13.5.08

af sól og draugum, borvél og bananabrauði

Helgin var svo indæl að það tekur sig ekki að skrifa um hana. Sól og meiri sól með tilheyrandi hita. Máluðum þrjá stiga fyrir herragarðsfrúna, borðuðum allar máltíðir úti, líka síðbúna kvöldverði, drukkum vín, spiluðum manna, lékum okkur með bolta, hlustuðum á ærandi froskasöng, fórum í sund og sluppum við umferðarhnúta á leiðinni heim þrátt fyrir að freistast til að eiga allan mánudaginn í bóklestur og hangs í sólinni.

Hversdagurinn hófst svo á fullu hér í dag. Fyrst lá leiðin á markaðinn, keypti grænmeti og ávexti fyrir heilar 15 evrur. Svo skrúfaði ég upp hanka á baðið en hætti við að skrúfa upp nýja hillu þar sem árangurinn með hankana var ekki nógu góður. Þarf að kaupa skrúfur með flötum haus, nennti ómögulega að leggja leið mína í skrúfubúð í dag.
En meðan ég boraði bakaðist bananabrauð sem tókst með afbrigðum vel. Ég nota alltaf uppskrift frá Nönnu en þar sem ég átti ekki vanilludropa setti ég sítrónudropa. Ekki verra. Svo nota ég spelt af því ég á það. Ég ákvað eftir smá sjálfsþerapíu að ætla ekki að taka þessu þannig að ég eigi betur heima við eldavélina en með borvél í hendi.
Mér tókst að ganga frá öllum farangri, eða því sem næst og skellti í eina vél. Þvotturinn var orðinn þurr í eftirmiðdaginn en hangir enn brakandi á snúrunum. Hver þarf þurrkara þegar búið er í vænu landi með blíðri veðráttu?
Svo var haldið í matvöruverslun og keypt inn eins og hætta væri á stríði.
Rétt náði að ganga frá innkaupum, drekka mjólk og borða bananabrauð áður en ég rauk út að hlaupa.

Ég er ein heima í kvöld og sit hér með rósavín í glasi og fer yfir ástandið í bloggheimunum mínum. Ég er líka með moggann frá 3. maí, kannski vissi pósturinn að ekki væri ráð að afgreiða mig með mogga í síðustu viku þar sem ég var í próflestri. Ha? Próflestri? Mér finnst eins og það sé ár síðan ég var í prófum.
Ég er með smá höfuðverk, fann hann þegar ég var að hlaupa en hann hefur ekki ágerst, er bara þarna á bakvið. Kannski slær rósavínið á hann.

Mitt líf er fallegt. Ég á svo sem alveg slatta af hlutum að hafa smá áhyggjur af, en mér líður samt vel og læt engar bévítans áhyggjur trufla það. Er það nokkuð rangt af mér? Til dæmis fékk ég smá samviskubit yfir annarra manna þungum áhyggjum af ölvun á fjöllum. Finn einhvern veginn enga þörf fyrir að taka þátt í þeim áhyggjum. Jú, ég vil að fólk passi sig á fjöllum, þ.e. ekki á fjöllunum sjálfum heldur sjálft sig í óbyggðum. Og auðvitað er ljótt að keyra fullur, og enn ljótara að taka ekki ábyrgð á gerðum sínum þegar einu jeppaflykki er velt á fallegan og góðan fjallaskála. Jú, kannski mér takist að hafa áhyggjur af yfirgangi og frekju í smá stund núna. Er þetta nokkuð að versna samt? Er þetta ekki bara eitthvað svona alveg týpískt og mannlegt?

Ég sagðist vera ein, sofandi börn teljast nefninlega ekki með, en hér er draugur að gera vart við sig. Hann hefur reynt að taka í hurðina nokkrum sinnum og rétt í þessu opnaðist hún hægt og rólega með ískri (það ískrar aldrei í henni) en áður en ég gat séð ófrýnilegt fés eða óðan mann með hníf í gættinni, skelltist hún aftur með slíkum látum að ég efast um að hún opnist nokkurn tímann aftur.

Lifið í friði.