði kampavínsbóndinn okkur með handapati, opnaði skemmu og dró út forláta mótorpumpu og pumpaði í dekkin á bílnum. Ég hef verið á leiðinni að gera þetta lengi, búin að fá viðvaranir à droite et à gauche (hægri vinstri) um tíma, en hef aldrei vitað almennilega hvernig ég ætti að snúa mér í málinu. Og pumpan á bensínstöðinni sem ég heimsæki á ca tveggja mánaða fresti hefur í síðustu tvö skipti verið biluð.
Nú á ég fullt af kampavíni OG bíldekk full af lofti. Meðan bóndinn tappaði lofti í dekk og sagði mér allt um kílópressjón sá ég að doktorsneminn og móðir mín byrja að baða út öllum öngum og vippar svo doktorsneminn sér út úr bílnum og byrjar að ræða við bóndakonuna. Hún hverfur inn í vínskemmuna og kemur út með lítinn brúnan kassa. Það voru sex glös handa móður minni sem hafði farið að tala um að hún vildi líka kaupa glös. Greiðslu var neitað fyrir það. Ég fyllist alltaf trú og von þegar ég hitti fyrir
bissnessfólk sem er ekki með fokkings dollaramerkið í augunum stanlaust. Ég vona að ég sé líka s
vona bissnessfólk.
Ég verð að taka ákvörðun. Það er erfitt. Er ég að fara að verða MA í þýðingarfræðum? Það eina sem ég veit, er að ég orðin ljóshærðari en ljóshærðasta sænska pía. Lessulúkkið í algleymingi. Þótt ég sé ekki einu sinni lella.
Lifið í friði.
fleiri vita hvað þau syngja
Hér er t.d. eitt í viðbót sem er svo satt og rétt fituhlunkarnir ykkar (og gvuð hvað ég er akkúrat núna meðvituð um að eingöngu gott fólk með gott hjarta les þessa síðu):
Hugvekjan hennar Nönnu.
Lifið í friði.
kólibrífuglinn veit hvað hann syngur
Ég hef kannski ekki tíma til að skrifa, en aðrir hafa það sem betur fer, eða því miður eftir því hvernig á málin er litið.
Að
fjallabaki kurrar í kólibrífugli.
1,
2 og
3.
Þetta er líka fín úttekt.
Ég er rokin.
Lifið í friði.
fíkn
Ég er bloggfíkill og er komin með fráhvarfseinkenni.
En ég hef engan tíma.
Líklega eins gott að ekki er hægt að kaupa tíma á uppprengdu verði af sóðalegum gaurum á Hlemmi. Gjaldmiðillinn hlýtur að vera svefn, og hann læt ég ekki. Kannski er ég bara hundlélegur fíkill.
Lifið í friði.
+/- samhengi
Ég sé svo margt í samhengi sem aðrir sjá ekki. Ég hef vitanlega ekki hugmynd um það hvort ég hef rétt eða rangt fyrir mér en stundum langar mig að stappa og öskra á samhengislausa liðið. En ég bít í kinnar mér og þegi.
Lifið í friði.
raflost
Kannski raflostið frá Tromsö nái að koma mér í gang?
Hér er eldhúsvifta sem hefði þurft að þrífa fyrir ári síðan, brunavarnarmálaráðstöfunaraðgerðarlega séð, gluggarnir eru líka ógagnsæir, rykið eftir framkvæmdirnar við götubreytingar liggur enn á bókum og inni í glerskápum eru öll smáborgaralegu glösin ónothæf og ekki beint fegrandi fyrir heimilið.
Hankinn á baðinu er enn skakkur, nýja hillan tekur allt of mikið pláss í stofunni, engir stólar hafa verið lakkaðir.
Og af hverju er ég að hafa áhyggjur af svona ómerkilegum hlutum? Jú, mamma og pabbi eru að koma á laugardaginn. Og þegar mamma og pabbi koma í heimsókn yfir hafið á allt að vera fullkomið. Það liggur í augum uppi.
