2.5.08

tvær

Ég er búin að fá tvær auglýsingar í tölvupósti sem varða mæðradaginn. Hann er, minnir mig, 25. maí. Ég ætla að telja auglýsingarnar fram að því.
Á þessu heimili höldum við aldrei upp á svona markaðssettar "hátíðir", valentínus, mamman, pabbinn, konan, bóndinn, allir þessir dagar eru markleysa. Ég fékk ekki blóm á konudaginn síðasta og ó, haldið ykkur fast, ég þjáðist ekki neitt. Enda fæ ég nokkuð reglulega blóm frá manninum mínum, á dögum þar sem það kemur mér virkilega á óvart og þar sem ekki hefur verið hamrað inn í okkur bæði með öllum tiltækum ráðum að ást okkar þurfi einhvers konar staðfestingar við einmitt þennan ákveðna dag.

Hins vegar langar mig töluvert mikið í i-pod (sem var önnur auglýsinganna tveggja), spurning hvernig ég á að stinga þeirri hugmynd að manninum mínum að koma mér á óvart með i-pod einhvern daginn, í staðinn fyrir blóm af markaðnum?

Dagurinn í gær var með þeim lengri, fór út klukkan átta að morgni, kom heim hálfeitt um nótt. Er afar tuskuleg (Ég skrifaði fyrst tussuleg en fannst það svo of gróft fyrir lesendur. Það er ekkert gróft í mínum huga en ég er tillitsöm og ber virðingu fyrir viðkvæmninni í ykkur teprurnar ykkar.) í dag og þar að auki farin að kvíða svo mikið fyrir prófunum að ég skil ekki stakt orð í því sem ég er að lesa. Fór í heitt ilmandi bað og fékk mér góðan hádegisverð og bætti steinefnum í töfluformi við. Sjáum hvort það hefur áhrif á panikástandið í Copavogure.

Lifið í friði.