kennslustund í kvennafræðum
Dóttir mín spurði mig áðan hvort allt fullorðið fólk stundaði íþróttir. Ég sagði svo ekki vera. Hún spurði hvers vegna fólk stundaði íþróttir og svaraði svo sjálf um leið að fólk gerði það til að vera heilbrigðara og til að fitna minna.Ég greip þetta fína tækifæri á lofti og sagði henni að mér væri nú eiginlega sama um fituna, ég vildi vera í góðu formi, með eitthvað af vöðvum og ekki mása og blása þegar ég hreyfði mig. Ég sagði henni eins og er að mér finnast feitlagnar konur oft sérlega fallegar, kleip í mitt eigið magaspik og lofaði henni að mér þætti nú bara vænt um það.
Hún brást við með gleði, tók utan um mig og kyssti mig í bak og fyrir.
Ég væri alveg til í að vera með flatan maga en ég er ekki til í að leggja það á mig sem ég þarf til þess. Ég nenni ómögulega að hætta að drekka áfengi, að borða góðan mat og osta og lifa mínu ljúfa lífi. Ég passa mig samt, held mér í mínu ágæta ástandi, ég er hvorki feit né grönn, bara mátuleg, eins og ég þarf að vera.
Ég vona innilega að dóttir mín eigi ekki eftir að þurfa að halda megrunarlausa daginn heilagan. Ég óska henni alls ekki að verða einhver fituhlunkur en ef svo færi, vona ég að hún verði samt sátt og sæl, því þar er fegurðina að finna, í sjálfstrausti og sátt við eigin líkama.
Þetta er svo væmið og leiðinlegt að ég er alvarlega að hugsa um að láta þetta fara í glatkistuna. En mig langar samt líka til að láta þetta standa því ég vona að ég sái kannski fræjum í huga kvenna og karla sem eiga samneyti við litlar stelpur. Þær eiga það alveg jafnskilið að vera hlíft við ranghugmyndum um líkamslögun eins og að þurfa ekki lengur að fá reykinn framan í sig í aftursætinu á bílnum.
Lifið í friði.
<< Home