Lifið í friði.
af sól og draugum, borvél og bananabrauði
Helgin var svo indæl að það tekur sig ekki að skrifa um hana. Sól og meiri sól með tilheyrandi hita. Máluðum þrjá stiga fyrir herragarðsfrúna, borðuðum allar máltíðir úti, líka síðbúna kvöldverði, drukkum vín, spiluðum manna, lékum okkur með bolta, hlustuðum á ærandi froskasöng, fórum í sund og sluppum við umferðarhnúta á leiðinni heim þrátt fyrir að freistast til að eiga allan mánudaginn í bóklestur og hangs í sólinni.
Hversdagurinn hófst svo á fullu hér í dag. Fyrst lá leiðin á markaðinn, keypti grænmeti og ávexti fyrir heilar 15 evrur. Svo skrúfaði ég upp hanka á baðið en hætti við að skrúfa upp nýja hillu þar sem árangurinn með hankana var ekki nógu góður. Þarf að kaupa skrúfur með flötum haus, nennti ómögulega að leggja leið mína í skrúfubúð í dag.
En meðan ég boraði bakaðist bananabrauð sem tókst með afbrigðum vel. Ég nota alltaf
uppskrift frá Nönnu en þar sem ég átti ekki vanilludropa setti ég sítrónudropa. Ekki verra. Svo nota ég spelt af því ég á það. Ég ákvað eftir smá sjálfsþerapíu að ætla ekki að taka þessu þannig að ég eigi betur heima við eldavélina en með borvél í hendi.
Mér tókst að ganga frá öllum farangri, eða því sem næst og skellti í eina vél. Þvotturinn var orðinn þurr í eftirmiðdaginn en hangir enn brakandi á snúrunum. Hver þarf þurrkara þegar búið er í vænu landi með blíðri veðráttu?
Svo var haldið í matvöruverslun og keypt inn eins og hætta væri á stríði.
Rétt náði að ganga frá innkaupum, drekka mjólk og borða bananabrauð áður en ég rauk út að hlaupa.
Ég er ein heima í kvöld og sit hér með rósavín í glasi og fer yfir ástandið í bloggheimunum mínum. Ég er líka með moggann frá 3. maí, kannski vissi pósturinn að ekki væri ráð að afgreiða mig með mogga í síðustu viku þar sem ég var í próflestri. Ha? Próflestri? Mér finnst eins og það sé ár síðan ég var í prófum.
Ég er með smá höfuðverk, fann hann þegar ég var að hlaupa en hann hefur ekki ágerst, er bara þarna á bakvið. Kannski slær rósavínið á hann.
Mitt líf er fallegt. Ég á svo sem alveg slatta af hlutum að hafa smá áhyggjur af, en mér líður samt vel og læt engar bévítans áhyggjur trufla það. Er það nokkuð rangt af mér? Til dæmis fékk ég smá samviskubit yfir annarra manna þungum áhyggjum af ölvun á fjöllum. Finn einhvern veginn enga þörf fyrir að taka þátt í þeim áhyggjum. Jú, ég vil að fólk passi sig á fjöllum, þ.e. ekki á fjöllunum sjálfum heldur sjálft sig í óbyggðum. Og auðvitað er ljótt að keyra fullur, og enn ljótara að taka ekki ábyrgð á gerðum sínum þegar einu jeppaflykki er velt á fallegan og góðan fjallaskála. Jú, kannski mér takist að hafa áhyggjur af yfirgangi og frekju í smá stund núna. Er þetta nokkuð að versna samt? Er þetta ekki bara eitthvað svona alveg týpískt og mannlegt?
Ég sagðist vera ein, sofandi börn teljast nefninlega ekki með, en hér er draugur að gera vart við sig. Hann hefur reynt að taka í hurðina nokkrum sinnum og rétt í þessu opnaðist hún hægt og rólega með ískri (það ískrar aldrei í henni) en áður en ég gat séð ófrýnilegt fés eða óðan mann með hníf í gættinni, skelltist hún aftur með slíkum látum að ég efast um að hún opnist nokkurn tímann aftur.
Lifið í friði.
Vive l'été!
Fjú hvað þetta er skrýtin tilfinning. Mun sterkari en mig minnir frá því í desember, þá var ný önn á næsta leiti (ekki segja mér að þið viljið skrifa svona leiti með ypsíloni) en núna er heilt sumarfrí framundan. Frí frá námi í það minnsta.
