25.5.08

sunnudagstepoki

Í gærkvöld horfði ég á íslenska lagið, til að geta svo hringt í hópinn sem ég er með um helgina og sagt þeim "hvernig gekk". Ég hef sérstakar ástæður til að dekra þennan hóp sérstaklega, mér einstaklega dýrmætt fólk fyllir hann. Ég ákvað að bíða og sjá Frakkland líka, sat með tölvuna í kjöltunni og fylgdist með öðru auga með skrípaleiknum.
Frakkar hefðu tvímælalaust átt skilið að verða ofar en við, eða þá í neðsta sæti enda lagið þeirra vitanlega langt utan við Eurovision standardinn, a.m.k. eins og hún hefur verið síðustu ár. Gainsbourg stemning í þessu andrómantíska lagi. Ég get ekki tjáð mig um önnur lög því ég hlustaði ekki og horfði varla. Mér fannst þó Bosnía-Hersegovnía töff með leikhústilþrifin og lag Króatíu var fallegt og, líkt og franska lagið, enginn Eurovision bragur að skemma það.

Jean-Paul Gaultier sat ásamt spyrli úr spurningaleik og gerði athugasemdir. Þeir voru nokkuð jákvæðir út í Ísland en ég náði þó að verða hissa á þeim. Spyrillinn setti sig í spurningakeppnisstílinn og bað um höfuðborg Íslands, J-P svaraði Osló. Ég veit að hann hefur komið til landsins og þetta hlýtur að hafa verið einhvers konar húmor í honum. Eða þá að hann er einfaldlega heimskur, sem er vissulega möguleiki, hann samþykkir alla vega að vera kynnir í Eurovision.

Svo lagðist ég upp í rúm með ljóðabók, Mogga og skáldsögu og fletti skipulagslaust í smá tíma áður en ég datt út af. Hef ekki hugmynd um hvað stendur í neinu ritanna, þarf að lesa allt aftur. Jú, það sló mig að strax á laugardeginum viku fyrir keppni var langur pistill um stemninguna í Belgrad. Ég nenni þó ekki að lesa þann pistil og mun væntanlega ekki nenna að lesa hann þó ég sé öllu hressari eftir nætursvefninn.

Í dag ek ég langdýrmætasta hluta hópsins upp á flugvöll og kveð með tár á hvarmi. Svo á að vera árshátíð íslenska skólans, lautarferð í Vincennes-skóginum. Veðurspáin er ekki eins ömurleg og hún var í gær, en ég þarf að finna til regnföt á liðið. Sjálf er ég stoltur eigandi fagurrauðrar regnkápu frá íslenska fyrirtækinu sem gerir ykkur kleift að vera lengur úti. Engin slorflík, ég gladdist í gær þegar loksins fór að rigna og ég gat vígt hana.

Hópurinn hefur líklega tekið slatta af myndum af mér, kannski ég geti skellt inn mynd af nýja lúkkinu bráðlega.

Lifið í friði.