20.5.08

örlítið af henni sjálfri

Ég sit hér með rauðvín af því svo undarlega vildi til að ég átti ekki hvítvín þegar á hólmninn var komið. Rauðvín er reyndar alveg jafngott og hvítvín, jafnvel betra. Svo er ég líka með sígó en það er leyndarmál sem ekki má segja frá. Ég hef tíma núna því ég er of þreytt til að hringja í einhverja af mínum vanræktu vinum, of spennt til að rjúka upp í rúm. Svo það er best að blogga:

Ég fékk bréf í pósti í dag sem segir að ég sé samþykkt í MA nám með þeim skilyrðum að ég taki ákveðinn kúrs. Ég hef ekki hugrekki til að skoða hvort að ég verði að taka þann kúrs á Íslandi eða af hverju er hann nefndur svona sérstaklega. Ég þarf að redda 45 þúsundkalli, sem ég mun gera ef ég ákveð að vaða í þetta. Sem er ekki ákveðið. En samt... næstum ákveðið.
Það mun þó þýða að ég þarf að taka aðrar ákvarðanir sem verða kannski sársaukafullar, kannski eðlilegar, ég veit það ekki ennþá.

Ég er búin að þrífa viftuna og búin að komast að því að einhver þarf að reikna út fyrir mig hvort einn brúsi af viðbjóðslegu CIF í spray-formi, ásamt ótal lítrum af sjóðheitu vatni, ótal ótal, sé nokkuð betra fyrir móður náttúru en einfaldlega að láta endurvinna gömlu viftuna og kaupa í staðinn nýja. Einnig vildi ég fá betri rök fyrir því að glugginn sé jafngóður eins og einhverjir vildu vera láta í athugasemdum á dögunum. Ég er með góðan glugga sem ég opna iðulega við eldamennsku, en miðað við ógeðið sem var inni í viftunni, hef ég bjargað eldhúsinnréttingu og viðkvæmum höndum mínum (sem nú eru hreistraðar og illa haldnar) frá slatta af skít. Ætlið þið að segja mér að viftur séu einskis nýtar?

Ég fór í indælis óskipulagða ferð um sveitir Champagne í dag. Fórum aftur til sama kampavínsbónda og síðast. Hann gaf foreldrum mínum og ónefndum doktorsnema sem fylgdi okkur, alls konar kampavín að smakka. Ég smakkaði smá sjálf en var ofurmeðvituð um að þú keyrir ekki og drekkur.
Ég keypti samt kassa og annan og þau sitt af hvoru tagi. Svo fengum við öll tappa að gjöf. Þegar ég var að bakka út, stoppaði kampavínsbóndinn okkur með handapati, opnaði skemmu og dró út forláta mótorpumpu og pumpaði í dekkin á bílnum. Ég hef verið á leiðinni að gera þetta lengi, búin að fá viðvaranir à droite et à gauche (hægri vinstri) um tíma, en hef aldrei vitað almennilega hvernig ég ætti að snúa mér í málinu. Og pumpan á bensínstöðinni sem ég heimsæki á ca tveggja mánaða fresti hefur í síðustu tvö skipti verið biluð.
Nú á ég fullt af kampavíni OG bíldekk full af lofti. Meðan bóndinn tappaði lofti í dekk og sagði mér allt um kílópressjón sá ég að doktorsneminn og móðir mín byrja að baða út öllum öngum og vippar svo doktorsneminn sér út úr bílnum og byrjar að ræða við bóndakonuna. Hún hverfur inn í vínskemmuna og kemur út með lítinn brúnan kassa. Það voru sex glös handa móður minni sem hafði farið að tala um að hún vildi líka kaupa glös. Greiðslu var neitað fyrir það. Ég fyllist alltaf trú og von þegar ég hitti fyrir bissnessfólk sem er ekki með fokkings dollaramerkið í augunum stanlaust. Ég vona að ég sé líka svona bissnessfólk.

Ég verð að taka ákvörðun. Það er erfitt. Er ég að fara að verða MA í þýðingarfræðum? Það eina sem ég veit, er að ég orðin ljóshærðari en ljóshærðasta sænska pía. Lessulúkkið í algleymingi. Þótt ég sé ekki einu sinni lella.

Lifið í friði.