Reyndar veltur allt á því hvernig svar ég fæ við umsókn um MA-nám. Ef ég fæ nei, held ég þá áfram á BA-stigi í íslensku? Ég er komin á bragðið, ég játa það. Og ef ég fæ já, þarf ég þá ekki bara að byrja strax að lesa, nógu mikið er af bókum á lestarlistum námskeiðanna.
Undarlegt en satt, þá skemmti ég mér ágætlega í prófinu áðan. Ekkert sem fékk mig til að svitna og líða illa, sumt sem ég þurfti að hugsa mig vel um og fletta upp í glósunum til að rifja upp en ég svaraði öllu og gerði það eins vel og ég gat.
Reyndar lenti ég í einu fáránlegu, ég átti að nefna dæmi um orð sem væri rót + rót + beygingarending, en báðar ræturnar áttu að vera bundnar sem þýðir að þær geta ekki staðið stakar sem orð. Mér datt orðið jarðfræði í hug og býst við að það sé rétt dæmi um svona orð. Mér fannst það hins vegar svo trist að ég ákvað að skrifa jarðálfur í staðinn. Það er slæm hugmynd því álf getur alveg staðið eitt og sér sem þolfall af álfur. Ég er því amk með eitt svar kolvitlaust.
Þetta ætti að kenna mér það sem ég veit, alltaf að fara eftir fyrsta hugboði.
Reyndar er þetta enn sorglegra þar sem þetta er í fyrsta sinn í vetur sem dæmi kemur upp í kollinn á mér sem passar við það sem beðið er um (þ.e.a.s. jarðfræðin gerir það, held ég). T.d. var eini liðurinn sem ég skildi eftir tóman á hljóðfræðiprófinu sá sem bað mig að nefna tvö önnur orð sem urðu fyrir sömu hljóðskiptum og öðrum breytingum og orðið sem unnið var út frá. Yfirleitt blokkerast heilinn í mér algerlega þegar ég er beðin um svona dæmi. Eins og ég get bullað og farið út um hvippinn og hvappinn með orð og texta, get ég bara ekki fylgt einhverri svona línu sem er sett upp í orðnotkun.
Þetta er örugglega skemmtileg færsla til að láta standa hér yfir helgina. Ég er að vinna í fyrramálið og svo ætla ég að bruna í sveitina, liggja í nýslegnu grasi, horfa á trén bærast í golunni, fara í göngutúr niður að ánni (það minnir mig alltaf á ömmu Helgu, oh, hvað hún hefði fílað franska sveit), leika mér í frisbí, borða grillaðan mat og drekka fullt af víni með.
Lifið í friði.
mig
Fornöfn eru svo skemmtilega óregluleg, ég treysti því að þau verði ekki til prófsins.
Nú á ég eftir að lesa yfir miðannarverkefnið sem ég skilaði frá Alpafjöllum og fékk til baka með einkunninni 7,5 og ekki einni einustu athugasemd. Ég gleymdi alltaf að kvarta yfir því, frekar seint núna.
Þegar ég er búin að lesa úrlausn kennara vel yfir, og bera saman við mína og reyna að skilja hvað það var sem ég sleppti, ætla ég að treysta á að ég detti út eins og steinn. Ef ég sef vel í nótt, mér líður nú þegar eins og steinn svo mér þykir það líklegt, ætla ég að fara út að skokka í fyrramálið. Eða út í skokkun við vöknun því ég er svo mikill skokkisti eða skokkuður eftir smekk.
Þið vitið ekki hvað þið eruð heppin, mér tekst svo oft að halda fimmaurabrandaraþörfinni niðri. Þið sjáið bara toppinn á ísjakanum sem þið getið sem sagt ímyndað ykkur að er nokkuð óhugnalegur.
Lifið í friði.
ímyndin
Við gátum náttúrulega ekki valið frelsi - jafnrétti - bræðralag, það var upptekið.
Kraftur - frelsi - friður er líka ágætt í sjálfu sér.
Ánægjulegt að friðurinn skuli standa þarna með, ég held einmitt með honum mest af öllu. Næst held ég upp á verndun plánetunnar, það vantar þarna inn í.
