glas
Í gær fékk ég mér hvítvínsglas með hádegismatnum sem var bœuf tartare. Í kvöldmatinn er salat og ég er harðákveðin í að fá mér rauðvínsglas með. Kannski m.a.s. tvö.Ég lærði fátt nýtt í dag, hressti upp á minnið með staðreyndir eins og að þessi ending væri frjórri en hin og svo framvegis. Glósublöðin mín heita: Glósur úr glósum í von um tíru. Hún kemur kannski á morgun, kannski ekki, en ég fer í prófið á föstudeginum hvort sem það gerist eður ei. Og svo er ég búin.
Var ég búin að segja ykkur að ég var næstum búin að láta keyra mig niður á leið í prófið á þriðjudeginum? Nei, ég gleymdi því alveg. Málið er að ég þarf að fara hálfhring í kringum Sigurbogann og breiðgöturnar út frá honum eru allar með ljósum en stundum eru þau óendanlega lengi rauð fyrir gangandi vegfarendur. Eftir síendurtekna langa bið missti ég þolinmæðina og rauk af stað á rauðu á einu strætanna. Það var arfaslæm hugmynd og litlu munaði að ég hætti að vera til.
Ef ég þarf að drepast í umferðarslysi vil ég helst að það sé á leið að hitta manninn minn eða eitthvað svona dramatískt, ekki bara á leið í fokking próf, takk.
Lifið í friði.
<< Home