En það gerjast í mér spurningar um frið og franska varnarliðsmenn og gamlar sögur af hermönnum og ástandi og ég er svo hrædd um að þessir frönsku varnarliðsmenn sái kannski herskáum fræjum í frjóan svörð. Spurning hvort nefndin eigi að byrja á að beita sér fyrir því að skírlífisbeltum verði dreift meðan erlendir hermenn eru á landinu? Eða beita sektum á konur sem liggja hjá hermönnum? Æ, ég veit það ekki, ekki tala við mig, ekki hlusta á mig, ég er aðallega að pæla í beygingarmyndum og að sjálfsögðu í morðhugleiðingum á meðan.
Lifið í friði.
tíra
Ég trúi því ekki að ég hafi skrifað
týra í gær. Og m.a.s í hausinn á glósublaðinu mínu líka. Ég veit alveg að dauft ljós er tíra. En það er greinilega ekki mikið af slíku hér. Og enginn leiðréttir mig heldur. Þið eruð ekki vinir mínir lengur.
Lifið í friði.
bókin
Á dögunum fékk ég senda bók frá
þessum manni. Ég ákvað að opna hana ekki fyrr en að prófum loknum.
Á þriðjudagsmorgun, fyrri prófdegi, var ég næstum því búin að rífa hana upp til að lesa
bara eitt ljóð því ekki getur maður farið að lesa fyrir próf klukkutíma áður en maður gengur út. En ég stoppaði mig, fékk einhvers konar hjátrúartilfinningu, ég var búin að ákveða að bíða fram yfir prófin og ef ég geri það ekki klúðrast allt.
Svo bókin er enn innpökkuð á náttborðinu. Og ég hef í raun ekki lesið neitt nema námsefni í tvær vikur, jú, kíki í laugardagsmoggann og les vitanlega blogg. Svo er ég með
Baróninn hans Þórarins Eldjárns opna á náttborðinu en hef ekki leyft mér að lesa nema nokkrar blaðsíður svona þegar ég er búin að lesa eitthvað námstengt í rúminu og vil tryggja að ég sofni róleg.
Djassinn ómar í hausnum á mér, ásamt hátíðnihljóðinu, fuglasöng og lögunum í
Nightmare before Christmas. Síðasti dagurinn. Svo vakna ég á morgun og les ekki ljóð og fer í prófið og svo er þetta búið og sólin skín og ég verð frjáls... í bili.
Lifið í friði.
glas
Í gær fékk ég mér hvítvínsglas með hádegismatnum sem var bœuf tartare. Í kvöldmatinn er salat og ég er harðákveðin í að fá mér rauðvínsglas með. Kannski m.a.s. tvö.
Ég lærði fátt nýtt í dag, hressti upp á minnið með staðreyndir eins og að þessi ending væri frjórri en hin og svo framvegis. Glósublöðin mín heita: Glósur úr glósum í von um tíru. Hún kemur kannski á morgun, kannski ekki, en ég fer í prófið á föstudeginum hvort sem það gerist eður ei. Og svo er ég búin.
Var ég búin að segja ykkur að ég var næstum búin að láta keyra mig niður á leið í prófið á þriðjudeginum? Nei, ég gleymdi því alveg. Málið er að ég þarf að fara hálfhring í kringum Sigurbogann og breiðgöturnar út frá honum eru allar með ljósum en stundum eru þau óendanlega lengi rauð fyrir gangandi vegfarendur. Eftir síendurtekna langa bið missti ég þolinmæðina og rauk af stað á rauðu á einu strætanna. Það var arfaslæm hugmynd og litlu munaði að ég hætti að vera til.
Ef ég þarf að drepast í umferðarslysi vil ég helst að það sé á leið að hitta manninn minn eða eitthvað svona dramatískt, ekki bara á leið í fokking próf, takk.
Lifið í friði.
vorkunn
Tvisvar sinnum nýlega hef ég lent í undarlegum viðbrögðum þegar ég segist vera að læra íslensku. Í bæði skiptin kom hik eða fát á viðmælendur, svipurinn lokaðist. Ég túlkaði það sem einhvers konar vorkunn, sem það í rauninni var, en ekki sams konar vorkunn og sú sem ég bjóst við. Það létti öllum mikið þegar í ljós kom að ég er ekki að læra íslensku í háskólanum í París, sigri hrósandi meðal útlendinganna.
Lifið í friði.
10.07
Ég svaf til hálfníu, sem kallast að sofa út á þessu heimili.
Ég er búin að drekka stóran góðan kaffibolla.
Ég er búin að svara nokkrum fyrirspurnum og skrá fólk í gönguferðir.
Ég er búin að kíkja á þau örfáu blogg sem bæst höfðu við frá því í gær og gægjast á nokkra athugasemdahala.
Ég er búin að sitja hérna og horfa út í loftið.
Ég er búin að kíkja á svarið við fyrstu spurningunni í æfingaverkefninu og ákvað að gera allt verkefnið upp á nýtt áður en ég kíkti áfram. Það staðfestist enn og aftur að ég veð í villu og svíma í þessu fagi.
Spurt var um gagnsæi merkingar orða, göngugata, skáldkona og blómapottur. Ég var með skáldkonuna í samræmi við hans pælingar, eingöngu vegna þess að hún var rædd í fyrsta tíma. Fyrir hin tvö fer ég í allt aðrar áttir og fæ allt aðrar niðurstöður.
Það er risastór geitungur inni hjá mér. Glugginn er galopinn en hann flögrar hér um og fer ekki út. Hjálp! Oh, nú sé ég hann ekki, ég dey.
Ég verð að fara að fá mér morgunmat, en það verður ekkert hægt að gera fyrr en geitungurinn flýgur út.
Lifið í friði.
kennslustund í kvennafræðum
Dóttir mín spurði mig áðan hvort allt fullorðið fólk stundaði íþróttir. Ég sagði svo ekki vera. Hún spurði hvers vegna fólk stundaði íþróttir og svaraði svo sjálf um leið að fólk gerði það til að vera heilbrigðara og til að fitna minna.
Ég greip þetta fína tækifæri á lofti og sagði henni að mér væri nú eiginlega sama um fituna, ég vildi vera í góðu formi, með eitthvað af vöðvum og ekki mása og blása þegar ég hreyfði mig. Ég sagði henni eins og er að mér finnast feitlagnar konur oft sérlega fallegar, kleip í mitt eigið magaspik og lofaði henni að mér þætti nú bara vænt um það.
Hún brást við með gleði, tók utan um mig og kyssti mig í bak og fyrir.
Ég væri alveg til í að vera með flatan maga en ég er ekki til í að leggja það á mig sem ég þarf til þess. Ég nenni ómögulega að hætta að drekka áfengi, að borða góðan mat og osta og lifa mínu ljúfa lífi. Ég passa mig samt, held mér í mínu ágæta ástandi, ég er hvorki feit né grönn, bara mátuleg, eins og ég þarf að vera.
Ég vona innilega að dóttir mín eigi ekki eftir að þurfa að halda megrunarlausa daginn heilagan. Ég óska henni alls ekki að verða einhver fituhlunkur en ef svo færi, vona ég að hún verði samt sátt og sæl, því þar er fegurðina að finna, í sjálfstrausti og sátt við eigin líkama.
Þetta er svo væmið og leiðinlegt að ég er alvarlega að hugsa um að láta þetta fara í glatkistuna. En mig langar samt líka til að láta þetta standa því ég vona að ég sái kannski fræjum í huga kvenna og karla sem eiga samneyti við litlar stelpur. Þær eiga það alveg jafnskilið að vera hlíft við ranghugmyndum um líkamslögun eins og að þurfa ekki lengur að fá reykinn framan í sig í aftursætinu á bílnum.
Lifið í friði.
léttblogg
Eitt búið, eitt eftir. Ég ætla ekki að tala um hvernig mér gekk því kennarinn minn les nefninlega bloggið mitt. En mér er létt.
Í morgun vaknaði ég og geispaði stórum og teygði mig með látum. Maðurinn minn kom valhoppandi inn í herbergi, brosandi út að eyrum og spurði hvort ég vildi ekki kaffi. Ég fæ þessa þjónustu á hverjum morgni, kaffi í rúmið.
Ég spurði hann hvernig í ósköpunum hann færi að því að vera svona kátur og glaður á morgnana með kellinguna draugfúla á leið í próf og börnin að hugsa um og koma í skólann á réttum tíma. Hann segir að sól að morgni sé nóg fyrir hann til að ná að byrja daginn í góðu skapi.
Einu sinni sagði vinkona við mig að ég ætti þennan mann ekki skilinn en ég ákvað strax að trúa henni ekki. Í dag efast ég örlítið í fyrsta sinn. Ég er búin að vera ömurleg eiginkona undanfarið, á kafi í bókum og glósum, pirruð og uppstökk, stressuð og bara hundleiðinleg. Samt er hann alltaf boðinn og búinn og kvartar aldrei yfir því að allt skuli lenda á honum. Maðurinn minn er hreint ágætur, ég vona að hann viti að ég viti það.
Nú ætla ég að dressa mig upp í hlaupagallann og fara og taka svolítið á. Ekki veitir af að losa örlítið um spennuna í öxlunum og koma blóðinu á hreyfingu. Mér líður eiginlega eins og ég sé ekki að fara í annað próf, þetta sé bara búið. Kannski að hluta til vegna þess að ég veit ekki ennþá um hvað hitt prófið mun fjalla, ég veit ekki enn hvað það er sem ég á að kunna, hef ekki græna glóru. Ég er búin að ákveða að taka þessu bara djassað. Talið við mig aftur á fimmtudagskvöldið, líklega verður ekki mikill djass í mér þá.
Lifið í friði.
-12
öngljóðun
framómun
það felst fegurð í sumum tæknilegu hugtakanna, með smá tilfæringum
Lifið í friði
þögnin
er óbærileg
höfuðverkurinn er líka óbærilegur
tíminn flýgur óbærilega hratt en samt líka eiginlega óbærilega hægt - er þetta hægt?
Lifið í friði.
rækjur og orðanna hljóðan
Ég fékk mér rækjur í hádegismat. Það hafði róandi áhrif á mig að pilla þær í sundur og þær voru gómsætar. En þegar um fjórar rækjur voru eftir og hrúgan af skel og hausum með tilheyrandi þreifurum var orðin þeim mun stærri, fylltist ég skyndilega einhvers konar ógeðstilfinningu, fannst ég hafa úðað í mig kakkalökkum eða einhverju ámóta spennandi hráefni. Það var ekki eins róandi. Eins gott að ég á súkkulaðikökuafgang frá afmæli tengdamömmu í gær. Fæ mér svoleiðis þegar maginn róast aðeins niður.
Ég er búin að fá tvo mjög uppörvandi tölvupósta frá vinkonum og eitt alvöru raunheimafaðmlag frá annarri vinkonu. Svo las ég skemmtilega
hugleiðingu Ástu Svavars áðan, það er nú slatta uppörvun í að lesa svona jákvæðni.
Samt líður mér eiginlega hörmulega svona heilt yfir eins og sumir myndu orða það. En ég veit líka að þetta er bráðum búið og ætlast ekki til vorkunnar.
Ég er komin á stigið að ég kannast ekki við orðin sem ég les, ha, opið atkvæði? Aldrei heyrt á það minnst. Önghljóð? Er það eitthvað ofan á brauð?
Lifið í friði.
bjartsýni
Ég er bjartsýn að eðlisfari, held ég.
Lifið í friði.
blúbb
Svo þreytt en get ekki farið að sofa, er alltaf hægt að lesa meira og meira meir'í dag en í gær? Ég hef á tilfinningunni að höfuðið á mér sé gersamlega að springa, hátíðnisónninn hefur hækkað.
Lifið í friði.
skrekkur
Mig langar ekki í próf þar sem ég má hafa gögnin. Martraðirnar ganga út á mig að fletta í bókum og lesa og svo er tíminn úti og ég hef ekkert skrifað.
Ég hef ekki fengið leiðréttingar á verkefnum sem áttu að berast í pósti. Ég mun redda mér með óleiðréttum úrlausnum mínum ásamt réttri úrlausn frá kennara en ég hefði alveg viljað sjá athugasemdirnar, þær eiga það til að varpa ljósi á nemandans villu vegar. Kannski koma þær á morgun, kannski ekki.
Hins vegar gleður það mitt litla hjarta að fara í dag í fyrsta göngutúrinn í alvöru hita og sól í dag. Það verður gaman. Alltaf kemur þó sama vandamálið upp þegar veður skipast svona drastískt í lofti: Í hverju á ég að vera?
Lifið í friði.
gott er í sólinn'að gleðja sig
Ég fór út áðan berfætt í sandölum. Og veðrið leyfir það algerlega. Nú finn ég á mér að það er komið, sumarið. Ekki aftur flauelsfrakki fyrr en í haust.
Lifið í friði.
ekki fyrir alla
Þetta er bara fyrir þau ykkar sem kunna frönsku:
Hugmynd að nafni á fransk-íslenskum dreng væri Hörður Hávar.
Lifið í friði.
afdrifarík ákvörðun
Ég er að taka mjög afdrifaríka ákvörðun. Eða réttara sagt, ég
þarf að gera það. En ég get það ekki.
Þetta truflar lestur og pælingar í fokking orðhlutum. Mig langar óheyrilega mikið til að sitja úti á terrössu með vinum eða ástkærum eiginmanni eða bara einhverjum að slúðra og blaðra og helst að hella í mig einhverjum skrautlegum kokkteilum eða calvadosi.
Mig langar ekki til að vera svona kvíðin. Ég vildi að það væri núna viku síðar. Þó ég muni væntanlega ekki sitja að sumbli þann dag því ég þarf að fokking vinna daginn eftir.
En ég verð þá búin í fokking prófunum.
Fokk hvað þetta er leiðinlegt ástand.
Lifið í friði.
tvær
Ég er búin að fá tvær auglýsingar í tölvupósti sem varða mæðradaginn. Hann er, minnir mig, 25. maí. Ég ætla að telja auglýsingarnar fram að því.
Á þessu heimili höldum við aldrei upp á svona markaðssettar "hátíðir", valentínus, mamman, pabbinn, konan, bóndinn, allir þessir dagar eru markleysa. Ég fékk ekki blóm á konudaginn síðasta og ó, haldið ykkur fast, ég þjáðist ekki neitt. Enda fæ ég nokkuð reglulega blóm frá manninum mínum, á dögum þar sem það kemur mér virkilega á óvart og þar sem ekki hefur verið hamrað inn í okkur bæði með öllum tiltækum ráðum að ást okkar þurfi einhvers konar staðfestingar við einmitt þennan ákveðna dag.
Hins vegar langar mig töluvert mikið í i-pod (sem var önnur auglýsinganna tveggja), spurning hvernig ég á að stinga þeirri hugmynd að manninum mínum að koma mér á óvart með i-pod einhvern daginn, í staðinn fyrir blóm af markaðnum?
Dagurinn í gær var með þeim lengri, fór út klukkan átta að morgni, kom heim hálfeitt um nótt. Er afar tuskuleg (Ég skrifaði fyrst tussuleg en fannst það svo of gróft fyrir lesendur. Það er ekkert gróft í mínum huga en ég er tillitsöm og ber virðingu fyrir viðkvæmninni í ykkur teprurnar ykkar.) í dag og þar að auki farin að kvíða svo mikið fyrir prófunum að ég skil ekki stakt orð í því sem ég er að lesa. Fór í heitt ilmandi bað og fékk mér góðan hádegisverð og bætti steinefnum í töfluformi við. Sjáum hvort það hefur áhrif á panikástandið í Copavogure.
Lifið í friði.
hjúkkurnar
Þau láta ekki að sér hæða, hjúkrunarfræðingarnir. Vísa í orð Vésteins, þetta er gott fordæmi og sýnir að yfirstjórnir fyrirtækja og stofnana geta ekki breytt fyrirkomulagi án samþykkis starfsfólksins, svo lengi sem starfsfólkið sýnir fullkomna samstöðu um að neita að samþykkja breytingarnar. Ergo: vinnandi fólk
hefur ákvörðunarvald sem það
getur nýtt sér. Viljinn er allt sem þarf.
Og svo vildi ég bara láta mig og ykkur vita að
ÞAÐ VERÐUR GOTT VEÐUR Í DAG
ÞAÐ VERÐUR GOTT VEÐUR Í DAG
ÞAÐ VERÐUR GOTT VEÐUR Í DAG
HANN HANGIR ÞURR
HANN HANGIR ÞURR
HANN HANGIR ÞURR
Lifið í friði.